Úrskurður
Ár 2009, fimmtudaginn 19. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2009.
Kæruefni
Með kæru dags. 29. desember 2008 sem barst málskotsnefnd 7.
janúar 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 23. desember sl. þar sem
hafnað var beiðni kæranda um neyðarlán.
Stjórn LÍN var með bréfi dags.
7. janúar sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um
hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 15. janúar sl. Með bréfi dags. 21. janúar
sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að
tjá sig um það. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 2.
febrúar sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar nám í Svíþjóð. Kærandi rökstyður umsókn sína um
aukalán fyrir námsmenn í sárri neyð með því að benda á hve mikill gengismunur sé
á milli íslensku krónunnar og þeirrar sænsku í kjölfar efnahagakreppunnar sl.
haust á Íslandi. Einnig bendir kærandi á að um tíma hafi nánast verið ógerningur
að flytja hefðbundin námslán milli landa. Þá bendir kærandi einnig á að hann
eigi skuldsetta íbúð á Íslandi, sem leigutekjur hafi staðið undir afborgunum af
en vegna hækkandi vaxtaprósentu verði að telja óvíst að hann geti haldið
íbúðinni þar til hann komi heim frá námi. Allt þetta leiði af sér verulega
röskun á stöðu hans og högum með vísan til efnahagskreppunnar á Íslandi.
Stjórn LÍN synjaði kæranda um lán með vísan til þess að kærandi byggi
rökstuðning sinn á þeirri málsástæðu að gengismunur sé orðinn óhóflega mikill
milli gengis íslensku krónunnar og sænsku krónunnar eftir fall krónunnar sl.
haust.
Stjórnin bendir á að námsmenn erlendis fá námslán reiknuð út í
mynt viðkomandi námslands, sbr. gr. 5.2.2. og fylgiskjal II í úthlutunarreglum
LÍN. Þegar námslán i til útborgunar sé fjárhæðinni breytt í íslenskar krónur
miðað við daggengi við útborgun. Frá því kærandi sótti um námslán 1. júli 2008
og þar til kærandi sótti um aukalán 22. nóvember 2008 hafi sænska krónan hækkað
um 29,5% og komi kærandi til með að njóta þeirrar hækkunar í íslenskum krónum
þegar hann fái námslán sitt útborgað að fullnægðum námsárangri.
Niðurstaða
Með auglýsingu útg. 10. nóvember 2008 staðfesti
menntamálaráðherra breytingar á úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2008-2009.
Breytingar þessar lúta einkum að stuðningi við þá námsmenn erlendis sem hafa
orðið fyrir röskun á högum sínum vegna breytinga í íslensku efnahagslífi sem
áttu sér stað sl. haust. Með breytingum þessum á úthlutunarreglum LÍN var m.a.
gert ráð fyrir að námsmaður geti sótt um aukalán, sem ætluð eru þeim sem eru í
sárri neyð sbr. gr. 4.9. í úthlutunarreglum LÍN. Þá er einnig rétt að geta þess
að stjórn LÍN beindi því til bankastofnanna að yfirdráttarheimildir lánþega LÍN
í íslenskum krónum yrðu endurskoðaðar með tilliti til gengisþróunnar og að ekki
yrðu felldar niður yfirdráttarheimildir í erlendri mynt.
Með vísan til
gr. 4.9. í úthlutunarreglum LÍN sótti kærandi um aukalán svo sem að framan er
getið. Í rökstuðningi kæranda er einkum vísað til þess að óhagstæð gengisþróun
hafi valdið kæranda tímabundnum erfiðleikum.
Gr. 5.2.2 í
úthlutunarreglum LÍN hljóðar svo: "Námslán eru að jafnaði reiknuð út í mynt
viðkomandi námslands. Tekjum og styrkjum er breytt í mynt námslands miðað við
gengi 1. júní 2008. Þegar lán eða hlutar þess koma til útborgunar er upphæðinni
sem greiða á út breytt í íslenskar krónur miðað við daggengi við útborgun".
Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að kærandi komi til með að fá
óhagstæða gengisþróun leiðrétta þegar námslán hans kemur til útborgunar að
fullnægðum námsárangri. Með vísan til þess og aðstæðna kæranda að öðru leyti er
ekki fallist á það með kæranda að hann uppfylli skilyrði úthlutunarreglna LÍN um
aukalán til námsmanna vegna sárrar neyðar.
Með vísan til framanritaðs er
úrskurður stjórnar LÍN frá 23. desember 2008 í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er staðfestur.