Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2008 - Skólagjöld - beiðni um undanþágu frá hámarki skólagjaldaláns

Úrskurður

 

Ár 2008, miðvikudaginn 12. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2008.

 

Kæruefni

 

Með bréfi til málskotsnefndar LÍN sem móttekið var 9. janúar sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 14. desember 2007, þar sem kæranda var synjað um hækkun skólagjaldaláns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 9. janúar sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 22. janúar sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 25. janúar sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Bréf barst frá kæranda dags. 9. febrúar sl. en móttekið 14. febrúar sl. þar sem kærandi kom á framfæri frekari athugasemdum í málinu.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar skólaárið 2007-2008 MA-nám á öðru ári í arkitektúr í Bandaríkjunum. Hann hóf þar nám haustið 2006, en hafði áður stundað BA-nám í arkitektúr við Listaháskóla Íslands árin 2002-2005. 

Kærandi sótti um lán til skólagjalda haustið 2007 og með útborgun skólagjaldaláns að fjárhæð 7.079 USD vegna náms á haustmisseri 2007 hafði kærandi fengið samanlagt skólagjaldalán frá LÍN að fjárhæð 42.000 USD, en það er hámarksfjárhæð skv. reglum sjóðsins. 

Kærandi mótmælir þessari afgreiðslu LÍN og bendir á að þegar þessi fastákveðna fjárhæð 42.000 USD hafi verið afgreidd til kæranda hafi hún jafngilt 2,8 millj. króna en hámark skólagjaldalána til annara hafi jafngilt 3,3 millj. króna. 

Kærandi telur þessa afgreiðslu fela í sér verulega og ómálefnalega mismunun milli námsmanna í Bandaríkjunum, annars vegar og annara námsmanna hins vegar og að um sé að ræða brot á 11. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur þessa afgreiðslu þ.e. að hámark skólagjaldaláns í Bandaríkjunum sé fastákveðin fjárhæð í bandaríkjadollurum byggjast á samkomulagi LÍN og SÍNE og mótmælir kærandi því að SÍNE hafi haft umboð frá sér til þessarar samningsgerðar. 

Þá telur kærandi að hann hafi ekki verið upplýstur um þessa takmörkun og að lækkunin hafi komið sér í opna skjöldu og telur LÍN ekki hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni. 

Stjórn LÍN bendir á að lánsréttur allra námsmanna í Bandaríkjunum sé ákvarðaður í USD, hvort heldur um er að ræða framfærslu- eða skólagjaldalán. Vegna gengisbreytinga og ólíkrar þróunnar kaupmáttar og verðlags eru lánsfjárhæðir vegna náms í Bandaríkjunum og á Íslandi óhjákvæmilega ólíkar. Í þessu sambandi bendir stjórn LÍN á að ef miðað er við gengiskráningu Seðlabanka Íslands 21. janúar 2008 (1 USD = 66,03 ÍSK) samsvarar háskólagjaldalán vegna náms í Bandaríkjunum um 2.773.260 ÍSK samanborið við 3.350.000 ÍSK á Íslandi. Sé jafnframt litið til útreiknings framfærsluláns kæranda 2007-2008 samsvarar það 1.237.270 ÍSK, en væri 1.056.600 ÍSK ef hann stundaði námið á Íslandi. 

Þá mótmælir stjórn LÍN þeirri fullyrðingu kæranda að leiðbeiningaskyldu hafi ekki verið sinnt og bendir á að skýrt sé kveðið á um hámark skólagjaldalána í reglum sjóðsins sem birtar eru með auglýsingu í Stjórnartíðindum og með sérstakri útgáfu bæði í formi bæklings og á vesíðu sjóðsins. Einnig bendir stjórn LÍN á að kæranda hafi verið send sérstök yfirlýsing um lánsrétt hans hjá LÍN vegna núverandi náms í júlí 2006. Yfirlýsingin var send að beiðni kæranda. Að lokum vill stjórn LÍN leiðrétta þann misskiling hjá kæranda að SÍNE hafi samið um hámark skólagjaldalána námsmanna. Hið rétta er að hámarkið er endurskoðað árlega af stjórn sjóðsins samhliða öðrum ákvæðum í úthlutunarreglum LÍN.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt gr. 3.1.2 í úthlutunarreglun LÍN er grunnframfærsla í útlöndum á námstíma skólaárið 2007-2008, sem getur verið mismunandi eftir löndum og borgum, ákveðið hlutfall af grunnframfærslu á Íslandi og er vísað í fylgiskjal II í úthlutunarreglunum. Um útreikninga á lánum til skólagjalda er fjallað í gr. 4.8. í úthlutunarreglum LÍN. Þar segir m.a: "Samanlögð lán til námsmanna vegna skólagjalda á Íslandi skulu aldrei verða hærri en 3.350 þús. kr. og vegna skólagjalda erlendis ákveðið hlutfall af þeirri fjárhæð, sbr. fylgiskjal II." Í fylgiskjali II segir að hámark skólagjaldalána í Bandaríkjunum nemi 42.000 USD. Um útborgun námslána er fjallað í gr. 5.2. en þar segir nánar tiltekið í gr. 5.2.2. "Námslán eru að jafnaði reiknuð út í mynt viðkomandi námslands. Tekjum og styrkjum er breytt í mynt námslands miðað við gengi 1. júní 2007. Þegar lán eða hlutar þess koma til útborgunar er upphæðinni sem greiða á út breytt í íslenskar krónur miðað við daggengi á útborgunardegi.

Af gögnum málsins má ráða að sömu aðferð var beitt við afgreiðslu og útreikning skólagjaldaláns til kæranda vegna námsársins 2007-2008 og beitt var gagnvart öðrum námsmönnum í hliðstæðri stöðu. 

Þá er á það fallist með stjórn LÍN að stjórnin hafi gætt leiðbeiningaskyldu sinni gagvart kæranda með fullnægjandi hætti og að misskilnings gæti hjá kæranda varðandi aðkomu SÍNE við ákvörðun á úthlutunarreglum LÍN. Með vísan til framangreindra forsendna er hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 14. desember 2007 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka