Úrskurður
Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-19/2009:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 10. október sl. kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 13. ágúst sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán á þeim forsendum að nám kæranda teldist ekki lánshæft. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 19. október sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 27. október sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 2 nóvember sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Með bréfi dags. 24. nóvember sl. komu fram frekari athugasemdir af hálfu kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hefur frá því í haust stundað nám í hljóðblöndun,
upptökum og almennri tónvinnslu við Futureworks skólann í Manchester á Englandi.
Námið er skipulagt sem 2 ára diploma nám með möguleika á 3ja árinu sem lýkur með
bachelor gráðu. Kærandi kveður skólann vera með þeim virtari á sínu sviði á
Englandi og að nemendur skólans komi víðs vegar að úr heiminum. Þá bendir
kærandi á að samkvæmt upplýsingum frá stjórnendum skólans sé það nýtt fyrir þá
að heyra að nemendur skólans eigi í erfiðleikum með að fá lán í sínu heimalandi
til að stunda nám við skólann. Kærandi hafði áður lokið stúdentsprófi frá
Menntaskólanum Hraðbraut og stundaði sl. vetur nám í byggingaverkfræði við
Háskóla Íslands.
Stjórn LÍN vísar í rökstuðningi sínum til gr. 1.3.2. í
úthlutunarreglum LÍN en þar segir: "Heimilt er að veita lán til sérnáms
erlendis. Lánshæfi er háð því að um sé að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám sem
talist getur nægilega veigamikið að því er varðar eðli þess, uppbyggingu og
starfsréttindi að mati stjórnar sjóðsins" Stjórn LÍN tekur m.a. fram að ekki
hafi verið lögð fram gögn sem bendi til þess að námið tryggi einhverskonar
starfsréttindi. Einnig vísar stjórnin til þess að hún setji það skilyrði við mat
á lánshæfi náms að það gildi ákveðin inntökuskilyrði eins og grunnmenntun fyrir
sérnám eða stúdentspróf fyrir háskólanám. Í tilviki kæranda eru engin
inntökuskilyrði varðandi menntun.
Niðurstaða
Í gr. 1.3.2. í úthlutunarreglum LÍN er fjallað um lán til
sérnáms erlendis en þar segir: "Heimilt er að veita lán til sérnáms erlendis.
Lánshæfi er háð því að um sé að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám sem talist
getur nægilega veigamikið að því er varðar eðli þess, uppbyggingu og
starfsréttindi að mati stjórnar sjóðsins" Við mat á lánshæfi náms hefur
stjórn LÍN m.a. miðað við ákveðin inntökuskilyrði s.s. grunnmenntun fyrir sérnám
og stúdentspróf fyrir háskólanám. Í hinu kærða tilfelli er ekki áskilinn
inntökuskilyrði varðandi menntun. Þá kemur fram í gr. 1.3.2. í úthlutunarreglum
LÍN það skilyrði að námið veiti tiltekin starfsréttindi að námi loknu. Ekki
liggja fyrir gögn um að nám kæranda veiti einhverskonar starfsréttindi honum til
handa.
Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli
kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 13. ágúst 2009 í máli kæranda er staðfestur.