Úrskurður
Ár 2010 þriðjudaginn 23. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-31/2009.
Kæruefni
Með kæru dags. 17. desember 2009 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 17. september sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um aukalán vegna
haustannar 2009.
Stjórn LÍN var með bréfi dags. 28. desember sl.
tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf
stjórnar LÍN er dags. 11. janúar sl. Með bréfi dags. 15. janúar sl. var kæranda
kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það.
Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði nám í viðskiptalögfræði við Háskólann á
Bifröst. Hún óskaði eftir aukaláni vegna haustannar 2009 þar sem hún taldi
skipulag skólans valda því að hún næði ekki fullu framfærsluláni hjá LÍN.
Kærandi hafði lokið 160 ECTS einingum af áskildum 180 einingum þegar haustönn
2009 hófst. Kærandi átti því einungis eftir að ljúka 20 ECTS einingum þegar
lokaönnin hófst.
Samkvæmt upplýsingum kæranda mun sú staða að nemendur
sem luku námi sínu á haustönn skili einungis 20 ECTS einingum vera tímabundið
ástand og einungis bundið við þann árgang sem hóf nám í viðskiptalögfræði árið
2007. Framvegis verði einingafjöldi til fullrar framfærslu í BS náminu. Kærandi
kveður þetta valda því að hún teljist einungis skila 67% námi á haustönn 2009,
en 30 einingar séu áskildar til að fá fulla framfærslu frá LÍN.
Kærandi
bendir á svohljóðandi ákvæði í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð
íslenskra námsmanna: "Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita lán með sömu
kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla en greinir í 1. mgr., svo sem ef
námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla
eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur".
Kærandi kveður ofangreint ákvæði hafa verið sett inn í lögin með lögum nr.
67/1997 um breyting á lögum nr. 21/1992 og að í greinargerð með lagafrumvarpinu
segi að hér sé lagt til að sett verði sérstök lagaheimild sem heimili stjórn
sjóðsins að koma til móts við námsmenn sem verði fyrir skakkaföllum vegna
veikinda eða skipulags skóla. Kærandi bendir á að ákvæði í úthlutunarreglum LÍN
um aukalán vegna skipulags skóla hafi verið fellt út úr úthlutunarreglunum fyrir
skólaárið 2009-2010, þrátt fyrir framangreinda heimild í lögum.
Af hálfu
LÍN kemur fram að í gr. 2.1. í úthlutunarreglum LÍN sé svohljóðandi ákvæði:
"Hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum tekur mið
af skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Einungis er tekið tillit til
námskeiða sem nýtast til lokaprófs en metnar einingar úr fyrra námi teljast ekki
til námsframvindu". Þá bendir stjórn LÍN á að skv. gögnum sjóðsins hafi
kærandi hafið nám á haustmisseri 2007 og þegið námslán vegna sumarmisseris 2008
og sumermisseris 2009 auk venjubundinna námsára. Stjórn LÍN fellst ekki á að gr.
4.9 í úthlutunarreglum sjóðsins eigi við í máli kæranda en þar segi: "á þetta
við t.d. þegar námsmanni verður vegna alvarlegra veikinda, örorku sinnar,
framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að stunda nám
sitt að fullnýttri lánsheimild". Bent er á að í tilfelli kæranda hafi verið
fyrirséð þegar hún þáði lámslán sumarið 2008 og 2009 að hún væri að rýra
möguleika sína varðandi námslán haustið 2009 eins og úthlutunarreglur LÍN í
grein 2.1. kveði á um.
Niðurstaða
Námsframvinda kæranda er óumdeild. Fyrir liggur að þegar
haustönn 2009 hófst átti kærandi einungis ólokið 20 ECTS einingum til að ná
tilskildum 180 einingum til að útskrifast. Það var því ekki við kæranda að
sakast að hún skilaði ekki fleiri ECTS einingum á haustönn 2009. Í 2. mgr. 12.
gr. laga nr. 21/1992 er að finna heimildarákvæði fyrir stjórn LÍN til að veita
námslán þegar svo stendur á sem gerir í þessu máli, enda er það
grundvallartilgangur laganna að tryggja þeim sem undir lögin falla tækifæri til
náms án tillits til efnahags. Það er því álit málskotsnefndarinnar að stjórn LÍN
hafi borið að beita framangreindu lagaákvæði í því tilfelli sem hér um ræðir. Í
þessu sambandi skiptir engu þó kærandi hafi skipulagt nám sitt með þeim hætti
sem hún gerði, enda liggur ekki fyrir að hún hafi fullnýtt heildar lánamöguleika
sína skv. reglum LÍN.
Með vísan til framanritaðs er hinn kærði úrskurður
stjórnar LÍN frá 6. apríl 2009 í máli kæranda felldur úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. september 2009 er felldur úr gildi.