Úrskurður
Ár 2009, fimmtudaginn 17. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-10/2009
Kæruefni
Með kæru dagsettri 01.07.2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 29.05.2009 þar sem stjórnin synjaði kröfu kæranda um undanþágu frá
greiðslu afborgunar af námslánum þar sem aðstæður kæranda voru ekki taldar falla
undir gr. 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum sjóðsins. Stjórn LÍN var tilkynnt
um kæruna með bréfi dags. 16.07.2009 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um
hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í
bréfi dags. 20.07.2009 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 11.08.2009
en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari
sjónarmiðum sínum. Ódagsett bréf barst málskotsnefnd frá kæranda dags.
26.08.2009 þar sem fram komu sjónarmið við athugasemdum stjórnar LÍN.
Með tölvupósti dags. 05.09.2009 óskaði málskotsnefndin eftir frekari
upplýsingum frá kæranda. Var óskað eftir að kærandi sendi nefndinni upplýsingar
um hvaða tekjur hún hafði á árinu 2008, bæði fyrir og eftir barnsburðinn. Þá var
einnig óskað eftir upplýsingum um kostnað hennar af búsetu í Bretlandi og
hvernig aðstaða hennar breyttist við barnsburðinn. Svar barst með tölvupósti frá
kæranda þann 10.09.2009.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi eignaðist barn í London þann xxx. Hún kveðst ekki hafa
átt rétt á fæðingarorlofi, hvorki frá Íslandi né Bretlandi. Þá hafi hún heldur
ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum, en hún kveðst hafa verið atvinnulaus áður en
barnið fæddist og þar áður í skóla. Svo sem skattskýrslur beri með sér hafi hún
haft mjög lágar tekjur árið 2008. Kærandi kveðst ekki hafa getað sent
upplýsingar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í 4 mánuði fyrir gjalddaga
námslánsins, enda hafi hún ekki átt rétt á slíkum greiðslum svo sem að framan
greinir. Hún hafi á hinn bóginn skilað inn gögnum vegna eingreiðslu sem hún
hafði fengið frá sjóðnum vegna barnsburðarins. Kærandi bendir sérstaklega á að
innheimtuaðgerðir hafi haldið áfram hjá Intrum þó mál þetta hafi verið til
skoðunar hjá sjóðnum. Í þeim viðbótarsvörum sem kærandi sendi málskotsnefndinni
með tölvupósti þann 10.09.2009 kemur fram að frá janúar til mars 2008 hafi hún
og sambýlismaður hennar verið atvinnulaus og hafi þau búið hjá foreldrum hans.
Hún kveðst þá hafa fengið tímabundna vinnu sem hafi lokið um miðjan apríl. Hún
kveður þau hafa flutt til London vegna vinnu sambýlismanns hennar þann xxx, en
þá var kærandi orðin þunguð og ómögulegt reyndist fyrir hana að fá vinnu.
Meðfylgjandi svari kæranda voru upplýsingar um húsaleigubætur og þær
skattaívilnanir sem hún og sambýlismaður hennar fengu sem og barnabætur eftir
fæðingu barnsins. Kærandi kveðst ekkert hafa unnið það sem af er árinu 2009. Hún
kveður heildartekjur maka fyrir skattárið 2008-2009 í Bretlandi hafa verið
13.711 bresk pund. Af hálfu stjórnar LÍN kemur fram að í gr. 7.4.1. í
úthlutunrareglum LÍN segi:
"Hafi lánþegi haft svo lágar tekjur á
fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki
batnað á endurgreiðsluárinu er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá fastri
ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða
aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Að
jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k.
fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar."
Þar sem kærandi hafi ekki
getað sýnt fram á fæðinarorlofsgreiðslur í a.m.k. 4 mánuði fyrir umræddan
gjalddaga né skráð atvinnuleysi áður en hún eignaðist barnið hafi stjórn LÍN
synjað erindi hennar á þeim forsendum að það skorti heimildir í úthlutunrareglum
LÍN til að verða við því.
Niðurstaða
Fyrir liggur að kærandi eignaðist barn þann xxx. Þrátt fyrir að kærandi geti ekki sýnt fram á fæðingarorlofsgreiðslur, í a.m.k. 4 mánuði fyrir umræddan gjalddaga sem krafist er undanþágu á greiðslu á, er ljóst af gögnum málsins og atvikum öllum að þungunin og umönnun barnsins hefur haft veruleg áhrif á ráðstöfunartekjur heimilis kæranda í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunarinnar þann 01.03.2009. Gildir þar einu þó barnið hafi ekki fæðst fyrr en skemmri en fjórir mánuðir voru til gjalddagans. Að áliti málskotsnefndar þykir því gr. 7.4.1. í úthlutunrreglum LÍN eiga við í máli þessu og kærandi þar með eiga rétt á undanþágu á greiðslu afborgunarinnar þann 01.03.2009.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 29.05.2009 í máli kæranda er felldur úr gildi.