Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-25/2009 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 20. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-25/2009:

Kæruefni

Með kæru dags. 18. nóvember sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 13. nóvember sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um að greiða einungis fasta afborgun (lágmarksupphæð) árlega af námláni sem kærandi er ábyrgðarmaður að. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 23. nóvember sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 7. desember sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 10 desember sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 15. desember sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er ábyrgðarmaður á námsláni X, en X stundaði nám í Bandaríkjunum og fékk námslán hjá LÍN fyrir tæpum tuttugu árum. X hefur aldrei greitt af láninu og hefur kærandi greitt afborganir af því frá upphafi. Kærandi tekur fram af hann hafi lengst af einungis greitt lágmarksgreiðslu (fasta afborgun) en oftast með töluverðum vaxta- og innheimtukostnaði þar sem kröfunni var fyrst beint að X.

Í október 2008 barst kæranda krafa frá LÍN upp á kr. 400.000,- vegna tekjutengdrar afborgunar og þurfti að greiða kr. 500.000,- þ.m.t. innheimtukostnaður. Fyrr á árinu 2008 hafði kærandi greitt kr. 70.000,- vegna fastrar afborgunar.

Í október 2009 barst kæranda enn á ný krafa frá LÍN að fjárhæð kr. 284.285,- vegna tekjutengdrar afborgunar, sem allt bendir til að kærandi verði að inna af hendi. Þá er það mat kæranda að LÍN hafi ekki gert alvarlega tilraun til að innheimta kröfuna hjá X vegna búsetu hans í Bandaríkjunum. Með vísan til þessa rökstuðning fer kærandi fram á ívilnum varðandi afborganir af umræddu láni hjá LÍN.

Stjórn LÍN vísar til gr. 7.3. í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram kemur að lánþegi sem ekki er skattskyldur af tejum sínum á Íslandi er gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar. Í tilviki kæranda þá bárust engar upplýsingar um tekjur lánþegans X erlendis vegna ársins 2008 en upplýsingar höfðu borist vegna tekna X erlendis á árinu 2007.

Með vísan til þess áætlaði LÍN tekjur á X í samræmi við ákvæði gr. 7.3. í úthlutunarreglum LÍN en þar segir: "Ákvarðaður tekjustofn vegna gjalddaga á árinu 2008 skal samsvara tvöföldum eftirstöðvum heildarskuldar lánþega við sjóðinn, þó aldrei lægri fjárhæð að jafnaðai en 9,0 m.kr."

Stjórn LÍN telur ekki vera heimild til að víkja frá þessum reglum um endurgreiðslu þó ábyrgðarmaður eigi í hlut.

Niðurstaða

Í 2. mgr. gr. 7.3. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Sé lánþega áætlaður skattstofn skal miða við hann. Sé lánþegi á endurgreiðslutíma ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Ákvarðaður tekjustofn vegna gjalddaga á árinu 2008 skal samsvara tvöföldum eftirstöðvum heildarskuldar lánþega við sjóðinn, þó aldrei lægri fjárhæð að jafnaðai en 9,0 m.kr."

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að tekjutengd afborgun sem fallið hefur á kæranda sem ábyrgðarmann byggist á skýrum úthlutunarreglum LÍN.

Ekki verður ráðið af úthlutunarreglum LÍN að frá tilvitnuðum reglum séu undantekningar er lúta að stöðu ábyrgðarmanns.

Með vísan til framanritaðs er fallist á sjónarmið stjórnar LÍN um að hafna beiðni kæranda um ívilnum varðandi afborganir af umræddu láni hjá LÍN og er því úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 13. nóvember 2009 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka