Úrskurður
Ár 2009, fimmtudaginn 29. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-19/2008.
Kæruefni
Með kæru dags. 30. nóvember 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 5. september 2008 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán vegna
fimm ára reglu.
Stjórn LÍN var með bréfi dags. 2. desember sl. tilkynnt
um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN
er dags. 12. desember sl. Með bréfi dags. 18. desember sl. var kæranda kynnt
efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar
frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði nám í sálfræði, fyrst í Kanada og fékk lán í 5
misseri og lauk síðan því námi við Háskóla Íslands og fékk lán í 2 misseri til
viðbótar. Samanlagt fékk hann lán í 7 misseri til þess að ljúka BA gráðu í
sálfræði. Í kjölfar þess náms hóf hann meistaranám við Háskólann í Reykjavík í
lögfræði og fékk lán í 4 misseri til að ljúka því námi. Á námsárinu 2007-2008
hóf hann BA nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og var honum þá synjað um
lán vegna fimm ára reglu.
Stjórn LÍN bendir á að skv. grein 2.4.2. í
úthlutunarreglum LÍN 2007-2008 getur námsmaður að hámarki fengið lán í allt að
fimm ár samanlagt. Heimilt er að veita undanþágur skv. greininni að uppfylltum
skilyrðum. Þar sem kærandi uppfylli ekkert þeirra skilyrða, hafi stjórn sjóðsins
synjað erindi hans.
Kærandi telur fimm ára reglu sjóðsins brot á
jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Íslands. Námsmenn sem fari í BA nám að
loknu öðru BA námi auk meistaranáms, fái ekki full lán en nemandi sem fari í
meistaranám að loknu BA námi og meistaranámi fá full lán.
Niðurstaða
Í gr. 2.4.2. í úthlutunaarreglum LÍN 2007-2008 segir: "Að
uppfylltum skilyrðum um námsframvindu getur námsmaður að hámarki fengið lán í
allt að fimm ár samanlagt. Þó er heimilt að veita námsmanni undanþágu frá
ofangreindu hámarki og veita honum lán í allt að eitt námsár til viðbótar ef
eitt eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:
a) Samanlögð fyrri lán hans hjá
sjóðnum nema lægri fjárhæð en 2,1 m.kr.
b) Hann hefur áður staðist
lokapróf í lánshæfu námi og lýkur á námsárinu öðru lokaprófi í lánshæfu námi.
Með lokaprófi er átt við próf til staðfestingar starfs-eða háskólagráðu, en ekki
undirbúnings-, fornáms- eða frumgreinapróf.
c) Hann hefur áður a.m.k. í
sex misseri á námstíma fengið undanþágu frá almennum skilyrðum um námsframvindu
skv. grein 2.3.3. vegna örorku eða lesblindu."
Ljóst er að kærandi
uppfyllir ekkert ofangreindra skilyrða. Verður ekki talið að framangreint ákvæði
feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands svo sem kærandi heldur
fram enda sitja allir námsmenn við sama borð hvað námlán til fimm ára varðar.
Grein 2.4.3 um tíu ára reglu heimilar að veita námsmanni sem leggur
stund á framhaldsháskólanám lán umfram það hámark sem tilgreint er í 2.4.2.
Samanlagður tími sem námsmaður getur fengið lán er að hámarki 10 ár. Með
framhaldsháskólanámi er átt við doktors- eða licentiatnám, meistaranám eða
sambærilegt nám að loknu þriggja ára háskólanámi.
Með vísan til þess er
ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði til láns samkvæmt tíu ára reglu þar sem
það nám sem kærandi nú stundar er ekki framhaldsháskólanám heldur grunnnán í
lögfræði.
Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 5.
september 2008 í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 5. september 2008 er staðfestur.