Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-23/2009 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2010, þriðjudaginn 23. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-23/2009:

Kæruefni

Með kæru dags. 13. nóvember 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 14. ágúst 2009 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá fastri afborgun.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 17. nóvember sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 30. nóvember sl. Með bréfi dags. 2. desember sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Svarbréf barst frá kæranda dags. 18. desember sl. Þau mistök urðu að kæranda voru send gögn að nýju þann 29. desember sl. og athugasemda hans óskað. Þegar upp komst um þann misskilning var kæranda sent bréf þann 21. janúar sl. þar sem beðist var velvirðingar á þeim mistökum og móttaka athugasemda hans staðfest.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskar eftir því að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN frá 14. ágúst sl. Kærandi kveðst hafa sótt um undanþágu frá afborgunum vegna lágra tekna og hafi í því sambandi merkt við ,,vegna annarra sambærilegra aðstæðna" á umsóknareyðublaðinu. Kveðst kærandi hafa reynt að fá upplýsingar frá LÍN um hvaða gögn þyrftu að fylgja með vegna þeirrar ástæðu sem hann tilgreindi á umsóknareyðublaðinu, þ.e. "vegna annarra sambærilegra aðstæðna" og kveðst hann ekki hafa fengið viðunandi svör frá LÍN. Kveðst kærandi hafa átt samtal við framkvæmdastjóra sjóðsins og rakið vandkvæði við að afla vottorðs um skráningu á atvinnuleysisskrá. Kærandi kveðst ekki hafa getað skráð sig atvinnulausan þar sem hann sé sjálfstætt starfandi einstaklingur í ársskilum og uppfylli því ekki þau skilyrði sem þurfi til að fá atvinnuleysisbætur. Meðal annarra skilyrða sem ekki hafi verið hægt að uppfylla gagnvart vinnumálastofnun hafi verið tekjuþáttur, því atvinnuleysisbætur séu tekjutengdar. Að auki hefði hann þurft að skila inn virðisaukaskattsnúmeri til að geta skrá sig atvinnulausan. Þá hafi framkvæmdastjóri LÍN bent sér á að senda inn staðfestingu frá skattstjóra um staðgreiðslu sem hann hafi gert samdægurs.

Kærandi hafi síðar fengið staðfestingu um að umsókn hans væri móttekin. Umsóknin hefði þá tekið breytingum í meðförum starfsmanna LÍN frá því að vera vegna ,,annarra sambærilegra aðstæðna" yfir í vegna ,,atvinnuleysis". Þá hafi hann verið beðinn um að skila viðeigandi vottorðum frá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi þá sent tölvupóst með fyrirspurn um hvað teldist viðeigandi vottorð en því hafi ekki verið svarað. LÍN hafi síðan synjað erindi hans.

Þá kveður kærandi að skráning á námslokum hans sé röng hjá LÍN en að hann hafi lokið námi sínu með útskrift í febrúar 2008 en LÍN sé með aðra skráningu. Síðasta afgreiðsla á námsláni til hans frá LÍN hafi verið í október 2007 og það hafi verið skilningur hans að afborganir ættu ekki að hefjast fyrr en að tveimur árum liðnum frá lokum náms.

Með bréfi dags. 7. júlí 2009 óskaði kærandi meðal annars eftir rökstuðningi vegna synjunar þann 2. júní 2009. Í bréfinu óskaði hann einnig eftir upplýsingum um hvaða ástæður teldust til ,,aðrar sambærilegar ástæður". Þá óskaði hann eftir skýringum á því hvers vegna námslok hans hefðu verið skráð í október 2007.

Kærandi bendir á að í reglum LÍN sé sett fram sú viðmiðunarregla að til að uppfylla skilyrði laganna um undanþágu frá afborgun vegna tekjumissis, þurfi ástæður þær sem valda örðugleikum að hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Í tilviki kæranda hafi það hafist í október 2008. Kærandi hafi starfað í lausamennsku, þ.e. sem verktaki fyrir Framtíðarsýn, útgáfufélag Viðskiptablaðsins. Framtíðarsýn hafi óskað eftir greiðslustöðvun þann 10. nóvember 2008 og hafi svo verið tekið til gjaldþrotaskipta í framhaldi af því. Við þetta hafi kærandi misst tekjur.

Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um undanþágu frá tekjutengdri afborgun upphaflega þar sem umbeðin gögn höfðu ekki skilað sér til LÍN. Þá hafi kærandi sent LÍN bréf þar sem hann hafi óskað eftir endurupptöku á beiðni sinni. Því erindi hafi verið svarað 25. júní sl. þar sem annars vegar hafi verið vísað í reglu 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN varðandi afgreiðslu undanþágubeiðninnar og hins vegar í reglu 2.5.1. vegna námsloka. Bréfi kæranda frá 7. júlí hafi síðan verið svarað þann 13. júlí. Í bréfinu var erindi kæranda svarað lið fyrir lið. Þar segir að dæmi um aðrar sambærilegar aðstæður skv. gr. 7.4.2. sem valda verulegum fjárhagsörðugleikum sé t.d. fangelsisvist. Þá segi að skráningu í kerfum LÍN hafi verið breytt úr "annarra sambærilegra aðstæðna" í atvinnuleysi þar sem starfsmenn sjóðsins hafi staðið í þeirri meiningu að umsækjandi hafi óskað eftir því að mál hans yrði tekið fyrir á þeim forsendum. Hvort það hafi verið gert eða ekki, hafi því miður ekki verið hægt að fallast á umsókn á undanþágu einungis vegna lágra tekna. Eins og fram komi í grein 7.4.1. þurfi greiðandi að uppfylla ákveðin skilyrði svo að hægt sé að taka tillit til lágra tekna. Þar sem ekkert þessara skilyrða hafi verið uppfyllt sé ekki hægt að taka tillit til lágra tekna árið 2008. Svar við spurningu kæranda um lokun skuldabréfsins var að síðasti námsferill hans hafi verið skráður haustið 2006 en þá hafi kærandi verið búinn að fá lán fyrir hámarks einingafjölda. Greiðslan vegna þeirrar annar hafi svo ekki verið greidd fyrr en 26. október 2007 þegar námsárangur hafi legið fyrir. Stjórn LÍN hafi síðan fjallað um mál kæranda á fundi þann 13. ágúst þar sem stjórnin staðfesti niðurstöður og skýringar LÍN sem fram hafi komið í framangreindum bréfum LÍN. Megin rök fyrir þeirri afgreiðslu séu þau að kærandi uppfylli hvorki skilyrði varðandi undanþágu vegna atvinnuleysis né vegna "annarra sambærilegra aðstæðna", sérstaklega þegar horft sé til fyrri afgreiðslu samskonar mála.

Niðurstaða

Í gr. 2.5.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram: "Skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Telst sá tímapunktur námslok í skilningi laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna". Síðasti skráði námsferill hjá kæranda er haustið 2006 en þá var kærandi búinn að fá lán fyrir hámarks einingafjölda. Skilyrði um námsárangur var síðan uppfylltur af kæranda í október 2007 þegar námsárangur lá fyrir. Grein 2.5.2. fjallar um frestun á lokun skuldabréfs og segir þar að sækja þurfi sérstaklega um frestun og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli reglnanna. Ljóst er að ekki var sótt um frestun á lokun skuldabréfs innan tiltekins frest af hálfu kæranda. Með vísan til framanritaðs er þessi hluti ákvörðunar stjórnar LÍN frá14. ágúst 2009 staðfestur.

Í gr. 7.4.1. segir: "Hafi lánþegi haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar, ummönnunar barna eða aðrar sambærilegrar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar".

Skattframtal kæranda vegna tekjuársins 2008 staðfestir að tekjur kæranda á því ári voru undir 4 milljónum en það eru viðmiðunarmörk LÍN um lágar tekjur. Ekki er nægjanlegt að sýna fram á lágar tekjur heldur verður skv. framangreindu ákvæði eitt af þeim atriðum sem þar eru talinn upp að eiga við um lánþega. Kærandi í máli þessu er sjálfstætt starfandi einstaklingur. Hann starfaði sem verktaki fyrir félag sem var úrskurðað gjaldþrota á haustmánuðum 2008. Í málinu liggur fyrir úrskurður frá Vinnumálastofnun dags. 17. apríl 2009 þar sem umsókn hans um atvinnuleysisbætur var hafnað. Þá liggur og fyrir að kærandi hefði þurft að skila inn virðisaukaskattsnúmeri sínu á haustmánuðum til að geta skráð sig atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun strax eftir atvinnumissinn. Kærandi kveðst hafa sótt um undanþágu með vísan til "annarra sambærilegra aðstæðna" þar sem hann hafi vitað að honum væri ekki unnt að fá frest vegna atvinnuleysis enda hafði hann ekki möguleika á að skrá sig hjá Vinnumálastofnun þar sem hann var sjálfstætt starfandi einstaklingur, án þess að glata á sama tíma virðisaukaskattsnúmeri sínu.

Þess ber að geta að í grein 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN er ekki að finna heimild fyrir því að gera það að skilyrði fyrir undanþágu skv. greininni að viðkomandi lánþegi leggi fram vottorð Vinnumálastofnunar til sönnunar atvinnuleysi, þó er ljóst að lánþegi verður að sanna með einhverju móti að hann sé í raun atvinnulaus. Þá verður og að telja að ákvæðið veiti ákveðið svigrúm til þess að litið sé í heild á aðstæður lántakanda sé hann tekjulár á árinu. Af framlögðum gögnum í máli þessu þykir ljóst að kærandi var tekjulaus frá því hann missti vinnuna og að sá tekjumissir hafi varað í a.m.k. 4 mánuði fyrir gjalddaga námslána hans þann 1. mars 2009. Þá hefur hann og gefið viðunandi skýringar á því hvers vegna hann gat ekki skráð sig atvinnulausan. Þá hefur kærandi einnig lagt fram gögn sem sýna samskipti hans við lánasjóðinn þar sem hann útskýrir stöðu sína og óskar eftir leiðbeiningum.

Með vísan til framlagðra gagna verður að telja að kærandi í máli þessu uppfylli skilyrði framangreinds ákvæðis í úthlutunarreglum LÍN og eigi rétt á undanþágu frá fastri ársgreiðslu 2009.

Með vísan til framanritaðs er sá hluti í hinum kærða úrskurði sem fjallar um undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 14. ágúst 2009 er staðfestur hvað varðar ákvörðun um námslok en felldur úr gildi hvað varðar undanþágu frá fastri ársgreiðslu árið 2009.

Til baka