Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2010 - Útreikningur námslána - beiðni um lán samkv. eldri úthlutunarreglum

Úrskurður

 

Ár 2010, þriðjudaginn 9. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2010:

 

Kæruefni

 

Með kæru dags. 11. janúar sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. október sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um að lánsumsókn kæranda væri afgreitt eftir úthlutunarreglum LÍN, sem giltu til 10. september sl. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 15. janúar sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 28. janúar sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 4. febrúar sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um námslán til LÍN þann 17. júlí sl. og þá voru í gildi eldri úthlutunarreglur LÍN. Þann 10. september sl. tóku gildi nýjar úthlutunarreglur LÍN. Kærandi heldur því fram að skortur á bankaábyrgð hafi komið í veg fyrir afgreiðslu lánsins. Hann hafi í framhaldinu haft samband við viðkomandi banka sem hafi upplýst hann um að vegna nýrra reglna þyrfti ekki lengur bankaábyrgð. Kærandi kveðst þann 14. september sl. hafa haft samband við þjónustufulltrúa LÍN sem hafi lofað að framkvæma lagfæringu sem yrði komin í lag morguninn eftir. Þegar kærandi fór inn á heimasvæði LÍN nokkrum dögum síðar hafi umsókn hans verið horfin og það eina sem hægt var að gera var að smella á "sækja um". Þann 18. september sl. fór kærandi aftur inn á heimasvæði LÍN og þá kom í ljós að framfærslulánið var dottið út. 

Kærandi heldur því fram að LÍN hafi gert þrenn mistök. Í fyrsta lagi að umsókn kæranda hafi strandað á bankaábyrgð, í öðru lagi að þjónustufulltrúi LÍN hafi fullyrt að umsókn kæranda yrði lagfærð og í þriðja lagi að umsókn kæranda hafi horfið úr kerfum LÍN. Þá leggur kærandi á það áherslu að breyttar úthlutunarreglur hafi í för með sér lægra lán honum til handa. 

Þann 21. september sl. sendi kærandi stjórn LÍN erindi þar sem framangreindum málavöxtum var lýst og þess óskað að umsókn kæranda yrði leiðrétt til upphaflegrar umsóknar og að farið yrði með lánsumsókn kæranda eftir eldri úthlutunarreglum LÍN. Þeirri beiðni kæranda var hafnað með hinum kærða úrskurði dags. 15. október sl. 

Stjórn LÍN vísar til þess að hvergi í bréfum LÍN til kæranda, samkvæmt yfirliti yfir bréf sem send voru kæranda frá 1. janúar 2009 til og með 28. janúar 2010, komi fram að óskað sé eftir bankaábyrgð. Þá hafi kæranda þann 27. júlí sl. verið sent bréf þar sem honum eru kynntar breytingar á lögum um LÍN þar sem fallið er frá kröfu um ábyrgðarmenn nema að námsmaður sé í vanskilum. 

Þann 17. september sl. sækir kærandi um skv. nýjum úthlutunarreglum. Á þeirri umsókn þurfti að staðfesta eftirfarandi yfirlýsingu: "Með því að senda þessa ósk um breytingu á minni lánsumsókn 2009-2010 samþykki ég að eftir það verði ekki hægt að draga þá breytingu til baka". Einnig vísar stjórn LÍN til þess að breytingar hafi verið gerðar á úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2009-2010. Helstu breytingarnar fólust í því að ákveðið var að hækka grunnframfærslu námslána um 20% en um leið að auka tekjuskerðingarhlutfall námslána úr 10% í 35%. Breytingar þessar voru samþykktar af stjórn LÍN þann 9. september sl. og staðfestar af menntamálaráðherra þann 10. september sl. Auglýsing þess efnis var birt í B-deild Stjórnartíðinda sama dag. 

Að lokum bendir stjórn á að um sé að ræða almennar breytingar á úthlutunarreglum LÍN sem taki jafnt til allra þeirra sem sækja um námslán eftir breytinguna. 

 

Niðurstaða

 

Úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið 2009-2010 tóku gildi 1. júlí sl. Með breyttum úthlutunarreglum var ákveðið að hækka grunnframfærslu námslána um 20% en um leið að auka tekjuskerðingarhlutfall námslána úr 10% í 35%. Breytingar þessar voru samþykktar af stjórn LÍN þann 9. september sl. og staðfestar af menntamálaráðherra þann 10. september sl. og var auglýsing þess efnis birt í B-deild Stjórnartíðinda sama dag. Þessar breytingar á úthlutunarreglum LÍN höfðu það í för með sér gagvart kæranda að kærandi fékk lægra lánsloforð frá LÍN en hann hefði fengið samkvæmt eldri úthlutunarreglum. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu kæranda þess efnis að LÍN hafi gert kröfu um að hann legði fram bankaábyrgð auk þess sem fyrir liggur bréf frá LÍN til kæranda dags. 27. júlí 2009 þar sem sérstaklega er upplýst um breytingar á lögum um LÍN þess efnis að fallið hafi verið frá fyrri kröfum um ábyrgðarmenn. 

Með vísan til þess verður að skoða umsókn kæranda frá 17. september sem staðfestingu hans á ósk um að umsókn hans verði meðhöndluð eftir breyttum úthlutunarreglum LÍN. 

Fallast verður á það með stjórn LÍN að um sé að ræða almennar breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins og að reglurnar taki jafnt til allra þeirra sem sóttu um námslán efir að breytingarnar tóku gildi. Þá er gildistaka breytinganna í samræmi við stjórnsýslureglur. 

Með vísan til framanritaðs er fallist á sjónarmið stjórnar LÍN um að hafna beiðni kæranda um að lán hans verði reiknað út eftir eldri úthlutunarreglum og úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda því staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka