Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-31/2010 - Endurgreiðsla námslána - athugasemdir við áætlun tekjustofns

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 16. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-31/2010.

Kæruefni

Með bréfi til Lánasjóðs íslenskra námsmanna (hér eftir LÍN) dagsettu 22. júlí 2010 gerði kærandi athugasemdir við aðferð LÍN við áætlun tekjustofns hans árin 2008 og 2009 vegna endurgreiðslu námsláns. Samkvæmt bréfi stjórnar LÍN dagsettu 19. ágúst 2010 var erindi kæranda tekið fyrir á fundi þann 12. ágúst 2010 og afgreitt með úrskurði sama dag þar sem sjónarmiðum og kröfum kærða um enduráætlun tekjustofns var hafnað. Með bréfi dagsettu 15. október 2010, sem móttekið var 20. sama mánaðar, kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 25. október sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dagsettu 15. nóvember 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 19. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 28. nóvember 2010. Með bréfi málskotsnefndar dagsettu 19. janúar 2011 var óskað eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hann hafi ekki skilað launaupplýsingum til LÍN fyrir árin 2008 og 2009. Það bréf var ítrekað með bréfi dagsettu 8. febrúar 2011. Kærandi svaraði málskotsnefnd með bréfi dagsettu 10. febrúar 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Athugasemdir kærandi lúta að aðferð LÍN við áætlun tekjustofns hans árið 2008 til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu á árinu 2009 og áætlun tekjustofns hans árið 2009 til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu á árinu 2010. Að mati kæranda grundvallast hinn áætlaði tekjustofn á þeirri röngu forsendu að hann sé búsettur í Bandaríkjunum. Hann kveðst búsettur á Íslandi en Þjóðskrá Íslands hafi með ólögmætum hætti í september 2008 skráð lögheimili hans frá Íslandi til Bandaríkjanna. Kærandi kveður umboðsmann Alþingis hafa ályktað um þá aðgerð og talið hana ólöglega (mál nr. 5669/2009). Þá telur kærandi að sú aðferð sem LÍN notar við að áætla honum tekjustofn til útreiknings viðbótargreiðslu standist ekki lög og sé í andstöðu við álit umboðsmanns Alþingis m.a. í málunum nr. 5321/2008, 819/1996 og 1041/1994. Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN sé ekki að finna nein fyrirmæli um það hvernig tekjur skuli áætlaðar, heldur vinni LÍN eftir reglum sem ekki hafi hlotið staðfestingu ráðherra, sem sé brot á stjórnsýslulögum. Telur kærandi nauðsynlegt að sjóðurinn setji sér nýjar reglur um launaáætlun. Þá noti LÍN aðrar viðmiðunarreglur þegar áætlaðar eru tekjur greiðenda sem skráðir eru með lögheimili erlendis og þá sem skráðir eru með lögheimili hér á landi, sem sé brot á jafnræðisreglu. Þá byggir kærandi á því að LÍN hafi borið að leggja sjálfstætt mat á líklegan tekjustofn hans og það samrýmist hvorki rannsóknarreglu 10. gr. né meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að miða áætlun við upplýsingar sem sjóðurinn hefur um meðaltekjur greiðenda með lögheimili í útlöndum. Með því sé LÍN einnig að tengja endurgreiðslu lána í íslenskum krónum við erlendan gjaldmiðil, sem sé ólögleg gengistrygging lánsins samkvæmt nýlegum dómi Hæstaréttar. Málskostnefnd óskaði eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hann hefði ekki skilað launaupplýsingum til LÍN fyrir árin 2008 og 2009. Kærandi hefur svarað því til að með ólögmætri lögheimilisbreytingu hans í september 2008 hafi verið brotin á honum mannréttindi og að búið sé að skrá hann út úr kerfinu á Íslandi og að hann fái ekki lengur skattframtöl og því séu ekki fyrirliggjandi neinar upplýsingar um laun fyrir árið 2009, en upplýsingar um laun 2008 eigi LÍN að hafa. Stjórn LÍN bendir á að þegar kom að útreikningi viðbótargreiðslu kæranda vegna áranna 2009 og 2010 hafi hann verið skráður með lögheimili í Bandaríkjunum og því ekki skattskyldur hér á landi af öllum tekjum sínum. Sjóðurinn verði að taka mið af opinberum skráningum hér á landi og megi almennt treysta því að slíkar skráningar séu réttar. Komi síðar í ljós að lögheimilisskráningin hafi verið röng geti það verið tilefni endurupptöku málsins hjá sjóðnum og leiðréttingu útreiknings viðbótargreiðslu og eftir atvikum endurgreiðslu þess sem kann að hafa verið ofgreitt ásamt vöxtum, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992. Þá bendir stjórn LÍN á að kvörtun kæranda til umboðmanns Alþingis fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sjóðsins, enda varði kvörtunin ákvörðun annars stjórnvalds, sem tekur ákvörðun um lögheimilisskráninguna. Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að þar sem kærandi hafi ekki verið skattskyldur af öllum tekjum sínum hér á landi hafi honum verið gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og að árleg viðbótargreiðsla skyldi ákveðin í samræmi við það, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992. Þar sem kærandi hafi ekki sinnt því hafi borið að áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu, sbr. 3. málsl. 3. mgr. lagaákvæðisins. Þegar kom að útreikningi viðbótargreiðslu kæranda á árinu 2009 hafi því orðið að áætla honum tekjustofn til útreiknings viðbótargreiðslunnar og sama hafi verið upp á teningnum þegar kom að útreikningi viðbótargreiðslu á árinu 2010. Stjórn LÍN segir að fyrir skólaárið 2009-2010 hafi úthlutunarreglum sjóðsins verið breytt þannig að afnumið var ákvæði sem kvað á um fast viðmið fyrir áætlaðar tekjur í framangreindum tilvikum og í staðinn ákvarðaði stjórn LÍN hvaða tekjuviðmið skyldu notuð hverju sinni. Árin 2009 og 2010 hafi þau viðmið byggst á meðaltali þeirra tekjuupplýsinga sem LÍN bárust frá greiðendum með lögheimili í útlöndum og réðust af því hvaða prófgráðu viðkomandi hefði lokið. Þannig hafi stjórn LÍN leitast við að gæta jafnræðis og meðalhófs svo áætlaðar tekjur gætu verið eins nálægt raunverulegum tekjum og mögulega yrði við komið miðað við þær upplýsingar sem LÍN gat aflað, en auk þess tryggt að gætt væri ákveðins samræmis í þessu málaflokki. Þessari aðgerð hafi verið beitt í tilviki kæranda fyrir bæði árin 2009 og 2010. Í athugasemdum stjórnar LÍN er það rakið að áætlun tekjustofn sé eðli málsins samkvæmt alltaf háð takmörkunum, en til þess verði að líta að þeir lánþegar sem sæta áætlun hafa ekki fullnægt þeirri skyldu sem á þeim hvílir samkvæmt lögum nr. 21/1992 um að láta sjóðnum í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka efnislega rétta ákvörðun í máli þeirra. Því verði að játa sjóðnum ákveðið svigrúm til þess að meta hverju sinni hvernig áætla skuli tekjur lánþega, enda sé af hálfu sjóðsins gætt bæði jafnræðis og meðalhófs við það mat. Stjórn LÍN hafnar því að það felist ólögmæt gengistrygging í þeirri aðgerð að umreikna tekjur lánþega erlendis í íslenskar krónur við ákvörðun viðbótargreiðslu. Það sé augljóst að ekki verði hjá því komist hjá þeim sem hafa tekjur í erlendri mynt að umreikna þær í íslenskar krónur. Þótt það hafi þannig áhrif á hversu há viðbótargreiðslan verður hefur það engin áhrif á lánið sjálft.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (viðbótargreiðslan) er með gjalddaga 1. september ár hvert, samanber 8. gr. reglugerðar nr. 602/1997 og grein 7.3 í úthlutunarreglum sjóðsins. Fjárhæð hennar miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan sbr. 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. laga 21/1992. Í 2. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna segir:

"Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu".

Eins og fyrr er rakið gerði Þjóðskrá breytingu á lögheimilisskráningu kæranda í september 2008 og flutti hann frá Reykjavík til Bandaríkjanna. Af þeirri ástæðu leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að Þjóðskrá hefði fært lögheimili hans að honum forspurðum. Í áliti umboðsmanns í máli kæranda nr. 5669/2009 er talið að málsmeðferð Þjóðskrár hafi ekki verið fullnægjandi og brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Þjóðskrár að stofnunin tæki mál hans til endurskoðunar. Ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar með hvað hætti Þjóðskrá brást við tilmælum umboðsmanns, en eftirgrennslan málskotsnefndar hjá Þjóðskrá leiddi í ljós að kærandi er enn skráður með lögheimili í Bandaríkjunum. Þjóðskrá Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu og er henni m.a. fengið það hlutverk að stuðla að því að almannaskráning, þ. á m. skráning á lögheimili manna, samrýmist gildandi lögum, sbr. nánar 3. gr. laganna. Það er niðurstaða málskostnefndar að LÍN verði í störfum sínum og ákvörðunum að taka mið af opinberri skráningu Þjóðskrár á lögheimili kæranda og annarra lánþega. Ef síðar er leitt í ljós að lögheimilisskráning kæranda er röng sem og útreikningur árlegrar áætlaðrar viðbótargreiðslu hans á kærandi rétt á endurútreikningi hennar samkvæmt 1. gr. 11. gr. laga nr. 21/1992 og eftir atvikum rétt á endurgreiðslu samkvæmt 2. máls. 2. mgr. lagaákvæðisins. Fyrir liggur að LÍN áætlaði kæranda tekjustofn vegna útreiknings viðbótargreiðslunnar. Fyrir því færir stjórn LÍN þau rök að kærandi hafi ekki orðið við tilmælum sjóðsins að skila inn staðfestum upplýsingum um tekjur sínar og því hafi ekki annað verið til ráða en að áætla honum tekjustofn á grundvelli 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992. Eins og fyrr greinir óskaði málskostnefnd eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hann hefði ekki afhent sjóðnum umbeðnar upplýsingar. Í svarbréfi til málskotsnefndar mótmælir kærandi því að hafa ekki gefið upplýsingar. Hann hafi skilað skattskýrslu fyrir árið 2008 og ekki sé við hann að sakast að sjóðurinn hafi ekki upplýsingar um tekjur hans árið 2009 þar sem hann hafi ekki getað skilað skattskýrslu fyrir það ár þar sem lögheimili hans hafi [ólöglega] verið fært til Bandaríkjanna. Með því segir kærandi að tekinn hafi verið frá honum möguleikinn að afla tekna því hann sé ekki lengur á skattskrá og þar sem búið sé að skrá hann út úr kerfinu á Íslandi fái hann ekki lengur skattframtöl og því séu ekki fyrir hendi upplýsingar um laun fyrir 2009. Eins og fyrr greinir er það niðurstaða málskotsnefndar að lánasjóðnum hafi verið rétt að leggja til grundvallar opinbera skráningu Þjóðskrár á lögheimili kæranda. Því var sjóðnum rétt að beina þeim tilmælum til kæranda að hann veitti upplýsingar um tekjur sínar til viðmiðunar við ákvörðun viðbótargreiðslunnar. Ástæður þær sem kærandi hefur borið fyrir sig að útiloki hann frá því að veita umbeðnar upplýsingar verður að telja haldlausar. Þar sem ljóst er að kærandi var skráður með lögheimili í Bandaríkjunum á þeim tíma sem ákvörðun lánasjóðsins um áætlin tekna hans lýtur að og þar með ekki skattskyldur á Íslandi fyrir öllum tekjum sínum og eignum og þar sem hann hefur ekki skilað fullnægjandi tekjuupplýsingum til sjóðsins, var sjóðnum rétt að áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Þá kemur til skoðunar sú röksemd kæranda að sú aðferð sem LÍN beitir við áætlun tekjustofnsins sé ekki í samræmi við þau lög og reglur sem um sjóðinn gilda og fari gegn áliti umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 5321/2008. Eins og áður greinir hefur lánasjóðurinn heimild samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 til að áætla lánþega tekjustofn þegar hann ber ekki ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi og hefur ekki orðið við óskum lánasjóðsins um að láta af hendi upplýsingar um tekjur sínar. Samsvarandi ákvæði er að finna í lokamálslið 2. mgr. greinar 7.3 í úthlutunarreglum sjóðsins 2009-2010. Í áliti umboðsmanns Alþingis sem kærandi vísar til var fjallað um ákvæði í úthlutunarreglum lánasjóðsins 2006-2007 þar sem sagði að við ákvörðun áætlaðrar árlegrar tekjutengdrar endurgreiðslu námslána skyldi ákvarða tekjustofn lánþega vegna gjalddaga á árinu 2007 er svaraði til tvöföldum eftirstöðvum heildarskuldar lánþega við sjóðinn, þó aldrei lægri fjárhæð en 8 milljónum króna. Taldi umboðsmaður þetta ákvæði úthlutunarreglnanna ekki vera í samræmi við lög og beindi hann þeim tilmælum til menntamálaráðherra að ákvæði 2. mgr. greinar 7.3 yrði endurskoðað með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. Í úthlutunarreglum sjóðsins 2009-2010 var framangreint ákvæði fellt út úr reglunum. Í athugasemdum stjórnar LÍN í tilefni af þeirri kæru sem hér er til úrlausnar segir að eftir að fyrrgreind regla var afnumin ákvarði stjórn LÍN hvaða tekjuviðmið séu notuð hverju sinni við áætlun tekna til útreiknings viðbótargreiðslu. Árin 2009 og 2010 hafi þau viðmið grundvallast á: "... meðaltali af þeim tekjuupplýsingum sem LÍN bárust frá greiðendum með lögheimili erlendis og réðust af því hvaða prófgráðu viðkomandi hafði lokið samkvæmt þeim upplýsingum sem LÍN hefur hverju sinni." Af hálfu LÍN hafi verið leitast við gæta bæði jafnræðis og meðalhófs þannig að áætlaðar tekjur gætu orðið eins nálægt raunverulegum tekjum og mögulegt er miðað við þær upplýsingar sem LÍN geti aflað. Með þeirri heimild sem fellst í 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 er LÍN veitt vald til að taka einhliða ákvörðun um hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar við úrlausn máls vegna þess að sá sem ákvörðun beinist að hefur ekki fullnægt lagaskyldu um láta af hendi upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka efnislega rétta ákvörðun í máli hans. Við þær aðstæður verður að játa lánasjóðnum ákveðið svigrúm til mats við áætlun á tekjum lánþega, sem þó takmarkast af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglu um meðalhóf sem mælt er fyrir um í 12. gr. laganna. Ekki verður framhjá því litið að ástæða þess að kærandi sætir áætlun á tekjustofns er að hann hefur vanrækt þá skyldu sem á honum hvílir samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 að láta lánasjóðnum í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að geta tekið efnislega rétta ákvörðun í máli hans. Þykir mega fallast á það með stjórn LÍN að sú aðferð sem hún beitir, að miða við tiltækar upplýsingar um tekjur þeirra greiðenda sem starfa í útlöndum og lokið hafa hliðstæðu námi og kærandi, við það mat sem hér þarf að fara fram byggi á málefnalegum grunni og fari ekki gegn jafnræði þeirra sem eins er ástatt um. Er ekki sýnt fram á að sjóðnum séu tiltæk önnur gögn eða upplýsingar eða aðrar aðferðir til að áætla tekjustofn kæranda með það fyrir augum að komast nær raunverulegum tekjum hans. Er það því niðurstaðan að við áætlun tekjustofna kæranda árin 2009 og 2010 hafi hvorki verið brotið gegn þeim kröfum sem gerðar eru til stjórnvalda um rannsókn máls samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga né sé strangar í sakirnar farið gagnvart kæranda en nauðsyn ber til þegar þau taka íþyngjandi ákvörðun, sbr. 12. gr. laganna. Ekki er fallist á það með kæranda að í þeirri aðgerð að umreikna erlendar tekjur lánþega í íslenskar krónur við ákvörðun viðbótargreiðslu felist ólögmæt gengistrygging. Þótt gengi erlends gjaldmiðils ráði fjárhæð viðbótargreiðslu þess lánþega sem hefur tekjur sínar í þeirri mynt hefur hún engin bein áhrif á eftirstöðvar lánsins, sem er verðtryggt miðað við íslenska neysluvísitölu. Er vandséð hvernig hægt er að umreikna tekjur greiðenda yfir í íslenskar krónur á annan hátt. Með vísan til framanritaðs er niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 12. ágúst 2010 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka