Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2009 - Skilyrði lánveitingar - beiðni um undanþágu vegna veikinda

Úrskurður

Ár 2009, miðvikudaginn 25. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2009.

Kæruefni

Með kæru dags. 30. desember 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 10. október 2008 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá skilyrðum um námsárangur á haustmisseri 2007.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 7. janúar sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 14. janúar sl. Með bréfi dags. 21. janúar sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskar eftir undanþágu frá skilyrði um námsárangur á haustmisseri 2007. Samkvæmt læknisvottorði sem liggur fyrir í málinu gat hún ekki sótt skólann frá 24. september 2007. Kærandi lauk engum námsárangri á misserinu.

Stjórn LÍN hafnaði beiðni um undanþágu frá námsárangri með vísan til 4. mgr. 2.3.2 gr. úthlutunarreglna LÍN en samkvæmt greininni er heimilt að veita námsmanni sem ekki nær 50% námsárangri veikindatillit, með þeim skilyrðum að um veikindi sé að ræða seinni hluta annar eða í prófum. Um slíkt hafi ekki verið að ræða í tilviki kæranda.

Kærandi telur sig uppfylla skilyrði 4. mgr. 2.3.2. gr. úthlutunarreglna LÍN þar sem námsárangur hennar hafi verið undir 50% og að veikindin hafi verið seinni hluta annar og í prófum, eða frá 24. september 2007 þar til 15. janúar 2008 þegar hún eignaðist barn sitt. Þá bendir kærandi á að ekki sé unnt að stilla veikindi eftir ákveðinni dagsetningu og því þyki henni langsótt að þurfa að veikjast á ákveðnum degi til að geta fengið undanþágu frá námsárangri skv. 4. mgr. gr. 2.3.2. úthlutunarreglna LÍN.

Niðurstaða

Í 4 mgr. gr. 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN segir: "Veikist námsmaður seinni hluta annar eða í prófum og skili vegna þess minna en 50% árangri á þeirri önn er heimilt að veita honum 75% lán fyrir önnina."

Í gögnum málsins liggur fyrir læknisvottorð sem staðfestir að kærandi gat ekki sótt skólann frá 24. september 2007 vegna sjúkdóms á meðgöngu. Þá liggur það einnig fyrir að kærandi lauk engum námsárangri umrædda haustönn.

Skilyrði samkvæmt ofangreindu ákvæði er að námsmaður veikist seinni hluta annar. Sjálfstæð athugun úrskurðarnefndar leiddi í ljós að haustönn Háskólans á Akureyri hefst 15. ágúst og lýkur 21. desember sama ár og getur 24. september 2007 því ekki talist seinni hluti annar.

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 10. október 2008 í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 10. október 2008 er staðfestur.

Til baka