Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-14/2010 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um útreikning samkvæmt eldri reglum

Úrskurður

 

Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-14/2010.

 

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 24. mars 2010 sem barst málskotsnefnd 29. sama mánaðar kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 10. febrúar sl. þar sem hafnað var þeirri kröfu kæranda að útreikningur námsláns hans skuli miðast við úthlutunarreglur sem giltu fyrir námsárið 2008-2009, en kærandi sótti um námslán eftir að úthlutunarreglur fyrir námsárið 2009-2010 tóku gildi. 

Með bréfi málskotsnefndar dags. 29. mars sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var með bréfi dags. sama dag sent afrit af bréfinu til stjórnar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni í bréfi dags. 6. apríl sl. og var kæranda sent afrit þeirra með bréfi dags. 8. apríl sl. þar sem honum var gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum í málinu. Engin frekari bréf eða gögn bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um námslán hjá LÍN þann 10. september 2009. Þann sama dag tóku nýjar úthlutunarreglur gildi. Kærandi óskaði eftir því við LÍN að umsókn hans yrði afgreidd skv. eldri úthlutunarreglum þar sem hann telur að núverandi reglur geri það að verkum að hann missi rétt til að fá námslán. 

Kærandi telur afgreiðslu stjórnar LÍN á máli hans vera mjög ósanngjarna. Fyrirhugaðar breytingar á úthlutunarreglum LÍN hafi verið illa kynntar. Ef hann hefði fengið eðlilegar upplýsingar um það sem til stóð hefði hann sótt um deginum áður og þar með fallið undir eldri reglur. Kærandi bendir á að hann hafi, þegar hann sótti um, verið búinn að greiða skólagjöld, sem hann hefði ekki gert ef hann hefði rennt grun í að hann fengi ekki námslán. Kærandi telur að hann muni vegna þessa flosna upp úr námi. 

Af hálfu stjórnar LÍN er á það bent að breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins hafi verið samþykktar af stjórn LÍN þann 9. september 2009 og staðfestar af menntamálaráðherra daginn eftir, þ.e. 10. september 2009. Sama dag var auglýsing þess efnis birt í B-deild stjórnartíðinda. Öllum formreglum hafi þannig verið fullnægt og nýjar reglur hafi tekið gildi þegar umsókn kæranda barst sjóðnum. Stjórn LÍN bendir sérstaklega á að starfsemi sjóðsins sé m.a. háð fjárframlögum ríkisvaldsins hverju sinni og því geti orðið óhjákvæmilegt að breyta forsendum úthlutunar, jafnvel eftir að úthlutunarreglur fyrir viðkomandi skólaár hafi verið samþykktar. Námsmenn geti ekki gert réttmætar væntingar til þess að útreikningur lána þeirra fari eftir öðrum reglum en þeim sem gildi þegar sótt er um lán.

 

Niðurstaða

 

Í gögnum sem stjórn LÍN hefur lagt fram í máli þessu kemur fram að kærandi sótti um námslán þann 10. september 2009. Þann sama dag var auglýsing um nýjar úthlutunarreglur birt í B-deild Stjórnartíðinda. Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er svohljóðandi ákvæði: "Birt fyrirmæli skulu binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína". Í athugasemdum með frumvarpi að lögum þessum segir m.a.: "Má það heita venja við setningu laga og stjórnvaldsfyrirmæla að þau hafi sjálf að geyma ákvæði um gildistöku sína, oft að þau öðlist þegar gildi. Heppilegast þykir að lögfesta þessa framkvæmd þannig að lög og stjórnvaldsfyrirmæli bindi alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra. Er þá einnig tekinn af vafi um það álitaefni hvort reglum eigi að beita um lögskipti sem verða á útgáfudegi þeirra Stjórnartíðinda þar sem viðkomandi reglur eru birtar. Samkvæmt ákvæðinu verður reglum almennt ekki beitt fyrr en daginn eftir útgáfudaginn. Ef fyrirmæli hafa að geyma ákvæði um að þau taki gildi "þegar í stað" mundi lögskýring leiða til sömu niðurstöðu". 

Með vísan til þessa tóku hinar nýju úthlutunrreglur ekki gildi fyrr en 11. september 2010, þ.e. daginn eftir að kærandi sótti um námslánið. Af þessum sökum skulu eldri reglur gilda um umsókn kæranda.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 10. febrúar 2010 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka