Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2009 - Lánshæfi - lánshæfi náms

Úrskurður

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2009.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 1. september sl. kærði Ljósmyndaskólinn ehf., kt. 610907-0750, úrskurð stjórnar LÍN frá 26. júní sl. þar sem hafnað var beiðni um að nám við Ljósmyndaskólann ehf. yrði gert lánshæft.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 4. september sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 17. september sl. Með bréfi dags. 21. september sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 5. október sl. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum frá LÍN er varðar aðra skóla sem kærandi telur sambærilega Ljósmyndaskólanum. Svar barst frá LÍN þann 11. nóvember sl.

Málskotsnefnd sendi fyrirspurn til fyrirsvarsmanns kæranda þann 23. nóvember sl. um hvort Ljósmyndaskólinn ehf. hefði fengið umfjöllun hjá Starfsgreinaráði upplýsinga og fjölmiðlagreina á námi skólans. Svar barst frá kæranda 25. nóvember sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskaði eftir því að nám við Ljósmyndaskólann ehf. yrði talið lánshæft en var synjað af LÍN.

Ljósmyndaskólinn ehf., sem áður hét Ljósmyndaskóli Sissu, hefur verið starfræktur frá árinu 1997 og býður nú upp á 5 anna nám, 81 einingar á framhaldskólastigi, til undirbúnings starfa við skapandi ljósmyndun.

Í febrúar sl. hlaut skólinn viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins sem einkaskóli á framhaldskólastigi. Í framhaldi af því fór skólinn fram á það við stjórn LÍN að samþykkt yrði að nám við skólann yrði lánshæft hjá LÍN en var synjað. Telur kærandi að skólinn uppfylli skilyrði úthlutunarreglna LÍN og að synjunin brjóti í bága við jafnræðislegu.

Kærandi hefur lagt fram tölvupóstsamskipti milli stjórnenda skólans og stjórnarmanns LÍN og segir þar koma fram að stjórn LÍN telji það nám sem boðið sé upp á í Ljósmyndaskólanum til framhaldsskólanáms en ekki löggilts iðnnáms eða háskólanáms. Svo virðist sem stjórn LÍN telji það réttlæta synjun sína. Á þennan skilning stjórnar LÍN geti stjórnendur Ljósmyndaskólans ekki fallist enda segi í gr. 1.2.2. í úthlutunarreglum LÍN að lánshæft sérnám á Íslandi sé löggilt iðnnám og annað a.m.k. eins árs starfsnám á framhaldsskólastigi samþykkt af menntamálaráðuneyti. Telur kærandi því ekki hægt að synja skólanum um lánshæfi á þeirri forsendu að um sé að ræða skóla á framhaldsskólastigi. Væri slíkt í andstöðu við skýrt orðalag úthlutunarreglna LÍN. Í Ljósmyndaskólanum séu gerðar kröfur til nemenda um að hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu námi. Nám við Ljósmyndaskólann sé ekki liður í undirbúningi til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs heldur miði námið að því að veita nemendum undirbúning til að starfa í atvinnulífinu í samræmi við almennar kröfur. Um sé að ræða skapandi ljósmyndanám sem að mati stjórnenda Ljósmyndaskólans flokkist frekar sem listnám.

Kærandi byggir kröfu sína um að nám í Ljósmyndaskólanum teljist lánshæft hjá LÍN fyrst og fremst á því að nám við aðra skóla sem bjóði upp á nám á sama stigi og boðið er upp á hjá Ljósmyndaskólanum teljist lánshæft. Vísar kærandi í fyrsta lagi til Kvikmyndaskóla Íslands. Kvikmyndaskóli Íslands hafi líkt og Ljósmyndaskólinn fengið viðurkenningu menntamálaráðuneytisins sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Þá bjóði Kvikmyndaskóli Íslands ekki upp á löggilt iðnnám heldur upp á almennt nám í kvikmyndagerð sem nýst geti nemendum í atvinnulífinu án þess að nemendur öðlist sérstök réttindi eða prófgráðu að námi loknu. Námið við Kvikmyndaskóla Íslands teljist jafnframt, líkt og námið hjá Ljósmyndaskólanum að stórum hlut til listnáms eða skapandi náms. Námið við Kvikmyndaskóla Íslands sé tveggja ára nám (4 annir) en námið við Ljósmyndaskólann sé 5 annir. Kærandi telur jafnframt að nám það sem boðið er upp á hjá Keili og er lánshæft hjá LÍN teljist hvorki til löggilts iðnnáms né háskólanáms heldur sé um að ræða starfsnám á framhaldsskólastigi sem þó sé ekki liður í undirbúningi til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs líkt og nám það sem boðið sé upp á hjá Ljósmyndaskólanum. Þá vísar kærandi einnig til þess að nám við erlenda ljósmyndaskóla t.d. A.M.U í Tékklandi (2 anna diplóma nám) teljist lánshæft. Kærandi nefnir og fleiri skóla. Kærandi telur að nám það sem boðið er upp á í Ljósmyndaskólanum sé síst lakara og í mörgum tilfellum umfangsmeira en það sem boðið er upp á í ofangreindum skólum og það skjóti skökku við að gerðar séu aðrar og ríkari kröfur til íslenskra ljósmyndaskóla en erlendra þegar meta skal hvort nám við skólana teljist lánshæft. Kærandi vekur sérstaka athygli á því að ná við framtalda erlenda háskóla sé ekki sambærilegt löggiltu iðnnámi enda fari nemendur ekki á námssamning, frekar en nemendur Ljósmyndaskólans. Þegar stjórn LÍN hafi lagt mat á það hvað geti talist lánshæft sérnám erlendis hafi stjórnin litið til gr. 1.2.2. í úthlutunarreglunum og hafi það verið gert til að gæta samræmis í kröfum sem gerðar séu til lánshæfs sérnáms hér á landi og annars staðar. Því sé eðlilegt að við mat á því hvaða kröfur eigi að gera til lánshæfs sérnáms hér á landi að líta til þeirra krafna sem gerðar séu til sambærilegs sérnáms í erlendum skólum og teljist lánshæft. Þetta telur kærandi stjórn LÍN ekki hafa gert. Máli sínu til frekari stuðnings vísar kærandi til niðurstöðu málskotsnefndar í máli nr. L 23/2002 þar sem fjallað hafi verið um lánshæfi erlends sérnáms. Kærendur ítreki að það að gera ríkari kröfur til lánshæfismats á íslensku námi en til lánshæfismats á erlendu námi sé andstætt jafnræðisreglu.

Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um að nám við skólann teldist lánshæft með vísan til gr. 1.2.2 í úthlutunarreglum LÍN. Það nám sem um ræðir sé nám á framhaldsskólastigi til undirbúnings starfa við skapandi ljósmyndun. Námið sé byggt upp sem tveggja anna grunnnám og þriggja anna framhaldsnám. Námið í heild sinni er metið til 81 eininga á 5 önnum. Inntökuskilyrði er að hafa lokið framhaldsskóla eða öðru sambærilegu námi. Unnt sé að sækja um undanþágu frá þessu ákvæði til skólastjóra. Menntamálaráðuneytið veiti skólanum viðurkenningu sem einkaskóla á framhaldsskólastigi þar sem ekki sé krafist lögverndaðra starfsréttinda. Nemendur sem lokið hafi námi í Ljósmyndaskólanum megi ekki kalla sig ljósmyndara né taka að sér störf eða stunda starfsemi sem eingöngu löggiltir ljósmyndarar hafi rétt til. Einingar sem nemendur fá fyrir nám sitt í skólanum flytjist ekki sjálfkrafa með þeim hefji þeir nám í almennum framhaldsskóla þar sem skólinn starfi ekki samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.

Í svarbréfi LÍN við fyrirspurn málskotsnefndar um lánshæfi Kvikmyndaskóla Íslands segir að Kvikmyndaskólinn hafi fengið viðurkenningu menntamálaráðuneytisins til að starfrækja tveggja ára starfsmenntabraut í kvikmyndagerð sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Námið er viðurkennt af félagi Kvikmyndagerðamanna og veiti inngöngu í félagið og til starfsheitisins Kvikmyndagerðamaður. Þá sé A.M.U í Tékklandi listaskóli á háskólastigi. Nemendur í ljósmyndun geti innritast í þriggja ára bachelornám og tveggja ára meistaranám að því loknu. Þessir skólar séu því ekki sambærilegir.

Málskotsnefnd sendi kæranda þá fyrirspurn hvort Starfsgreinaráð upplýsinga og fjölmiðlagreina (SUF) eða annað starfsgreinaráð hefði haft nám Ljósmyndaskólans til umfjöllunar. Svar barst frá kæranda þess efnis að við afgreiðslu á viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins á námi Ljósmyndaskólans í skapandi ljósmyndun hafi það verkferli ekki verið viðhaft af ráðuneytinu að leita umsagnar eða viðurkenningar starfsgreinaráðs. Í viðurkenningarbréfi ráðuneytisins komi ekki fram þörf á slíku. Embættismaður Menntamálaráðuneytisins hafi tjáð kæranda þá jafnframt að þeir aðrir sjálfstætt starfandi og einkareknu skólar með starfsnám á framhaldsskólastigi sem starfi eftir eigin námsskrá og hlotið hafa viðurkenningu ráðuneytisins og þar með lánshæfi, hafi ekki lotið þeirri reglu að námið væri skipulagt eða viðurkennt af starfsgreinaráði.

Niðurstaða

Í grein 1.2.2. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Nám í fjölbrauta- og menntaskólum og öðrum skólum sem bjóða upp á nám sem er liður í undirbúningi til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs, er ekki lánshæft skv. þessari grein. Lánshæft sérnám á Íslandi er löggilt iðnnám og annað a.m.k. eins árs starfsnám á framhaldsskólastigi, samþykkt af menntamálaráðuneyti, skipulagt af viðkomandi starfsgreinaráði, sem ekki er launað skv. kjarasamningi umfram grunnframfærslu á Íslandi, sbr. gr. 3.1.1. og 3.2. Námið er lánshæft þann tíma sem það er kennt í skóla að undanskildu fyrsta eða fyrstu tveimur misserum, sbr. 3. mgr., ef hægt er að leggja stund á það beint eftir grunnskólapróf. Ef krafist er aðfararnáms á framhaldsskólastigi er aðfaranámið (fornámið) einnig ólánshæft".

Í málinu liggur fyrir að Ljósmyndaskólinn ehf. hefur hlotið viðurkenningu frá Menntamálaráðuneyti sem einkaskóli á framhaldsskólastigi á grundvelli 12. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla og reglugerðar nr. 108/1999 um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 92/2008. Viðurkenningin er veitt til að starfrækja námsbraut í skapandi ljósmyndun en nám á henni miðast við að veita undirbúning til starfa í atvinnulífinu í samræmi við almennar kröfur. Með almennum kröfum skv. viðurkenningarbréfi ráðherra er vísað til undirbúnings til þeirra starfa þar sem ekki er krafist lögverndaðra starfsréttinda. Nemendur sem ljúka námi frá skólanum mega því ekki kalla sig Ljósmyndara né taka að sér störf eða stunda starfsemi sem eingöngu löggiltir ljósmyndarar hafa rétt til.

Skólinn býður ekki upp á löggilt iðnnám. Til að uppfylla skilyrði gr. 1.2.2. í úthlutunarreglum LÍN um sérnám á Íslandi um annað nám en löggilt iðnnám verður að liggja fyrir að námið sem um ræðir sé skipulagt af viðkomandi starfsgreinaráði. Starfsgreinaráð upplýsinga og fjölmiðlagreina (SUF) er ráðgjafanefnd skipuð af menntamálaráðherra. Starfsgreinaráð fjallar um nám í bókasafnstækni, bókbandsiðn, fjölmiðlatækni, grafískri miðlun, ljósmyndun, nettækni, prentun og veftækni.

Viðurkenning menntamálaráðuneytisins felur ekki sjálfkrafa í sér að nám við skólann sé lánshæft. Skv. framangreindu ákvæði 1.2.2. í útlánareglum LÍN er það viðbótarskilyrði að námið sem um ræðir sé skipulagt af viðkomandi starfsgreinaráði. Af viðurkenningu mennamálaráðuneytisins verður ekki annað ráðið en að umsagnar starfsgreinaráðs hafi ekki sérstaklega verið leitað. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýnt geta fram á að viðurkenning starfsgreinaráðs hafi hlotist á námi Ljósmyndaskólans ehf.

Er því ljóst að Ljósmyndaskólinn ehf. uppfyllir ekki skilyrði úthlutunarreglna LÍN um lánshæfi. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 26. júní 2009 í máli Ljósmyndaskólans ehf. er staðfestur.

Til baka