Úrskurður
Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-21/2009.
Kæruefni
Með kæru dagsettri 1. september sl. kærði ábyrgðarmaður á láni
x, úrskurð stjórnar LÍN frá 17. september sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda
um niðurfellingu námslána sonar hennar.
Stjórn LÍN var með bréfi dags.
23. október sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um
hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 27. október sl. Með bréfi dags. 2. nóvember
sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að
tjá sig um það en engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi óskaði eftir því við stjórn LÍN að námslán sonar hennar
yrði fellt niður vegna andlegs heilsubrests hans auk þess sem kærandi, sem er 78
ára sjúklingur, getur fyrirsjáanlega ekki efnt ábyrgðarskuldbindingu sína og mun
að óbreyttu missa íbúð sína á nauðungaruppboði vegna skuldarinnar.
Af
hálfu stjórnar LÍN var kveðinn upp úrskurður í málinu þann 17. september sl. þar
sem fram kemur að samkvæmt reglum sjóðsins sé enga heimild að finna um
niðurfellingu lána. Í úrskurði stjórnar LÍN er bent á að stjórninni sé heimilt
að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum
sbr. gr. 7.4. í úthlutunarreglum LÍN, en sækja þurfi um undanþágu eigi síðar en
60 dögum frá gjalddaga afborgunar. Stjórn LÍN samþykkti að endurreikna
tekjutengdar afborganir af námslánum x til samræmis við móttekin afrit
skattframtala og reiknast x því ekki tekjutengdar afborganir árin 2007-2009.
Í kæru til málskotsnefndarinnar er óskað eftir að málskotsnefndin felli
niður uppsafnaðan vanskilakostnað og fresti afborgunum af námslánum kæranda eins
og óskað hafi verið eftir í upphaflegu erindi til stjórnar.
Niðurstaða
Hinn kærði úrskurður fjallar um erindi kæranda um niðurfellingu
námsláns x. Í kæru til málskotsnefndar er úrskurðurinn kærður en jafnframt óskað
eftir því að málskotsnefndin felli niður uppsafnaðan vanskilakostnað og fresti
afborgunum af námslánum kæranda svo sem að framan greinir.
Samkvæmt 2.
mgr. 5. gr. a laga nr. 21/1992 sker málskotsnefndin úr um það hvort úrskurðir
stjórnar LÍN séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Með því að hinn kærði
úrskurður fjallar eingöngu um það hvort fella skuli niður námslán x, er
málskotsnefndin bundin af því tiltekna efni í sínum úrskurði. Af þessum sökum
verður ekki fjallað um niðurfellingu á vanskilakostnaði og frestun afborgana í
úrskurði þessum.
Svo sem fram kemur hjá stjórn LÍN er ekki að finna í
lögun né reglum um LÍN heimild til að fella námslán niður. Af þessum sökum er
hinn kærði úrskurður staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 17. september 2009 í máli kæranda v. láns x er staðfestur.