Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2010 - Námslengd - beiðni um undanþágu frá fimm ára reglu

Úrskurður

Ár 2010, þriðjudaginn 23. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2010:

Kæruefni

Með kæru dags. 5. janúar 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 10. desember 2009 þar sem kæranda var hafnað frekari námslánum með vísan til þess að hún hafði þá fullnýtt fimm ára lánsrétt sinn skv. gr. 2.3.2. í úthlutunarreglum LÍN og var ekki talið að hún gæti átt rétt á frekara láni skv. gr. 2.3.3. vegna þess náms sem hún nú stundar. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 7. janúar sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 21. janúar sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 25. janúar sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um námslán vegna BA náms í mannfræði við University of Edinburgh haustið 2004 og var á námslánum þar til hún lauk námi vorið 2008 eða í fjögur aðstoðarár. Í framhaldi af því sótti hún aftur um námslán haustið 2008 vegna Bachelor náms í fræði og framkvæmd við Listaháskóla Íslands. Að loknu skólaárinu 2008-2009 hafði kærandi notið aðstoðar sjóðsins í samanlagt 5 aðstoðarár. Af hálfu stjórnar LÍN er á það bent að kærandi hafi fullnýtt sér lánsheimildir skv. gr. 2.3.2. í úthlutunarreglum LÍN við lok skólaársins 2008-2009. Sú grein úthlutunarreglnanna eigi við um allt háskólanám, þ.e. hvort sem það sé grunnnám, mastersnám eða doktorsnám. Námsmenn eigi einungis rétt til frekari námslána, skv. gr. 2.3.3. í úthlutunarreglum LÍN, stundi þeir framhaldsháskólanám, þ.e. doktors- eða licentiatnám, meistaranám eða sambærilegt nám að loknu þriggja ára háskólanámi skv. skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins, en nám kæranda falli ekki undir þá reglu.

Kærandi telur að meistaragráða sú sem hún hafði öðlast þegar hún hóf núverandi nám sitt í Listaháskóla Íslands eigi að falla undir 10 ára regluna í gr. 2.3.3. í úthlutunarreglum LÍN og ekki sé hægt að „gjaldfella“ fyrri námsárangur og gráður einstaklinga einungis á þeim forsendum að þeir hafi ákveðið að fara aftur í grunnnám, þá sérstaklega þegar grunnnámið er tekið sem viðbótarnám við fyrri gráðu. Kærandi kveðst hafa hug á að sérhæfa sig í leikhúsfræðum með áheslu á hvernig hægt sé að nýta slík fræði til mannfræðilegra rannsókna. Telur hún að núverandi nám hennar geri hana enn hæfari til samkeppni um kandídatstöður til doktorsnáms á þessu sviði sem hún hafi fullan hug á að sækja í framtíðinni.

Kærandi vísar sérstaklega til úrskurðar málskotsnefndar LÍN í málnu nr. 12/2008 máli sínu til stuðnings. Stjórn LÍN kveður mál það fjalla um nám að loknu doktorsprófi en ekki 5 og 10 ára reglurnar. Sérstaklega er á það bent af hálfu stjórnar LÍN að í núverandi úthlutunarreglum LÍN sé tekið sérstaklega á því atriði sem um var fjallað í máli nr. 12/2008 í 5. mgr. gr. 1.1. sem segi: "Lán er ekki veitt til undirbúningsnáms né heldur til náms sem er framhald af doktorsprófi eða sambærilegu prófi".

Niðurstaða

Fyrir liggur að kærandi hafði við lok námsársins 2008-2009 fengið námslán í samtals fimm námsár. Telst kærandi því hafa fullnýtt fimm ára regluna sem um er fjallað í gr. 2.3.2. í úthlutunarreglum LÍN.

Forsenda þess að námsmaður geti notið námslána skv. gr. 2.3.3. í úthlutunarreglum LÍN (tíu ára reglan), er að lagt sé stund á framhaldsháskólanám, þ.e. doktors- licentiatnám, meistaranám eða sambærilegt nám að loknu þriggja ára háskólanámi skv. skipulagi skóla. Núverandi nám kæranda uppfyllir ekki þessi skilyrði. Þá telst fyrra nám kæranda heldur ekki framhaldsháskólanám í þessum skilningi, enda einungis fjögurra ára nám að loknu stúdentsprófi, en ekki framhaldsnám í háskóla. Með vísan til framanritaðs telst kærandi ekki eiga rétt á námsláni vegna þess náms sem hún nú stundar og er því niðurstaða stjórnar LÍN í máli þessu staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 10. desember 2009 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka