Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-16/2008 - Skólagjöld - beiðni um undanþágu frá hámarki skólagjaldaláns

Úrskurður

 

Ár 2008, fimmtudaginn 11. desember kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-16/2008.

 

Kæruefni

 

Með bréfi til málskotsnefndar LÍN dags. 12. október 2008 sem móttekið var þann 16. október 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 17. júlí 2008 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að veita nemendum sem hófu nám í ágústmánuði undanþágu frá ákvæði úthlutunarreglna LÍN um hámarkslán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 16. október 2008 þar sem stjórninni var gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 28. október 2008 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 30. október 2008 en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engin frekari gögn hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi óskaði eftir því að LÍN veitti þeim nemendum skólans sem hófu nám í ágúst, undanþágu frá reglum um árlegt hámark skólagjaldalána sbr. gr. 4.8 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi bendir á að eftir að ný lög hafi tekið gildi hjá LÍN standi ekki allir nemendur jafnir þegar komi að reglum um úthlutun. Samkvæmt reglunum eigi þeir sem hefji nám í ágúst á ári hverju aðeins rétt á að fá 1/3 af heildarláni þótt þeir taki jafn margar einingar, annir og vikur eins og nemendur sem hefji nám í nóvember eða mars. Þeir nemendur sem hefji nám í ágúst ljúki námi í lok júní þar sem sumarleyfi hefjist í byrjun júlí. 

Stjórn LÍN synjaði erindinu með vísan til greinar 4.8. í úthlutunarreglum LÍN. Samkvæmt grein 4.8. er árlegt hámark skólagjaldaláns vegna sérnáms og almenns háskólanáms 1/3 af samanlögðu hámarksláni vegna skólagjalda. Skólaárið 2008-2009 er árlega hámarkið því 1/3 af 3.500.000 kr. eða 1.166.667 kr. 

Stjórn LÍN tók fram í athugasemdum sínum vegna kærunnar að þar sem innheimt skólagjöld séu hærri fjárhæð en árlegt hámarksskólagjaldalán geti sú staða óhjákvæmilega komið upp að á hámarkið reyni með ólíkum hætti eftir því hvernig námsmaður og/eða skóli skipuleggi námið. Að því gefnu að beint samband sé á milli lokinna ECTS- eininga og skólagjalda geti t.d. námsmaður sem ljúki xxxx á tveimur skólaárum átt kost á hærra skólagjaldaláni en sá sem ljúki námi á einu ári.

 

Niðurstaða

 

Skólaár er skilgreint í úthlutunarreglum LÍN en þar segir að skólaár sé níu mánuðir og hefjist að hausti og ljúki að vori. Þegar nemandi hefur nám í skólanum í ágústmánuði, er náminu lokið á einu skólaári, þar sem náminu lýkur næsta vor. Hefji nemandi nám í mars eða nóvember lýkur hann námi á næsta skólaári. Í síðara tilfellinu deilist skólagjald skólans niður á tvö skólaár eins og skólaár er skilgreint skv. úthlutunarreglum LÍN. Í gr. 4.8. í úthlutunarreglum LÍN segir m.a: "Skólaárið 2008-2009 skal árlegt hámark skólagjaldaláns vegna sérnáms og almenns háskólanáms vera 1/3 af samanlögðu hámarksláni skv. 4. mgr. þessarar greinar." Þá segir í 4 mgr. m.a: , "Samanlögð lán til námsmanna vegna skólagjalda á Íslandi skulu aldrei verða hærri en 3.500.000,- krónur.

Ekki er að finna í lögunum um LÍN eða í úthlutunarreglum sjóðsins heimild til að veita undanþágu frá árlegu hámarki skólagjaldaláns vegna sérnáms og almenns háskólanáms. Með vísan til framanritaðs þykir rétt að staðfesta hinn kærða úrskurð stjórnar LÍN frá 17. júlí 2008.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 17. júlí 2008 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka