Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2009 - Námslok - beiðni um frestun á lokun skuldabréfs

Úrskurður

Ár 2009, miðvikudaginn 3. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2009.

Kæruefni

Með kæru dags. 25. mars 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 5. mars sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um að fresta lokun skuldabréfs.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 25. mars sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 7. apríl sl. Með bréfi dags. 16. apríl sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með bréfi dags. 8. október 2008 sendi LÍN umboðsmanni kæranda tilkynningu um lokun skuldabréfs þar sem í byrjun árs 2009 yrðu tvö ár liðin frá því að kærandi hefði síðast fengið afgreitt námslán frá LÍN eða skilað síðast inn upplýsingum um lánshæfan námsárangur til sjóðsins. Þessari tilkynningu var ekki svarað innan þess frests sem gefinn var eða fyrir 10. nóvember sl. Kærandi sendi síðan tölvupóst þann 13. febrúar sl. þar sem hún óskaði eftir að fá frest á afborgun námsláns/frest á námslokum hjá LÍN þar sem hún væri ennþá í námi.

Í svarbréfi LÍN til kæranda dags. 16. febrúar sl. var kæranda bent á að hún gæti sótt um undanþágu frá afborgun fastrar greiðslu ef hún hefði verið í lánshæfu námi haustið 2008 og hefði skilað lánshæfum námsárangri fyrir þá önn. Enn fremur þurfti kærandi að uppfylla tekjumörk ársins 2008 sem voru hækkuð úr kr. 2,1 millj. í kr. 4 millj. þann 10 mars sl. Ekki barst undanþágubeiðni frá kæranda heldur sendi umboðsmaður kæranda stjórn LÍN beiðni um frestun á lokun skuldabréfs.

Umboðmaður kæranda vísar til þess að kærandi sem á eitt ár eftir af námi sínu í læknisfræði hafi fengið að fresta afborgun námsláns á meðan hún stundar nám sitt. Hún hafi öll árin skilað tilskyldum námsárangri í fullu námi, nú á sjötta ári og ljúki væntanlega námi sínu í janúar 2010. Umboðsmaðurinn staðfestir að hafa móttekið bréf LÍN frá 8. október sl., þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða lokun skuldabréfs en reiknaði með að kærandi fengi sjálf rafrænt afrit þess bréfs og hefði gengið frá beðninni til LÍN um frestun á afborgun námsláns. Þá vekur kærandi athygli á að afstaða stjórn LÍN sé íþyngjandi fyrir kæranda sem þurfði þá að greiða af námsláni þann 30. júní nk. meðan hún er enn í fullu námi.

Stjórn LÍN vísar til framangreindra málavaxta og þess að beiði kæranda um frestun á afborgun námslána hafi borist 3 mánuðum eftir að fresturinn rann út og þar af leiðandi hafi ekki verið hægt að verða við beiðni hennar.

Niðurstaða

Í gr. 2.5.1. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Telst sá tímapunktur námslok í skilningi laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskara námsmanna".

Þá segir m.a. í gr. 2.5.2. í úthlutunarreglum LÍN: "Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli-Námsframvinda og gr. 5.1".

Með vísan til tilvitnaðra reglna í úthlutunarreglum LÍN þurfti kærandi að sækja sérstaklega til stjórnar LÍN um frestun á afborgun námsláns/frestun á lokun skuldabréfs innan þeirra tímamarka sem fram komu í bréfi stjórnar LÍN dags. 8. október 2008. Ekki verður séð að heimild sé að finna í úthlutunarreglum LÍN til að veita undanþágu frá þessum tímamörkum og ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 5. mars 2009 í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 5. mars 2009 er staðfestur.

Til baka