Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-15/2009 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð

Úrskurður

 

Ár 2009, fimmtudaginn 15. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2009.

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 24. ágúst 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 29. maí 2009 þar sem hafnað var beiðni kæranda niðurfellingu á ábyrgð á námsláni R-xxxxx.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 27. ágúst sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 11. september sl. Með bréfi dags. 17. september sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi óskar eftir niðurfellingu á ábyrgð á námsláni R-xxxxx sem xxxxx er greiðandi af en kærandi er ábyrgðarmaður á umræddu námsláni. Kærandi kveðst nú þegar vera með eigin skuldir í lögformlegu nauðasamningsferli. Öllum beiðnum um nauðasamninga hafi verið hafnað og útlit sé fyrir að samningsumleitanir við lánardrottna endi með gjaldþroti. Ósk hans um niðurfellingu ábyrgðar er byggð á greiðsluörðugleikum hans. Kærandi hefur lagt fram leyfisbréf dómsmálaráðherra til hans vegna réttaraðstoðar til að leita nauðasamnings vegna fjárhagsörðugleika, sem og upplýsingar um aðstoðarmann skuldara. 

Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgð á námsláni R-xxxxx með vísan til greinar 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN þar sem segir að ekki sé heimilt að fella niður ábyrgðarmenn af námsláni nema nýr ábyrgðarmaður komi í staðinn sem uppfylli skilyrði sjóðsins um ábyrgðarmenn. Þá þurfi námslánið að vera í skilum áður en heimilt er að skipta um ábyrgðarmann en lánið hafi verið vanskilum síðan 1. september 2008. Ef greiðandi komi láninu í skil geti hann óskað eftir því að skipta um ábyrgðarmann og þannig losað kæranda undan ábyrgð.

 

Niðurstaða

 

Í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er gert ráð fyrir því að námsmaður, sem þiggur námslán, leggi fram yfirlýsingu að minnsta kosti eins ábyrgðarmanns sem taki að sér sjálfsskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Í 7. mgr. sömu lagagreinar segir að stjórn sjóðsins ákveði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. 

Þar segir jafnframt að ábyrgð ábyrgðarmanns geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. 

Einnig kemur fram í ákvæðum greinar 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN að eldri ábyrgð á námsláni falli ekki úr gildi nema henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki LÍN. 

Enga heimild er því að finna í lögum og reglum um LÍN til þess að fella niður ábyrgð kæranda án þess að annar ábyrgðarmaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 29. maí 2009 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka