Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2008 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um frest á afborgun

Úrskurður

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2008.

Kæruefni

Með kæru dags. 13. október 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 17. júlí 2008 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu á fastri afborgun námsláns.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 17. október 2008 tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 28. október 2008 Með bréfi dags. 4. nóvember 2008 var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 10. nóvember 2008.

Þann 11. desember 2008 kvað málskotsnefnd LÍN upp úrskurð sinn í málinu þar sem úrskurður stjórnar LÍN var staðfestur.

Þann 6. apríl 2009 barst málskotsnefndinni bréf frá umboðsmanni Alþingis. Í bréfinu kom fram að kærandi hefði leitað til umboðsmanns vegna úrskurðarins frá 11. desember 2008. Í bréfi umboðsmanns er atvikum málsins lýst og farið yfir helstu laga og reglugerðarákvæði sem skipta máli í því sambandi. Í niðurlagi bréfsins er ákveðnum spurningum beint til málskotsnefndarinnar, en þar segir: "Í ljósi þess sem að framan er rakið og með vísan til 7. og . gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, óska ég eftir því að málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna geri mér grein fyrir því hvort og þá hvernig nefndin hafi, með tilliti til undanþáguheimildar síðari málsliðar 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, lagt sjálfstætt mat á aðstæður og fjárhag kæranda og endurgreiðsluárinu 2008 og þá sérstaklega hvort atvinnumissir hans hafi valdið honum eða fjölskyldu hans verulegum fjárhagsörðugleikum. Þar hef ég einkum í huga að niðurstaða málskotsnefndarinnar virðist eingöngu byggð á því að tekjumunur á milli áranna 2006 og 2007 hafi ekki verið slíkur að um hafi verið að ræða verulega breytingu á högum kæranda á því tímabili. Hins vegar virðist ekki vera litið til stöðu kæranda á gjalddaga afborgunarinnar, þ.e. í mars 2008. Í þessu sambandi bendi ég einnig á að það er eingöngu hin tekjutengda viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins sem er háð tekjum fyrra árs, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Þá óska ég eftir því að mér verði afhent öll gögn málsins".

Með bréfi málskotsnefndarinnar dags. 22. apríl 2009 var umboðsmanni Alþingis send öll gögn málsins. Í bréfinu kom eftirfarandi m.a. fram:

"Málskotsnefndin byggði niðurstöðu sína í máli þessu á breytingum sem urðu á tekjum kæranda milli áranna 2006 og 2007, enda er tekjutengda afborgun námslánanna 2008 miðuð við tekjur 2007. Af samanburði tekna þessara tveggja ára þótti breytingin ekki slík að tilefni gæfi til að veita undanþágu, hvorki af tekjutengdu afborguninni né fastri afborgun. Af hálfu málskotsnefndarinnar var ekki óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda á árinu 2008 við vinnslu málsins".

Þann 19. júní 2009 barst málskotsnefndinni bréf frá umboðsmanni Alþingis. Í bréfinu kemur eftirfarandi m.a. fram:

"1. Í greinargerð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til málskotsnefndarinnar vegna kæru kæranda, dags. 28. október 2008, segir að stjórn lánasjóðsins hafi ekki fallist á að kærandi hafi átt rétt á undanþágu frá föstu afborguninni vegna lágra tekna „þar sem honum reiknaðist tekjutengd afborgun með gjalddaga 1. september 2008“ og virðist þar vísað til ákvæða sem var að finna í gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum lánasjóðsins fyrir árin 2007 til 2008, en er nú að finna í gr. 7.4.2. í úthlutunarreglum fyrir árin 2008 til 2009. Þessi sjónarmið stjórnar lánasjóðsins eru rakin í úrskurði málskotsnefndarinnar frá 11. desember 2008 en koma ekki berum orðum fyrir í niðurstöðukafla úrskurðarins. a. Ég óska þess að málskotsnefndin útskýri nánar á hvaða lagasjónarmiðum nefndin byggir þá afstöðu sína að tekjumunur á milli áranna 2006 og 2007 hafi vægi við mat á því hvort veita eigi undanþágu vegna greiðslu fastrar afborgunar af námsláni á árinu 2008. Í því sambandi ítreka ég það sem fram kom í bréfi mínu til nefndarinnar, dags. 6. apríl sl., að það er eingöngu hin tekjutengda viðbótargreiðsla sem lögum samkvæmt er háð tekjum fyrra árs, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992.

b. Hafi málskotsnefndin byggt afstöðu sína á því ákvæði úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem stjórn lánasjóðsins vísaði til í greinargerð sinni vegna kæru kæranda, óska ég eftir afstöðu málskotsnefndarinnar til þess hvort þau skilyrði ákvæðisins, að námasmaður verði að hafa haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknist ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hafi ekki batnað á endurgreiðsluárinu, samrýmist ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og þá jafnframt hvort nefndin telji ákvæðið fullnægjandi lagagrundvöll undir ákvörðun um að synja um undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar af námsláni. Einnig óska ég afstöðu málskotsnefndarinnar til þess hvort og þá hvernig úrskurður hennar hafi að þessu leyti samrýmst ákvæðum 4. tölul. 31. gr., sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

2. Í ljósi þess að málskotsnefndin óskaði ekki eftir upplýsingum um aðstæður og fjárhag kæranda á árinu 2008 við vinnslu málsins og ekki verður séð af gögnum málsins að slíkar upplýsingar hafi legið fyrir hjá stjórn sjóðsins að öðru leyti en í formi yfirlýsingar kæranda um að tekjur hans á árinu yrðu undir 1.900.000 kr. óska ég eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort nefndin telji sig hafa lagt fullnægjandi grundvöll, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að þeirri niðurstöðu sinni að kærandi ætti ekki rétt á undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar námsláns greiðsluárið 2008. Í því sambandi bendi ég jafnframt á að af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ekki ráðið að málskotsnefndin hafi innt stjórn lánasjóðsins sérstaklega eftir því hvor hún hafi framkvæmt skyldubundið mat á högum og aðstæðum kæranda sem leiðir af 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 til að unnt væri að taka afstöðu til umsóknar um undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar námsláns.

Ég óska eftir því að svör við framangreindum spurningum berist mér eigi síðar en 7. júlí nk. Ég tek þó fram að telji nefndin tilefni til að endurupptaka úrskurð sinn í ljósi fyrirspurna minna þá er ekki nauðsynlegt að hún svari ofangreindum spurningum mínum sérstaklega
".

Í framhaldi af framangreindu bréfi umboðsmanns sendi málskotsnefndin kæranda bréf dags. 19. ágúst 2009. Afrit voru send á LÍN og umboðsmann Alþingis. Í bréfinu kemur eftirfarandi fram:

"Í tilefni af fyrirspurnarbréfum Umboðsmanns Alþingis dags. 6. apríl og 19. júní sl. hefur málskotsnefnd LÍN tekið ákvörðun um að endurupptaka mál L-17/2008, þ.e. mál vegna kæru þinnar til nefndarinnar dags. 13. október 2008. Vísað er til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Vegna þessa er hér með óskað eftir nákvæmri sundurliðun á þeim breytingum sem urðu á fjárhag þínum við atvinnumissinn þann 31. júlí 2007. Óskað er eftir að fram komi hverjar tekjur þínar voru árið 2006 og fram til loka júlí 2007, hvernig þær breyttust og voru fram að gjalddaga fastrar afborgunar námsláns þíns á fyrri hluta árs 2008. Einnig er óskað eftir að þú gerir grein fyrir helstu útgjaldaliðum þínum og að af yfirlitinu megi ráða hvernig raunverulegar ráðstöfunartekjur þínar breyttust vegna atvinnuleysisins. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hvenær þú fékkst vinnu aftur og þær breytingar sem urðu á ráðstöfunartekjum þínum við það.

Þess er óskað að upplýsingar þessar berist málskotsnefndinni fyrir 5. september n.k.
"

Svarbréf barst frá kæranda dags. 3. september 2009 þar sem hann gerir grein fyrir tekjum sínum og helstu útgjaldaliðum. Stjórn LÍN var sent afrit af bréfinu með bréfi dags. 10. september 2009 þar sem stjórninni var gefinn tveggja vikna frestur til að gera athugasemdir.

Svarbréf stjórnar LÍN dags. 24. september 2009 barst málskotsnefndinni þann 1. október 2009. Þar kemur m.a. fram að stjórn LÍN telji afgreiðslu á erindi kæranda hafa verið í samræmi við lög og reglur og jafnræðis gætt við afgreiðslu málsins og þess krafist að málskotsnefndin staðfesti fyrri úrskurð sinn í má

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um undanþágu frá greiðslu á fastri afborgun af námsláni með gjalddaga 1. mars 2008 vegna skyndilegra og verulegra breytinga með vísan til gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN.

Kærandi bendir á að tekjur hans komi til með að verða langt undir kr. 1.900.000 og að atvinnuleysi hans hafi varað meira en 4 mánuði fyrir gjalddagann þar sem hann hafi verið atvinnulaus frá 30. október 2007.

Af hálfu stjórnar LÍN er vísað til þess að kærandi hafi haft útsvarstekjur að fjárhæð kr. 2.328.800 á árinu 2007 samanborið við kr. 2.933.500 árið áður. Tekjulækkun milli ára nemi því kr. 604.700 eða 21%. Stjórn LÍN fellst ekki á að um sé að ræða verulega breytingu á högum kæranda milli ára, sbr. skilyrði gr. 7.4.2 í úthlutunarreglum LÍN. Þá fellst stjórn LÍN heldur ekki á þau sjónarmið kæranda að hann eigi rétt á undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar vegna lágra tekna þar sem honum reiknaðist tekjutengd afborgun með gjalddaga 1. september 2008.

Í úrskurði stjórnar LÍN frá 17. júlí 2008 er athygli kæranda vakin á því að hann kunni að eiga rétt á undanþágu frá tekjutengdu afborgun ársins 2008. Í framhaldi af yfirlýsingu frá kæranda þess efnis að tekjur hans á árinu 2008 verði lægri en kr. 1.900.000 var fallist á að veita honum undanþágu frá afborgun með gjalddaga 1. september 2008.

Niðurstaða

Í gr. 7.4.1. í úthlutunaarreglum LÍN segir: "Nú gefur útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Ef lánþegi gerir skriflega grein fyrir þessum breyttu högum sínum og styður hana tilskildum gögnum, er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum, eftir atvikum."

Í gögnum málsins kemur fram að útsvarsstofn kæranda var kr. 2.933.500 á árinu 2006 og kr. 2.328.800 á árinu 2007. Í þeim viðbótargögnum sem aflað hefur verið frá endurupptöku máls þessa má ráða að verulegar breytingar urðu á högum kæranda seinnipart árs 2007 og 2008. Þannig var útsvarsstofn hans á árinu 2008 kr. 501.844 eða einungis rúmlega 21% af útsvarsstofnu árið áður. Hlýtur hagur kæranda því að teljst hafa versnað verulega milli áranna 2007 og 2008. Með vísan til þess sem að framan er rakið og 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. júlí 2008 er fellur úr gildi.

Til baka