Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-06/2009 - Lánshæfi - lánshæfi náms við Atelier Stockholm

Úrskurður

Ár 2009, fimmtudaginn 15. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-6/2009.

Kæruefni

Með kæru dags. 10. júní 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 6. apríl sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um lán til sérnáms erlendis.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 10. júní sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 23. júní sl. Með bréfi dags. 29. júní sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 6. júlí sl. Málskotsnefndin ritaði kæranda bréf dags. 11. september sl., þar sem óskað var frekari upplýsinga frá kæranda um skipulag náms hans og var kæranda gefinn 14 daga frestur til að svara bréfinu. Ekki hafa borist svör frá kæranda við bréfi málskotsnefndarinnar.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stefndi á nám í klassískri myndlist. Skólinn sem kærandi hugðist stunda nám við heitir Atelier Stockholm, Stockholmi Svíþjóð. Kærandi segir námið "beinast að tæknilegri og faglegri nálgun á meðferð og úrvinnslu, með það fyrir sjónum að fulkomna hæfileikann til að endurskapa hvaða viðfangsefni sem er í fullkomnum "realisma"".

Slíkt nám sé ekki í boði hérlendis. Kærandi sótti um námslán á grundvelli gr. 1.3.2. í úthlutunarreglum LÍN um sérnám erlendis.

Kærandi bendir m.a. á að námstíminn sé þrjú ár og að námið sé þaulskipulagt. Þá leggur kærandi fram umsagnir xxxxx, myndlistamanns og xxxxx, hönnuðar, sem báðir mæla með þessu námi kæranda út frá hagnýtum og listrænum gildum.

Stjórn LÍN vísar til þess að námið sé ekki á háskólastigi og að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru engin fyrirfram ákveðin inntökuskilyrði s.s. krafa um stúdentspróf. Þá vísar stjórn LÍN til ákvæða gr. 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN þar sem m.a. segir "Lánshæfi er háð því að um sé að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám sem talist getur nægilega veigamikið að því er varðar eðli þess, uppbyggingu og starfsréttindi að mati stjórnar sjóðsins". Með vísan til þessara skilyrða féllst stjórn LÍN ekki á beiðni kæranda um lán til sérnáms við Atelier Stockholm í Stokkhólmi.

Niðurstaða

Í gr. 1.3.2. í úthlutunaarreglum LÍN segir m.a: "Heimilt er að veita lán til sérnáms erlendis. Lánshæfi er háð því að um sé að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám sem talist getur nægilega veigamikið, að því er varðar eðli þess, uppbyggingu og starfsréttindi, að mati stjórnar sjóðsins".

Í þeim gögnum sem kærandi hefur hefur lagt fram í málinu eru ekki upplýsingar um veigamikil atriði er varða skipulag náms við Atelier Stockholm skólann, sem hafa áhrif við mat á því hvort veita skuli lán til sérnáms kæranda. Þar er m.a. átt við upplýsingar um inntökuskilyrði, námslengd, kröfur um námsárangur á námsári o.fl.

Það er í verkahring stjórnar LÍN að meta í hverju tilviki hvort námið telst nægjanlega veigamikið hvað varðar eðli þess, uppbyggingu o.þ.h. Fallist er á sjónarmið stjórnar LÍN miðað við fyrirliggjandi gögn málsins.

Með vísan til framanritaðs er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 6. apríl 2009 í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 6. apríl 2009 er staðfestur.

Til baka