Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-20/2009 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2009, fimmtudaginn 16. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-20/2009.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 1. október sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 14. ágúst sl. þar sem hafnað var beiðni um undanþágu frá fastri afborgun 2009.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 19. október sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 27. október sl. Með bréfi dags. 2. nóvember sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 15. nóvember sl.

Málskotsnefnd óskaði eftir þeim gögnum sem talin eru upp í úrskurði stjórnar LÍN frá 14. ágúst sl. og bárust þau gögn frá LÍN 2. desember sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskaði eftir undanþágu frá greiðslu námsláns fyrir árið 2009 þar sem hún hefur verið atvinnulaus frá 1. ágúst 2008. Kveður hún LÍN hafa hafnað beiðni sinni þar sem hún hafi unnið 14 tíma og 45 mínútur á þeim fjórum mánuðum sem miðað er við áður en greiðsla átti að fara fram. Kærandi bendir á að sá tími sem hún vann sé 0.022% af þeim tíma sem hún hefði unnið á 4 mánuðum ef hún hefði haft vinnu (17 vikur x 40 = 680 14.5/680) og launin eftir því eða fyrir þessa tíma hafi hún unnið sér inn 82.000 krónur. Heildarlaun hennar fyrir árið 2008 hafi verið 2.090.810 krónur. Þar sem hún hafi verið á Íslandi skólaárið 2007-08 og unnið á Íslandi eigi hún ekki rétt á atvinnuleysisbótum í Bandaríkjunum.

Kærandi kveðst búa í xx, sem sé lítið þorp í strjálbýli og þar sé mikið atvinnuleysi og lítið um atvinnumöguleika. Kveðst hún hafa fengið tímabundna vinnu við prófgjöf í einkareknum skóla í gegnum Bangor Public Schools. Vegna aðstæðna hafi hún þurft að segja upp starfinu. Kveðst hún hafa unnið 14 tíma og 45 mínútur á þessu tímabili, en uppsögn hennar tók gildi 6. mars sl. Laun fyrir þessa vinnu dugi ekki fyrir greiðslu námslánsins. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um undanþágu á fastri afborgun 2009. Í upphaflegur úrskurði LÍN frá 29. maí sl. var beiðni kæranda hafnað með vísan til gr. 7.4.1 og 7.4.2 en samkvæmt þeim greinum sé forsenda þess að unnt sé að veita undanþágu frá greiðslu afborgunar af námslánum að möguleikar lántakanda til öflunar tekna séu skertir á einhvern hátt, t.d. vegna atvinnuleysis, veikinda, lánshæfs náms eða sambærilegra ástæðna. Lánsþegi skal leggja fram viðeigandi vottorð sem staðfestir að eitthvað af áðurgreindum ástæðum hafi varað a.m.k. í 4 mánuði fyrir gjalddaga. Máli sínu til stuðnings hafi kærandi lagt fram staðfestingu um atvinnuleit frá 1. maí sl. í Bandaríkjunum ásamt tekjuyfirliti 2005-2007, launaseðlum frá Bangor School Dep. 2009 og skattframtali kæranda og maka 2009. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún uppfyllti skilyrði framangreindra ákvæða og því synjaði stjórn LÍN erindinu.

Kærandi fór fram á endurupptöku á erindi sínu þann 13. júní sl. þar sem hún taldi sig vera með ný gögn í málinu, erlent skattframtal fyrir sig og maka. Á fundi stjórnar 14. ágúst var erindi hennar tekið til umfjöllunar og fyrri afgreiðsla staðfest á þeim forsendum að innsend gögn staðfestu ekki að kærandi félli undir skilyrði skv. grein 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN.

Niðurstaða

Í grein 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Hafi lánþegi haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar"

Óumdeilt er í málinu að tekjur kæranda voru lágar árið 2008 og undir þeim viðmiðunum sem lánasjóðurinn setur fyrir niðurfellingu afborganna af lánum. Til að unnt sé að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu verður lánþegi að auki að sýna fram á að eitt af þeim aðstæðum sem taldar eru upp í ákvæði 7.4.1. hafi varað yfir í a.m.k. fjóra mánuði. Kærandi hefur lagt fram staðfestingu um atvinnuleit dags. 1. maí 2009, frá The Career Center, Maine Employment Recourse í Bandaríkjunum, sem staðfestir að kærandi er skráður hjá fyrirtækinu sem atvinnuleitandi. Bréfið staðfestir ekki atvinnuleysi fram að 1. maí sl. Verður því að fallast á það með stjórn LÍN að kærandi hafi ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að hún hafi verið atvinnulaus þann tíma sem áskilinn er skv. ákvæði 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 14. ágúst 2009 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka