Úrskurður
Ár 2009, mánudaginn 25. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2009.
Kæruefni
Með kæru dags. 25. febrúar 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 10. október 2008 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá
námsárangri á haustmisseri 2008, bæði hvað varðar lánshæfi og frestun á lokun
skuldabréfs.
Kærandi kærði ákvörðun stjórnar til málskotsnefndar tæpum
mánuði of seint miðað við þriggja mánaða kærufrest skv. 28. gr. stjórnsýslulaga
nr. 37/1993. Athugasemdir vegna þessa hafa ekki borist frá stjórn LÍN en kærandi
hefur gert grein fyrir aðstæðum sínum og vísar til mikilla anna í námi í því
sambandi. Úrskurðarnefnd tekur málið því fyrir þrátt fyrir að kæra sé of seint
fram komin.
Stjórn LÍN var með bréfi dags. 9. mars sl. tilkynnt um
kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er
dags. 18. mars sl. Svar LÍN var sent kæranda með bréfi dags. 24. mars sl. Engar
frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi óskar eftir undanþágu vegna námsárangurs á haustmisseri
2008, bæði hvað varðar lánshæfi og frestun á lokun skuldabréfs. Kærandi hóf nám
við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, sálfræðiskor árið 2005. Í ágúst 2007
skilaði hann síðast til LÍN lánshæfum einingum fyrir þau námskeið sem tilheyrðu
meistarnámi.
Kærandi sótti um námslán á skólaárinu 2007-2008 og fékk
lánsáætlun, fyrst vegna umsóknar á haustmisseri 2007 sem hann síðan dró til baka
og lét færa yfir á vormisseri 2008. Kærandi skilaði engri námsframvindu á
skólaárinu 2007-2008. Kærandi lauk lokaverkefni á haustmisseri 2008, 16
ECTS-einingum. Hann sótti ekki um námslán vegna haustmisseris 2008 en sótti þann
11. september 2008 um frestun á lokun skuldabréfs.
Stjórn LÍN hafnaði
beiðni um undanþágu frá námsárangri á haustmisseri 2008 bæði hvað varðar
lánshæfi og frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn LÍN getur þess sérstaklega að
fram komi á lánsáætlunum skólaárið 2007-2008 að gert sé ráð fyrir 100%
námsframvindu (30 ECTS-einingar) og að lágmarksnámsframvinda sé 75% af fullu
námi. Með vísan til reglu 2.3.5 í úthlutunarreglum LÍN 2007-2008 hefði kærandi
átt rétt á um 54% námsláni samkvæmt lánsáætlun hefði hún lokið náminu á síðast
liðnu skólaári, þ.e. 16 ECTS-einingum (lokaverkefni) annaðhvort á haustmisseri
2007 eða vormisseri 2008. Hann hafi hinsvegar engri námsframvindu skilað á
skólaárinu 2007-2008 og þ.a.l. ekki átt rétt á námsláni. Hann hafi lokið
lokaverkefninu á haustmisseri 2008 en með vísan til reglu 2.2 í úthlutunarreglum
LÍN fyrir skólaárið 2008-2009 ekki átt rétt á námslánum vegna 16 ECTS-eininga
þar sem fram kemur að námsmaður þurfi að ljúka a.m.k. 20 ECTS-einingum til þess
að vera lánshæfur. Með vísan til reglu 2.5.2 í úthlutunarreglum LÍN 2008-2009
hafnaði stjórn LÍN ósk kæranda um frestun á lokun skuldabréfs, sem hann sótti um
að hausti 2008, þar sem hann hafi ekki sýnt fram á námsárangur skólaárið
2007-2008.
Kærandi undirstrikar að námið hafi verið samfellt frá því það
hófst árið 2005 og lok þess verið 28. febrúar 2009. Hann hafi ekki þegið
framfærslulán frá LÍN síðan á vori 2007. Kveður hann það hafa verið ljóst að
námslok myndu dragast og að í tíma hafi verið leitað til LÍN vegna láns á
lokaönn. Þá hafi honum ítrekað verið bent á þann möguleika að ef lengur drægist
að skila inn einingum fyrir ritgerð mætti sækja um frekari frest á námslokum
vegna lokaritgerðar. Þegar hann hafi sótt um frestun á námslokum til loka
haustannar 2008 hafi honum verið synjað og athygli hans vakin á því að hann
hefði tapað rétti til úthlutunar. Hann hafi fengið þær skýringar fyrst að vegna
ósamfellu í náminu ætti hann ekki rétt á námsláni. Þá hafi mistök sem áttu sér
stað hjá skráningu í Háskóla Íslands verið leiðrétt og hann skráður í fullt nám.
Eftir að þessi mistök voru leiðrétt hafi hann fengið synjun frá LÍN á þeim
grundvelli að ekki hafi verið skilað inn einingum á skólaárinu og hann því ekki
uppfyllt kröfur lánasjóðsins um námsframvindu.
Nú sé staða kæranda sú að
honum hafi verið neitað um lán vegna náms, sem sé í samræmi við þær námskröfur
sem hennar háskóladeild geri. Honum hafi verið bent á að sækja um nýtt lán vegna
haustannarinnar 2008. Það lán komi honumi hinsvegar ekki til góða þar sem
breytingar á úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2008-2009 feli í sér
lámarkskröfu um námsframvindu 20 ECTS-einingum en hann hafi einungis fengið 16
ECTS-einingar að önninni lokinni. Til að fá lán hefði hann þurft að bæta við
námið umframeiningum algerlega að óþörfu og í ósamræmi við námskröfur
deildarinnar sem hann stundaði nám við.
Þá bendir kærandi á að reglur
lánasjóðs geri ráð fyrir því að hann hefji afborgarnir af þeim námslánum sem
hann hafi fengið á námstíma nú í júní 2009. Kveður hann að ljóst að það verði
sér of þung byrði.
Niðurstaða
Í gr. 2.5.2 í úthlutunarreglum LÍN 2008-2009 segir: "Heimilt
er að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta
námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um
frestunina og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun
skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu". Ekki er að finna
í úthlutunarreglum LÍN undanþágu frá þessari reglu um námsframvindu á
eftirfarandi námsári.
Ljóst er að kærandi var skráður í nám við Háskóla
Íslands skólaárið 2007-2008 en skilaði þó ekki námsárangri það skólaár.
Uppfyllir kærandi því ekki skilyrði ákvæðis úthlutunarreglna LÍN um frestun á
lokun skuldabréfs þar sem hann þáði síðast aðstoð sjóðsins vorið 2007 og miðast
lokun skuldabréfs við lok síðasta aðstoðartímabils, skv. gr. 2.5.1 í
úthlutunarreglum LÍN 2008-2009. Skv. gr. 7.2.1.í úthlutunarreglunum hefst
endurgreiðsla á skuldabréfi tveimur árum eftir lokun skuldabréfs skv. gr. 2.5.
Í gr. 2.2. í úthlutunarreglum LÍN 2008-2009 segir: "Námsmaður þarf að
ljúka í það minnsta 20 ECTS-einingum eða ígildi þeirra til að eiga rétt á
námsláni". Kærandi lauk 16 ECTS-einingum á haustönn 2008. Í grein 2.4.1 í
útlánareglum LÍN er heimild fyrir námsmann sem á ólokið minna en 20
ECTS-einingar til að útskrifast, að bæta við sig einingum og ljúka þannig 20
ECTS-einingum til að öðlast lánsrétt. Kærandi hefur ekki bætt við sig einingum
til að uppfylla þetta skilyrði reglnanna eða sýnt fram á að sér hafi ekki verið
unnt að bæta við sig einingum. Ekki er að finna undanþágu frá framangreindri
reglu í útlánareglum LÍN.
Með vísan til framanritaðs er úrskurður
stjórnar LÍN frá 10. október 2008 í máli kæranda staðfestur bæði hvað varðar
undanþágu frá námsárangri og frestun á lokun skuldabréfs.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 10. október 2008 er staðfestur.