Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-15/2008 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um frest á afborgun

Úrskurður

Ár 2008, miðvikudaginn 5. nóvember kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2008.

Kæruefni

Með bréfi til málskotsnefndar LÍN dags. 14. september 2008 sem móttekið var þann 18. september 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 5. september 2008 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum á árinu 2008 vegna lágra tekna. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 18. september 2008 þar sem stjórninni var gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 2. október 2008 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 7. október 2008 en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Bréf barst frá kæranda dags. 14. september 2008 þar sem kærandi kom á framfæri frekari athugasemdum í málinu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskaði eftir niðurfellingu „frystingu“ greiðslna afborgana af námslánum hans meðan hann situr af sér fangelsisdóm, en kærandi var settur í gæsluvarðhald í byrjun apríl 2008 og afplánar nú 2ja ára dóm. Stjórn LÍN synjaði erindinu á þeirri forsendu að samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra (yfirlit dags. 20. ágúst 2008) hefur kærandi þegar haft kr. 4.690.000 í tekjur á árinu 2008, en viðmiðun sjóðsins um lágar tekjur á árinu 2008 sbr. gr. 7.4.2. í úthlunarreglum eru kr. 1.900.000. Stjórn LÍN tók fram í athugasemdum sínum vegna kærunnar að líkur væru á að kærandi ætti möguleika á undanþágu frá greiðslu afborgana á árinu 2009 vegna skyndilegra og verulegra breytinga á högum hans.

Kærandi bendir á að auk þess að hafa setið í fangelsi frá apríl 2008 hafi hann skilið við konu sína á árinu og við það hafi fjárhagur hans rýrnað verulega. Þá bendir kærandi enn fremur á að hann hafi haft lítinn sem engan aðgang að meirihluta launa ársins 2008 en stærsti hluti þeirra voru greiðslur í uppsagnarfresti sem greiddar voru út eftir að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Niðurstaða

Með hliðsjón af því að tekjur kæranda hafa verið mun hærri á árinu 2008, þrátt fyrir fangelsisvist hans frá apríl 2008, en þau tekjumörk sem miðað er við af hálfu LÍN þegar ákvörðun er tekin um undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum skv. gr. 7.4.2. í úhlutunarreglum LÍN, þykir rétt að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 5. september 2008 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka