Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-21/2008 - Lánshæfi - lánshæfi undirbúningsnáms

Úrskurður

 

Ár 2009, fimmtudaginn 12. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-21/2008.

Kæruefni

 

Með kæru dags. 5. desember 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 5. september sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán þar sem nám kæranda taldist ekki lánshæft.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 5. desember sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 22. desember sl. Með bréfi dags. 5. janúar sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um lán vegna náms í Basic Medical Course - BMC - í læknisfræði við Læknadeild háskólans í Debrecen í Ungverjalandi. Í framhaldi þessa náms er ætlun kæranda að fara í læknisfræðinám við sama háskóla.

Stjórn LÍN synjaði kæranda um lán með vísan til þess að um sé að ræða undirbúningsnám í læknisfræði. Námið sé skipulagt eingöngu fyrir þá námsmenn sem vanti grunnmenntun til að geta hafið almennt læknanám við skólann. Þá vísar stjórn LÍN til gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram kemur að sjóðurinn veiti námslán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskóla hérlendis. Einnig bendir stjórn LÍN á að í sömu grein komi fram að sjóðurinn veiti ekki lán til undirbúningsnáms.

Kærandi vísar til þess að umrætt nám hans jafngildi námi á frumgreinasviði nefndra háskóla á Íslandi, sem telst lánshæft sérnám á Íslandi samkv. gr. 1.2.2. í úthlutunarreglum LÍN. Þá bendir kærandi einnig á heimild til að lána til tungumálanáms við útlendingadeildir háskóla samkv. gr. 1.3.4. í úthlutunarreglun LÍN.

Niðurstaða

 

Í 2. mgr. gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN segir m.a.: "Sjóðurinn veitir námslán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis."

Þá segir m.a. í 4. mgr. gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN: "Lán er ekki veitt til undirbúningsnáms..."

Nám kæranda er undirbúningsnám í læknisfræði við University of Debrecen í Ungverjalandi. Til námsins eru ekki gerðar sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis Að loknu undirbúningsnáminu á kærandi möguleika á að hefja almennt læknisfræðinám við sama háskóla.

Með vísan til þess að LÍN lánar ekki til undirbúningnáms sbr. tilvísun í gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN hér að ofan og þeirra krafna sem gerðar eru til BMC náms kæranda er fallist á það með stjórn LÍN að nám kæranda teljist ekki lánshæft.

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 5. september 2008 í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 5. september 2008 er staðfestur.

Til baka