Úrskurður
Ár 2010, þriðjudaginn 9. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-6/2010:
Kæruefni
Með kæru dags. 12. janúar sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. október sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu á tekjutengdri afborgun haustið 2009. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 19. janúar sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 1. febrúar sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 5. febrúar sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda. Með bréfi dags. 9. mars sl. óskaði málskotsnefnd eftir staðfestum upplýsingum um heildar launatekjur kæranda á árinu 2009. Svar kæranda barst sama dag.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar meistaranám við háskóla í Frankfurt am Main.
Kærandi sótti um lækkun/niðurfellinu á tekjutengdri afborgun af námsláni haustið
2009 vegna tekjufalls milli áranna 2008 og 2009. Kærandi heldur því fram að
tekjufall hennar verði um 50% miðað við hreinar tekjur en eitthvað minna ef bætt
er við þeim námslánum sem hún fær út árið. Kæranda var sagt upp störfum og rann
uppsagnarfresturinn út 31. ágúst sl. Kærandi hét utan til náms um miðjan
september sl. og telur að tekjur sínar verði undir 4 milljónum á árinu 2009.
Kærandi leggur á það áherslu að það sé ósanngjarnt að reikna henni tekjur út
árið þar sem fyrir liggi að hún afli engra tekna eftir að hún flyst til
Þýskalands til að hefja nám sitt. Í svari kæranda við fyrirspurn málskotsnefndar
kemur fram að launatekjur kæranda á árinu 2009 voru kr. 4.051.847.
Stjórn LÍN vísar til þeirrar reiknireglu sem stjórn LÍN samþykkti til að
meta tekjufall umsækjanda vegna ívilnandi aðgerða sem eru eftirfarandi: Tekjur
þær sem af var árinu 2009 (að hámarki til og með september 2009) og staðfestar
eru af skattyfirvöldum, voru uppreiknaðar til 12 mánaða. Þær tekjur voru síðan
bornar saman við tekjur ársins 2008. Í tilfelli kæranda var hún með kr.
3.548.677 í tekjur fyrstu 8 mánuði ársins 2009 og uppreiknað til 12 mánaða námu
tekjur hennar kr. 5.323.016. Tekjur hennar á árinu 2008 námu kr. 7.242.983 og
nam því tekjufall milli ára 27%. Þessi aðferðafræði er einföld og gegnsæ og
hefur verið kynnt þeim umsækjendum um lækkun/niðurfellingu á tekjutengdri
afborgun sem hafa óskað eftir því. Ekki sé hægt að taka tillit til framtíðatekna
frá þeim tímapunkti sem um sóknin er afgreidd þar sem ekkert liggur fyrir því
til staðfestingar.
Eins og áður er fram komið óskaði málskotsnefnd eftir
staðfestinu á heildar launatekjum kæranda á árinu 2009 með vísan til þess sem
komið hafði fram hjá kæranda að hún hefði engar tekjur eftir að hún hóf nám sitt
í september sl. og að þær upplýsingar voru aðgengilegar þegar kæran barst.
Heildar tekjur kæranda námu kr. 4.051.847 sem hefur í för með sér u.þ.b. 44%
tekjufall milli ára.
Niðurstaða
Með úrskurði stjórnar LÍN dags. 15. október sl. var tekjutengd
afborgun kæranda af námsláni sínu lækkuð um 27% til samræmis við þær
reiknireglur sem stjórnin hafði samþykkt.
Kæra til málskotsnefndar er
dags. 12 janúar sl. og var send stjórn LÍN til umsagnar með bréfi þann 19.
janúar sl. Á þeim tímapunkti lá fyrir hverjar heildar launatekjur kæranda voru á
sl. ári og í ljósi fullyrðingar kæranda um að hún hefði engar tekjur haft eftir
að hún hélt til náms í september sl. þótti rétt að kalla eftir þeim upplýsingum.
Í málinu liggja nú fyrir staðfestar upplýsingar frá ríkisskattstjóra um
tekjur kæranda á árinu 2009 sem voru kr. 4.051.847 í samanburði við tekjur
kæranda árið 2008 að fjárhæð kr. 7.242.983 og er því um að ræða u.þ.b. 44%
tekjufall milli ára.
Með vísan til þessara fram komnu upplýsinga, sem
ekki lágu fyrir þegar hinn kærði úrskurður var uppkveðinn, þykir rétt að málið
verði endurupptekið hjá stjórn LÍN þar sem grundvelli þess hefur verið raskað
samkvæmt framansögðu. Er málinu því heimvísað til stjórnar LÍN.
Úrskurðarorð
Hinum kærða úrskurði frá 15. október 2009 í máli kæranda er heimvísað til stjórnar LÍN