Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-28/2009 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um lækkun á tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2010, fimmtudaginn 4. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-28/2009

Kæruefni

Með kæru dags. 8. desember 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. október sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um lækkun/niðurfellingu á tekjutengdri afborgun haustið 2009 vegna tekjufalls milli ára 2008 og 2009.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 9. desember sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 21. desember sl. Með bréfi dags. 29. desember sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Svarbréf barst frá kæranda dags. 12. janúar 2010 auk nýrra gagna.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fer fram á niðurfellingu tekjutengdrar afborgunar námslána 2009 vegna atvinnumissis. Kærandi kveðst hafa misst vinnu sína í lok maí 2009 vegna mikils samdráttar í byggingageiranum og hafi verið atvinnulaus síðan. Kveðst hann hafa verið mjög virkur í atvinnuleit og leggur því til staðfestingar fram Excel skjal unnið af honum sjálfum. Kveður kærandi tekjur sínar hafa minnkað mjög mikið á árinu 2009 eða frá því að vera að jafnaði kr. 850.000 brúttó fyrstu 11 mánuði 2008 í kr. 543.000 tæpar síðasta mánuð 2008 og þar til vinnu lauk í lok maí 2009. Þá kveðst kærandi hafa fengið uppgerð starfslok sín í lok júní 2009. Starfslokasamningurinn hafi haft þau áhrif að kærandi hafi orðið að taka sér sumarfrí skv. skipun frá Vinnumálastofnun, fyrir miðjan september 2009. Þetta komi greinilega fram í tekjuyfirliti og á meðfylgjandi launaseðlum fyrir september. Þá tekur kærandi fram að ábyrgðarmaður á umræddum námslánum sé 87 ára gömul ekkja.

Stjórn LÍN kveður kæranda hafa sótt um lækkun/niðurfellingu á tekjutengdri afborgun haustið 2009 vegna tekjufalls milli ára 2008-2009. Stjórn LÍN hafi borist gögn sem gáfu upplýsingar um tekjur kæranda fyrstu 7 mánuði ársins 2009 ásamt tekjuupplýsingum fyrir 2008. Sú reikniregla sem stjórn LÍN samþykkti til að meta tekjufall umsækjenda vegna þessara ívilnandi aðgerða var eftirfarandi: Tekjur þær sem af voru á árinu 2009 (að hámarki til og með september 2009) og staðfestar af skattayfirvöldum, voru uppreiknaðar til 12 mánaða. Þær tekjur voru síðan bornar saman við tekjur ársins 2008 skv. staðfestingu frá skattayfirvöldum. Í tilfelli kæranda var hann með 4.656.275 kr. Fyrstu 7 mánuði ársins 2009 (sjá staðgreiðsluyfirlit) og uppreiknað til 12 mánaða voru þetta tekjur upp á 8.033.614,- kr. Tekjur hans á árinu 2008 voru 10.149.699 kr. (sjá staðgreiðsluyfirlit). Mismunur þar á milli er 22% tekjufall. Þessi aðferðarfræði er einföld og gegnsæ og hefur hún verið kynnt þeim umsækjendum um lækkun/niðurfellingu á tekjutengdri afborgun sem hafa óskað eftir því. Ekki sé hægt að taka tillit til framtíðartekna frá þeim tímapunkti sem umsóknin er afgreidd þar sem ekkert liggi fyrir því til staðfestingar. Aðstæður fólks geta breyst bæði til hins verra og batnaðar. Þá bendir LÍN á að tekjufall á árinu 2009 leiði til lægri tekjutengdrar afborgunar 2010.

Af hálfu LÍN kemur enn fremur fram að kærandi hafi aldrei lagt fram staðfestar tekjuupplýsingar vegna ágúst og september heldur hafi hann sent erindi til stjórnar þar sem hann óskaði eftir því að tekjutengda afborgunin yrði felld niður. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt nein af þeim skilyrðum sem kveðið sé á um í gr. 7.4.1. eða 7.4.2. auk þess sem áætlaðar tekjur hans fyrir árið 2009 voru umfram 4 milljónir króna, var erindi hans synjað.

Frekari athugasemdir frá kæranda bárust Málskotsnefnd með bréfi dags. 12. janúar 2010 ásamt staðfestum tekjuupplýsingum fyrir árið 2009 og greiðsluseðli atvinnuleysisbóta fyrir desember 2009. Í bréfi sínu bendir kærandi á að tekjur hans fyrir árið 2009 skv. meðfylgjandi staðgreiðsluyfirliti og síðasta launaseðli ársins 2009 séu kr. 5.990.350. Samkvæmt reiknireglum LÍN hafi framreiknaðar tekjur hans byggðar á tekjum fyrstu 7 mánuði ársins fyrir alla 12 mánuði ársins 2009 kr. 8.033.614 og lækkun tekjutengdrar afborgunar reiknuð út frá því. Hér sé mismunur frá útreikningum LÍN og rauntekjum kæranda í óhag upp á kr. 2.043.264 og raunverulegt tekjufall því 41% en ekki 22%. Þessari niðurstöðu hefði LÍN getað komist að þann 8. desember sl. þegar kærandi sendi gögn til LÍN en að það hefði einhverra hluta vegna ekki gerst.

Niðurstaða

Þann 3. september sl. sótti kærandi um lækkun/niðurfellingu á tekjutengdri afborgun haustið 2009 vegna tekjufalls milli ára á þar til gerðu umsóknareyðublaði frá LÍN. Á eyðublaðinu eru tilgreind þau gögn sem þurfa að fylgja til staðfestingar. Gögnin eru: Staðgreiðsluyfirlit fyrir árin 2008 og 2009 staðfest af RSK ef viðkomandi er launþegi eða skattframtal 2009 vegna ársins 2008 og VSK skýrslur staðfestar af RSK fyrir janúar til júní 2009 ef viðkomandi er sjálfstætt starfandi. Kærandi lagði fram staðfest staðgreiðsluyfirlit fyrir árið 2008 og fyrir fyrstu 7 mánuði ársins 2009, auk annarra gagna.

Þann 18. september sl. úrskurðar stjórn LÍN í máli kæranda og synjar beiðni hans um niðurfellingu gjalddaga 1. september 2009 með þeim rökum að ekki hafi borist gögn sem staðfesti að skilyrði gr. 7.4.1 og 7.4.2 í úthlutunarreglum LÍN séu uppfyllt. Hins vegar hafi verði samþykkt 22% lækkun afborgunarinnar vegna áætlaðs tekjufalls milli áranna 2008-2009.

Þann 15. október sl. var erindi kæranda tekið fyrir að nýju hjá stjórn LÍN. Stjórnin hafnaði beiðni kæranda að því er virðist með þeim rökum að áskilin gögn vanti frá kæranda.

Með bréfi kæranda til málskotsnefndar, þar sem hann svarar athugasemdum LÍN frá 21. desember sl., fylgja staðgreiðsluyfirlit fyrir fyrstu 11 mánuði ársins 2009, staðfest af Ríkisskattstjóra. Unnt er að skilja beiðni kæranda í þessu máli á þann veg að hann sé í raun að biðja um endurupptöku málsins fyrir stjórn LÍN þar sem umkrafin gögn liggja nú fyrir í málinu. Með vísan til nýrra gagna þykir grundvelli málsins það mikið raskað að eðlilegt sé að heimvísa málinu til stjórnar LÍN.

Úrskurðarorð

Hinum kærðu úrskurðum í máli kæranda er heimvísað til stjórnar LÍN.

Til baka