Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2009 - Skilyrði lánveitingar - synjun um aukalán fyrir námsmenn í sárri neyð

Úrskurður

Ár 2009, fimmtudaginn 15. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2009.

Kæruefni

Með kæru dags. 2. júní 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 4. maí sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um aukalán fyrir námsmenn í sárri neyð.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 10. júní sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 23. júní sl. Með bréfi dags. 29. júní sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það.

Með tölvupósti dags. 7. september sl. óskaði málskotsnefndin eftir frekari upplýsingum frá kæranda. Var óskað eftir að kærandi sendi nefndinni upplýsingar um breytingar á fjárhagslegum högum sínum haustið 2008. Þá var óskað eftir yfirliti um eignastöðu fyrir og eftir bankahrunið í október 2008 sem sýna myndu með skýrum hætti þá röskun sem varð á högum kæranda á þeim tíma. Þá var óskað eftir upplýsingum um fjárhagslega stöðu kæranda á vorönn 2009. Kæranda bar að skila inn gögnum fyrir 28. september sl.

Kærandi staðfesti móttöku tölvupóstsins en ekki hafa borist frekari gögn frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um aukalán fyrir námsmenn í sárri neyð. Kærandi kveðst vera að sækja um neyðarlán fyrir vorönn 2009 en ekki haustönn 2008, eins og fram komi í úrskurði LÍN, þar sem hún eigi rétt á námslánum fyrir það tímabil, þ.e. vorönn 2009. Kærandi kveðst ekki hafa verið metinn aftur hjá LÍN þrátt fyrir að hafa látið LÍN vita í október að hún hefði dregið sig frá námi. Þess í stað hafi hún haldið áfram með það mat sem gert var fyrir hana af sjóðnum í september fyrir haustönn 2008 á vorönn 2009. Því hafi ekki verið tekið tillit til breyttra efnahagsastæðna og gengisbreytinga í mati fyrir hana á vorönn 2009.

Kærandi stundar iðjuþálfaranám í Kaupmannahöfn. Kærandi kveðst hafa þurft að taka frí frá námi haustönn 2008 eftir aðeins einn mánuð í námi vegna persónulegra og andlegra erfiðleika sem komu í kjölfar áfalls sem hún varð fyrir í sumarbyrjun 2008. Á haustönn hafi hún gengið á yfirdrátt sinn hjá bankanum sem hún hafði fengið fyrir haustönn 2008. Gengisbreytingar næstu mánuði höfðu áhrif á ráðstöfunartekjur hennar og yfirdrátturinn fljótt uppurinn. Kveðst kærandi hafa gert allt hvað hún gat til að draga úr fjárhagslegum útgjöldum og hefur lagt fram gögn til að sýna fram á það.

Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um aukalán fyrir námsmenn í sárri neyð þar sem hún hvarf frá námi á haustmisseri 2008 og átti því ekki rétt á námslánum fyrir það tímabil. Aukalánin hafi verið sértæk aðgert sem ríkisstjórnin samþykkti til að koma til móts við námsmenn sem urður fyrir ófyrirsjáanlegri röskun á stöðu eða högum haustið 2008 vegna bankahrunsins. Þar sem kærandi hafi ekki verið í námi á þeim tíma var umsókn hennar hafnað.

Niðurstaða

Vegna þeirra aðstæðna sem upp komu í íslensku efnahagslífi í október 2008 voru gerðar breytingar á úthlutunarreglum LÍN og sjóðnum heimilað að veita námsmönnum sérstakt aukalán vegna ófyrirséðra breytinga á fjárhagslegum högum námsmanns sem hann varð fyrir í kjölfar hruns bankanna. Heimildina er að finna í gr. 4.9 í úthlutunarreglum LÍN 2008-2009 en þar segir: "Heimilt er að veita námsmanni aukalán sem samsvarar framfærslu allt að 7 ECTS-einingar fyrir námsmann á Íslandi og 14 ECTS- einingar fyrir námsmenn erlendis að teknu tilliti til fjölskyldustærðar verði ófyrirsjáanleg röskun á stöðu og högum námsmanns og reglur þessar ná ekki til hennar að öðru leyti. Námsmenn þurfa að sækja sérstaklega um aukalán, en þau eru ætluð þeim sem eru í sárri neyð og verður hvert tilvik metið af stjórn sjóðsins. Á þetta t.d. við þegar námsmanni verður vegna alvarlegra veikinda, örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild. Hafa skal hliðsjón af þeim bótum sem námsmaður fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf. Heimilt er skv. þessari grein að veita námsmanni sérstakt lán vegna aukaferðar ef hann þarf skyndilega að fara heim vegna alvarlegra veikinda eða andláts í nánustu fjölskyldu".

Fjárhagslegir öruðugleikar kæranda eru ekki dregnir í efa og gengisbreytingar íslensku krónunnar haustið 2008 öllum kunnar. Hinsvegar voru aukalán til námsmanna vegna breytinga á fjárhagslegri stöðu námsmanns í kjölfar hruns íslensku bankanna hugsuð fyrir þá námsmenn sem voru í námi haustönn 2008 og geta rakið fjárhagsleg vandkvæði sín með beinum hætti til hruns bankanna. Kærandi í máli þessu dró sig úr námi snemma á haustönn 2008 og gat því þegar af þeirri ástæðu ekki fengið aukalán samkvæmt framangreindum reglum vegna atburða er gengu yfir íslenskt efnahagslíf þá.

Að áliti málskotsnefndarinnar er ekki heimilt að afgreiða aukalán, á vorönn 2009, fyrir námsmenn í sárri neyð sem eingöngu er til komin vegna hruns efnahagskerfisins í október 2008. Fjárhagsleg vandkvæði kæranda í máli þessu virðast bundin við erfiðleika í tengslum við hrunið og gengislækkunar krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 4. maí 2009 er staðfestur.

Til baka