Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-11/2009 - Skilyrði lánveitingar - námsaðstoð frá tveimur nánslánasjóðum

Úrskurður

Ár 2009, fimmtudaginn 12. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-11/2009.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 30. júlí sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 5. maí sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán fyrir skólaárið 2008-2009.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 11. ágúst sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 24. ágúst sl. Með bréfi dags. 28. ágúst sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskaði eftir námsláni hjá LÍN fyrir skólaárið 2008-2009 og fékk afgreitt lán sem samsvarar 30 ECTS einingum. Kærandi þáði einnig aðstoð frá danska lánasjóðnum fyrir hluta haustannar 2008 og var þá gert að endurgreiða LÍN það lán sem sjóðurinn hafði afgreitt hana um fyrir haustönnina.

Kærandi kveðst ekki skilja hvers vegna hún þurfi að greiða lánið til baka og hvers vegna hún geti ekki fengið hluta af láninu fyrir haustönnina. Kveðst hún hafa hringt til LÍN varðandi málið og fengið þær upplýsingar að hún þyrfti að greiða lánið að hluta til baka og að það tæki einhvern tíma fyrir LÍN að reikna út hversu mikið það yrði. Eins sé hægt að fá 50% lán frá LÍN og skilur kærandi ekki hvers vegna hún getur ekki fengið slíkt lán fyrir haustönnina 2008.

Stjórn LÍN synjaði kæranda um námslán fyrir skólaárið 2008-2009. Kærandi hafi sótt um lán hjá Lánasjóði fyrir skólaárið 2008-2009 og fengið afgreitt lán sem samsvari 30 ECTS einingum á haustmisseri. Jafnframt hafi sjóðurinn fengið þær upplýsingar að kærandi hefði þegið aðstoð hjá danska lánasjóðnum (SU) frá og með nóvember til desember 2008. Í 6. kafla úthlutunarreglna LÍN komi fram að ekki sé heimilt að sækja um námsaðstoð hjá fleiri en einum norrænum lánasjóði samtímis. Stjórn LÍN synjaði því erindi hennar um námslán vegna skólaársins 2008-2009 og umsókn hennar um námsaðstoð var þá dregin til baka. Þá hafi kærandi verið upplýst um að sjóðurinn væri tilbúinn að endurskoða afstöðu sína ef hún tæki þá ákvörðun að draga umsókn sína til baka hjá danska lánasjóðnum og endurgreiða SU. Haustönnin 2008 hjá kæranda hafi byrjað 01.09.08 og lokið 15.01.09 og þar sem hún hafi lokið 30 ECTS einingum á umræddu tímabili reiknist námsárangur hennar einungis 45% á tímabilinu september til október sem sé ekki lánshæfur árangur skv. úthlutunarreglum LÍN.

Niðurstaða

Í sjötta kafla úthlutunarreglna LÍN segir að umsækjandi við nám á Norðurlöndum utan heimalandsins geti að uppfylltum sérstökum skilyrðum fengið námslán frá námslandinu. Skilyrði fyrir námsaðstoð er að umsækjandi fá ekki námsaðstoð frá öðru landi.

Kærandi þáði aðstoð hjá danska lánasjóðnum (SU) fyrir nóvember og desember 2008. Kærandi lauk 30 ECTS einingum á haustönninni og reiknast þá námsárangur hennar fyrir september og október, sem eru þeir mánuðir sem hún vill að metnir verði lánshæfir af LÍN, 45% af 30 ECTS einingum, það gera 13,5 ECTS einingar. Samkvæmt gr. 2.2. í úthlutnarreglum LÍN verður námsmaður að ljúka í það minnsta 20 ECTS einingum eða ígildi þeirra til að eiga rétt á námsláni. Námsárangur hennar fyrir september og október er því ekki lánshæfur.

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 5. maí 2009 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka