Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2009 - Útreikningur námslána - lán samkvæmt nýjum reglum frá 10. september 2009

Úrskurður

 

Ár 2010, miðvikudaginn 20. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-22/2009:

 

Kæruefni

 

Með kæru dags. 2. nóvember sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. október sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um að lánsumsókn kæranda væri afgreitt eftir úthlutunarreglum LÍN, sem giltu til 10. september sl. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 12. nóvember sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 24. nóvember sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 30. nóvember sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um námslán til LÍN þann 15. september sl. Þann 10. september sl. tóku gildi nýjar úthlutunarreglur LÍN. Kærandi hefur óskað eftir því að lánsumsókn hennar yrði afgreidd samkv. eldri úthlutunarreglum LÍN þar sem nýjar úthlutunarreglur veiti kæranda takmarkað námslán. 

Kærandi hóf nám sitt haustið 2007. Kærandi sótti ekki um námslán fyrsta haustið en á sl. námsári fékk kærandi lán frá LÍN að fjárhæð kr. 517.294,- Kærandi upplýsir að samkvæmt núgildandi úrhlutunarreglum LÍN eigi hún rétt á námsláni að fjárhæð kr. 14.900,-. 

Stjórn LÍN vísar til þess að breytingar hafi verið gerðar á úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2009-2010. Helstu breytingarnar fólust í því að ákveðið var að hækka grunnframfærslu námslána um 20% en um leið að auka tekjuskerðingarhlutfall námslána úr 10% í 35%. Breytingar þessar voru samþykktar af stjórn LÍN þann 9. september sl. og staðfestar af menntamálaráðherra þann 10. september sl. Auglýsing þess efnis var birt í B-deild Stjórnartíðinda sama dag. Þá bendir stjórnin á að þeir námsmenn sem ekki höfðu sótt um námslán fyrir 10. september sl., höfðu ekki fengið lánsloforð á grundvelli eldri úthlutunarreglna. Að lokum bendir stjórn á að um sé að ræða almennar breytingar á úthlutunarreglum LÍN sem taki jafnt til allra þeirra sem sækja um námslán eftir breytinguna.

 

Niðurstaða

 

Úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið 2009-2010 tóku gildi 1. júlí sl. Með breyttum úthlutunarreglum var ákveðið að hækka grunnframfærslu námslána um 20% en um leið að auka tekjuskerðingarhlutfall námslána úr 10% í 35%. Breytingar þessar voru samþykktar af stjórn LÍN þann 9. september sl. og staðfestar af menntamálaráðherra þann 10. september sl. og var auglýsing þess efnis birt í B-deild Stjórnartíðinda sama dag. 

Þessar breytingar á úthlutunarreglum LÍN höfðu það í för með sér gagnvart kæranda að kærandi fékk lægra lánsloforð frá LÍN en hún hefði fengið samkvæmt eldri úthlutunarreglum. 

Kærandi sótti um lán sitt þann 15. september sl, eða 5 dögum eftir að nýju úthlutunarreglurnar tóku gildi. Fallast verður á það með stjórn LÍN að um sé að ræða almennar breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins og að reglurnar taki jafnt til allra þeirra sem sóttu um námslán eftir að breytingarnar tóku gildi. Þá er gildistaka breytinganna í samræmi við stjórnsýslureglur. 

Með vísan til framanritaðs er fallist á sjónarmið stjórnar LÍN um að hafna beiðni kæranda um að lán hennar verði reiknað út eftir eldri úthlutunarreglum og úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka