Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2009 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um greiðsludreifingu á 12 mánuði

Úrskurður

Ár 2009, fimmtudaginn 10. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-7/2009.

Kæruefni

Með bréfi til málskotsnefndar LÍN dags. 16.06.2009 sem barst nefndinni þann 22.06.2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 09.03.2009 þar sem stjórnin synjaði kröfu kæranda um dreifingu vanskila vegna gjalddaga 01.02.2008 á 12 mánaða tímabil. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 22. júní sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 26. júní sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 2. júlí sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engin frekari svör eða gögn bárust frá kæranda. Með kæru í máli þessu bárust málskotsnefndinni greinargóðar upplýsingar um ráðstöfunratekjur og útgjöld kæranda og var því ekki þörf á að óska frekari gagna frá kæranda um þau atriði.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með úrskurði stjórnar LÍN dags. 15.01.2009 var kæranda synjað um heimild til undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum vegna skertra möguleika til öflunar tekna t.d. vegna veikinda, atvinnuleysis, náms o.s.frv. Fram kom í þeim úrskurði að ástæða þess að kæranda var hafnað var sú að tekjur hennar árin 2007 og 2008 voru langt yfir þeim mörkum sem miðað er við í þessu sambandi. Framangreindur úrskurður var ekki kærður til málskotsnefndarinnar.

Í framhaldi af áðurnefndri niðurstöðu stjórnar LÍN frá 15.01.2009 krafðist kærandi þess að vanskilum gjalddagans 01.09.2008 yrði dreift á 12 mánaða tímabil hjá LÍN. Því erindi svaraði stjórn LÍN með úrskurði dags. 09.03.2009. Erindinu var hafnað á þeirri forsendu að engin heimild sé fyrir slíkri dreifingu vanskila hjá sjóðnum.

Kærandi kveður ástæður þess að hún sæki um undanþáguna vera þá að vegna alvarlegra veikinda sem leiddu m.a. til þess að hún fékk endurhæfingarlífeyri frá og með 01.07.2007 til 31.12.2008. Þá kveður kærandi sig hafa verið metna með varanlegra örorku í 2,5 ár í febrúar sl, en örorka hennar er vegna geðrænna veikinda og kvíðaraskana. Kærandi kveðst vera ófær um að halda yfirsýn yfir fjármál sín og að hún eigi mjög erfitt með að mæta þeirri hörku sem stjórn LÍN hafi sýnt henni með því að hafna henni greiðsludreifingu til 12 mánaða á vanskilum hennar sem gjaldféllu þann 01.09.2008. Telur kærandi að stjórn LÍN beri að gæta jafnræðis og meðalhófs í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Kærandi tekur sérstaklega fram að daginn eftir að hinn kærði úrskurður gekk hafi stjórn LÍN ákveðið að hækka tekjumörk vegna undanþágu frá fastri endurgreiðslu úr 2,1 millj. í 4 millj.

Af hálfu stjórnar LÍN kemur fram að engin heimild sé fyrir því í reglum LÍN að heimila greiðsludreifingu vanskila á 12 mánuði. LÍN bjóði upp á greiðsludreifingu í 4 mánuði, en ef greiðendur vilji dreifa greiðslum á lengri tíma sé þeim bent á viðskiptabanka þeirra. Stjórn LÍN tekur fram að hækkun á tekjumörkun vegna undanþágu frá fastri endurgreiðslu eigi við afborganir sem gjaldfalli árið 2009 og því komi sú ákvörðun þessu máli kæranda ekki við.

Niðurstaða

Fallist er á það með stjórn LÍN að ekki sé að finna heimild í lögum né úthlutunarreglum til að dreifa vanskilum ákveðins gjalddaga námsláns á 12 mánuði svo sem krafist er. Þá verður ekki séð að málskotsnefndin hafi til þess heimild að setja slíka reglu með úrskurðum sínum. Af þessum sökum er niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 09.03.2009 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka