Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-24/2009 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu vegna atvinnuleysis

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 20. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-24/2009.

Kæruefni

Með kæru dags. 12. nóvember sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 30. apríl sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um að veita kæranda undanþágu frá greiðslu gjalddaga námslána hans þann 1. mars 2009. Þann 13. ágúst sl. var mál kæranda endurupptekið í stjórn LÍN og kveðinn upp úrskurður þess efnis að viðbótargögn sem kærandi hafði þá sent stjórninni breyttu ekki fyrri úrskurði nefndarinnar og var því synjunin frá 30. apríl 2009 staðfest. Þessi úrskurður stjórnar LÍN er einnig kærður til málskotsnefndar í máli þessu. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 23. nóvember sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 7. desember sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 10 desember sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir komu frá kæranda, en málskotsnefndin hafði samband við kæranda og óskaði eftir afriti af skattframtali hans vegna tekjuársins 2008.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi kveðst hafa útskrifast úr listanámi frá erlendum háskóla á árinu 2008. Áður hafi hann lokið námi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann kveðst hafa unnið í banka á sumrin á námsárum en þegar hann hafi lokið námi sumarið 2008 hafi enga vinnu verið að fá og hafi hann því verið atvinnulaus frá þeim tíma. Hann kveðst hafa leitað að vinnu og lagt inn umsóknir á ráðningaskrifstofur en hins vegar ekki skráð sig atvinnulausan fyrr en í janúar 2009. Hann kveðst einungis hafa haft kr. 250.000 í tekjur á árinu 2008 en föst afborgun af námsláni hans þann 1. mars 2009 hafi verið um kr. 100.000 eða um 40% af árstekjum hans árið 2008 og því sé sú afborgun honum ofviða.

Af hálfu stjórnar LÍN kemur fram að skv. gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum sjóðsins sé forsenda þess að unnt sé að veita undanþágu frá greiðslu afborgunar af námslánum að möguleikar lántakanda til öflunar tekjna séu skertir á einhvern hátt, t.d. vegna atvinnuleysis, veikinda, lánshæfs náms eða sambærilegra ástæðna. Þá segir stjórnin að lánþegi skuli leggja fram viðeigandi vottorð sem staðfesti að eitthvað af áðurgreindum ástæðum hafi varað a.m.k. í 4 mánuði fyrir gjalddaga. Þá bendir stjórn LÍN á að það hafi ávallt verið gerð krafa um staðfestingu Vinnumálastofnunar um að viðkomandi sé atvinnulaus og að vottorð um að viðkomandi sé í atvinnuleit uppfylli ekki þá kröfu og því hafi umsókn kæranda verið hafnað. Stjórn LÍN bendir á að megin rök fyrir því að óskað sé eftir vottorði frá Vinnumálastofnun séu þau að ýmsir lánþegar séu heimavinnandi og því með engar tekjur. Þá telur stjórn LÍN kæranda ekki uppfylla gr. 7.4.2. þar sem hann hafi verið í atvinnuleit frá því í apríl 2008 og atvinnulaus frá því sumarið 2008 og því eigi hann ekki rétt til undanþágu vegna skyndilegra og verulegra breytinga á högum hans.

Niðurstaða

Kærandi hefur lagt fram staðfestingu frá STRÁ MRI ehf. dags. 19. júní 2009 um að hann hafi verið með virka atvinnuumsókn hjá fyrirtækinu frá og með 29. apríl 2008 og að hann hafi endurnýjað umsókn sína reglulega fram til febrúar 2009. Þá hefur kærandi enn fremur lagt fram staðfestingu frá HH ráðgjöf dags. 31. júlí 2009 þess efnis að hann hafi verið með umsókn þar frá 30. apríl 2008 og sú umsókn hafi enn verið virk á útgáfudegi staðfestingarinnar. Skattframtal kæranda vegna tekjuársins 2008 staðfestir að tekjur kæranda á því ári numu kr. 250.000.

Í grein 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN er ekki að finna heimild fyrir því að gera það að skilyrði fyrir undanþágu skv. greininni að viðkomandi lánþegi leggi fram vottorð Vinnumálastofnunar til sönnunar atvinnuleysi. Af framlögðum gögnum í máli þessu þykir ljóst að atvinnuleysi kæranda hefur a.m.k. varað í 4 mánuði fyrir gjalddaga námslána hans þann 1. mars 2009. Á því kærandi rétt á undanþágu frá fastri ársgreiðslu 2009 skv. nefndri grein í úthlutunarreglunum.

Með vísan til framanritaðs er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurðir stjórnar LÍN frá 30. apríl og 13. ágúst 2009 í máli kæranda eru felldir úr gildi.

Til baka