Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2008 - Skilyrði lánveitingar - lánshæfi náms að loknu doktorsprófi

Úrskurður

Ár 2009, mánudaginn 16. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-12/2008.

Kæruefni

Með kæru dags. 30. júní 2008 kærði kærandi þá ákvörðun stjórnar LÍN frá 9. júní sl. að hafna beiðni kæranda um lán til MBA náms við viðskiptaháskóla í Barcelona með vísan til þess að kærandi hafi þegar lokið doktorsprófi. Stjórn LÍN var með bréfi dags. 8. júlí sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 18. júlí sl. Með bréfi dags. 6. ágúst sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Svar barst frá kæranda með bréfi dagsettu 14. ágúst sl. Við afgreiðslu málsins sögðu tveir að nefndarmönnum málskotsnefndar LÍN þau Arnfríður Einarsdóttir og Helgi Jóhannesson sig frá málinu vegna vanhæfis. Sæti þeirra í nefndinni tóku varamennirnir Sigríður Logadóttir og Margeir Pétursson. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna anna nefndarmanna.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf MBA nám - Global Executive MBA- við viðskiptaháskóla í Barcelona sumarið 2008. Áður hefur kærandi lokið doktorsprófi í eðlisfræði og notið aðstoðar LÍN á námsferli sínum. Með þessu MBA námi hyggst kærandi bæta stjórnunar- og viðskiptanámi við sérfræðiþekkingu sína. Fram kemur hjá kæranda að hann telur sig hafa rúmt svigrúm samkvæmt 10 ára reglunni, þar sem hann fjármagnaði stóran hluta af sínu fyrra námi með styrkfé frá erlendum aðilum. Kærandi rökstyður kæru sína m.a með vísan til þess að um nýtt nám sé að ræða en ekki framhald af doktorsnámi hans. Ef svo væri þá ætti doktorspróf að vera inntökuskilyrði fyrir MBA náminu. Námið er á öðru sviði þ.e. á sviði viðskipta- og stjórnunar en kærandi er doktor í eðlisfræði. Þá bendir kærandi á að synjun stjórnar LÍN á lánveitingu sér til handa feli á sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og bendir í því sambandi á að ef tveir einstaklingar sem stundað hafa sama doktorsnámið og annar hafi lokið náminu en hinn ekki fá þeir ekki sömu afgreiðslu hjá LÍN. Kærandi vísar til 1. gr. laga nr 21/1992 um LÍN þar sem segir: "Sjóðurinn veitir lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis." Kærandi heldur því fram að umsókn hans falli undir ákvæði þessarar greinar laganna. Að lokum bendir kærandi á að LÍN geti náð markmiðum sínum um að takmarka aðstoð til einstaklinga með mildari hætti en að loka fyrir að þeir sem lokið hafa doktorsnámi njóti ekki aðstoðar sjóðsins. Reglan sem takmarkar aðstoð við 10 námsár veitir hæfilegt svigrúm til að ljúka námi og uppfyllir þannig markmið sjóðsins um "að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags." Af hálfu stjórnar LÍN er vísað til þess að skv. gr. 1.1 í úthlutunarreglum LÍN sé ekki lánað til náms að loknu doktorsnámi. Kærandi sæki um lán til MBA-gráðu í viðbót við doktorsnám sitt. Þá vísar stjórn LÍN til 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um LÍN en þar segir: "Sjóðurinn lánar hvorki til undirbúningsnáms né náms að loknu doktorsprófi". Að mati stjórnar LÍN er ákvæðið skýrt og engin heimild til undanþágu frá því. Þá bendir stjórn LÍN á að nauðsynlegt sé að skilgreina upphaf og lok þess náms sem telst lánshæft. Í samræmi við 1. gr. laga um LÍN er undirbúningsnám skilgreint ólánshæft og í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laganna er nám að loknu doktorsprófi skilgreint ólánshæft. Niðurstaða stjórnar LÍN byggir á því að MBA-nám kæranda sé skipulagt að loknu doktorsprófi þó að prófið sé ekki inntökuskilyrði í námið. Í tilviki kæranda skipti ekki máli hvort námið sé skipulagt af kæranda, skóla eða stjórnvöldum. Í öllum tilvikum er um viðbótarnám að ræða sem hefur það að markmiði að auka þekkingu og starfhæfni kæranda.

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er fjallað um hlutverk sjóðsins en þar segir: "Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags. Sjóðurinn veitir lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis." Af ákvæði þessu má ráða að hlutverki LÍN eru sett viðmið sem lúta að stuðningi við þá námsmenn, sem uppfylla almenn skilyrði sjóðsins. Þegar síðan eru sett takmarkandi ákvæði í úthlutunarreglur LÍN verða þau að hafa skýra lagaheimild og byggjast á almennum jafnræðissjónarmiðum. Við túlkun undntekningaákvæða í úthlutunarreglum LÍN eða ákvæða sem takmarka almennan rétt námsmanna til lánamöguleika hjá LÍN ber almennt að túlka þau ákvæði námsmönnum í hag. Í 4. mgr. gr. 1.1 í úthlutunarreglum LÍN segir: "Lán er ekki veitt til undirbúningsnáms né heldur til náms að loknu doktorsprófi eða sambærilegu prófi."

Við túlkun þessa ákvæðis verður að horfa til þess hvað er átt við með "námi að loknu doktorsprófi." Líta verður til þess hvor um sé að ræða nám sem er framhald af doktorsnámi, þ.e. viðbótarnám í sömu námsgrein eða hvort um sé að ræða nám í annarri námsgrein ótengdri viðkomandi doktorsprófi. Kærandi hefur lokið doktorsprófi í eðlisfræði og hyggur á MBA nám í viðskiptum og stjórnun. Doktorspróf er ekki inntökuskilyrði fyrir MBA nám kæranda m.ö.o. þá eru engin tengsl milli doktorsprófs kæranda í eðlisfræði og þessa fyrirhugaða MBA náms kæranda í viðskiptum og stjórnun. Engin ákvæði er að finna í úthlutunarreglum LÍN um að námsmenn fái ekki námslán til að stunda nám í mismunandi námsgreinum ef þeir uppfylla önnur almenn ákvæði t.d. um námsárangur. Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að túlka undantekningarákvæði 4. mgr. gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN á þann hátt að ákvæðið standi ekki í vegi fyrir láni til kæranda vegna MBA náms, þar sem það nám er ekki framhald af doktorsnámi hans eða tengist því á annan hátt enda er kærandi er innan ramma úthlutunarreglna LÍN um lánveitingu í allt að tíu ár sbr. gr. 2.4.3. Er í þessu sambandi miðað við hvernig námið er skipulagt af viðkomandi skóla og námsmanni sjálfum. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 9. júní 2008 í máli kæranda felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 9. júní 2008 er felldur úr gildi.

Til baka