Úrskurður
Ár 2010, fimmtudaginn 28. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-30/2009.
Kæruefni
Með kæru dags. 14. desember 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 17. september 2009 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að
viðbótargreiðsla námsláns X, sem kærandi er ábyrgðarmaður á, miðist við tekjur
kæranda en ekki áætlaðar tekjur lántakanda.
Stjórn LÍN var með bréfi
dags. 18. desember sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá
sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 28. desember sl. Með bréfi dags. 5.
janúar sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur
á að tjá sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er ábyrgðarmaður á láni dóttur sinnar, X. Lántaki hefur
ekki skilað skattframtali á Íslandi og voru henni því áætlaðar tekjur af
skattyfirvöldum vegna tekjuársins 2008 og var útreikningur viðbótargreiðslu
lántaka árið 2009 miðuð við þá tekjuáætlun. Kærandi gerir þá kröfu að
útreikningur viðbótargreiðslunnar miði við hans tekjur en ekki áætlaðar tekjur
lántaka þar sem greiðslan falli á hann og því eigi hann að njóta sama réttar og
lántaki sjálfur í þessu sambandi.
Kærandi vísar til 3. mgr. 10. gr. laga
nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og bendir jafnframt á að skv. 6.
mgr. 8. gr. sömu laga sé ljóst að stjórn LÍN geti veitt honum undanþágu frá
árlegri endurgreiðslu.
Stjórn LÍN bendir á að skv. gr. 7.3. í
úthlutunarreglum LÍN skuli viðbótargreiðsla hvers árs taka mið af tekjum lánþega
árið á undan. Þar sé enga heimild að finna fyrir því að miða við tekjur
ábyrgðarmanns. Af þessum sökum hafi viðbótargreiðslan verið reiknuð út frá
áætluðum tekjum lántaka þar sem hún skilaði ekki skattframtali. Stjórn LÍN
bendir á að í bréfi stjórnarinnar til kæranda dags. 18. september sl. hafi honum
verið gefinn kostur á að skila inn afriti af íslensku skattframtali lántaka
vegna 2008 innan 3ja mánaða frá dagsetningu bréfsins og út frá því yrði
viðbótarafborgunin reiknuð. Þær upplýsingar hafi hins vegar ekki borist.
Stjórn LÍN bendir enn fremur á að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn
er sýni að hann eigi rétt til undanþágu frá árlegri afborgun námslánsins á
grundvelli gr. 7.4. í úthlutunarreglum LÍN.
Niðurstaða
Samkvæmt gr. 7.3. í úthlutunarreglum LÍN skal viðbótargreiðsla
hvers árs taka mið af tekjum lánþega árið á undan. Engin heimild er fyrir því að
miða við tekjur ábyrgðarmanns í þessu sambandi, hvorki í úthlutunarreglunum né
lögum nr. 21/1991 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Af hinum kærða
úrskurði verður ekki ráðið að stjórn LÍN hafi fjallað um það hvort kærandi kunni
að eiga rétt til undanþágu frá árlegri endurgreiðslu á grundvelli gr. 7.4. í
úthlutunarreglunum og 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1991. Eru því ekki efni til að
taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda í úrskurði þessum.
Með vísan til
framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 17. september 2009 í máli kæranda
staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. september 2009 er staðfestur.