Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2010 - Námslok - beiðni um frestun á lokun skuldabréfs

Úrskurður

Ár 2010, þriðjudaginn 23. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2010.

Kæruefni

Með kæru dags. 13. janúar sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. október 2009 þar sem hafnað var á ný beiðni kæranda frestun á lokum skuldabréfs.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 15. janúar sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 28. janúar sl. Með bréfi dags. 4 febrúar sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Málskotsnefnd úrskurðaði í máli kæranda þann 17. september sl. þar sem nefndin felldi úr gildi ákvörðun stjórnar dags. 5. mars 2009. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda að nýju þann 15. október sl. og staðfesti fyrri úrskurð sinn og synjaði erindi kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Kærandi kærði þann úrskurð þann 13. janúar 2010.

Um málavexti vísast til úrskurðar málskotsefndar nr. L. 8/2009 en þar segir:

"Kærandi óskar eftir frestun á lokun skuldabréfs. Kærandi kveðst hafa með bréfi dags. 5. febrúar 2008 verið tilkynnt um frágang skuldabréfs vegna láns hennar. Þegar bréfið hafi borist kæranda hafi umboðsmaður hennar sett sig í samband við starfsfólk sjóðsins og henni þá tjáð í tölvupósti að unnt væri að sækja um frestun á lokun skuldabréfs. Þann tölvupóst hafi hún framsent til kæranda sama dag. Síðar þann sama dags. 12. febrúar sl., hafi kærandi sent fyrirspurn á LÍN. Þar hafi hún greint frá högum sínum, að til hefði staðið að hún útskrifaðist vorið 2009, en vegna barneignaleyfis myndi það frestast til næstkomandi áramóta, 2009-2010. Starfsmaður LÍN hafi þá sent henni umsóknareyðublað um frestun á lokun skuldabréfs í viðhengi á pdf-formi. Þann 13. febrúar sl. hafi kærandi póstlagt umsókn um frestun á lokun skuldabréfs samkvæmt eyðublaði sem henni hafði verið sent frá sjóðnum. Þann 18. febrúar barst kæranda bréf frá LÍN, dags. 16. febrúar sl. þar sem tilkynnt var að umrætt skuldabréf hefði verið fært til innheimtu. Kærandi hafi þá strax haft samband við lánasjóðinn og staðfesti starfsmaður sjóðsins að beiðni hennar um frestun á lokum skuldabréfs hefði borist sjóðnum en að beiðnin hefði borist of seint. Hún fékk þá þær leiðbeiningar að hún gæti sótt um undanþágu frá umsóknarfresti um lokun skuldabréfs með erindi til stjórnar sjóðsins. Í framhaldi af þeim samskiptum sendi kærandi stjórn sjóðsins erindi ásamt rökstuðningi og fylgigögnum með tölvupósti þann 19. febrúar sl.

Kærandi áréttar að henni varð fyrst kunnugt um að komið væri að því að sækja um undanþágu á lokun skuldabréfs í byrjun febrúar sl. Henni hafi ekki borist bréf frá sjóðnum þar sem tilkynnt var um þá ákvörðun sjóðsins að loka skuldabréfi hennar og frestur veittur til 10. nóvember sl. til að sækja um breytingu á lokun skuldabréfs. Það hafi fyrst með úrskurði stjórnar LÍN, dags. 5. mars sl. að kæranda hafi verið kunnugt um tilvist bréfs sjóðsins frá 8. október sl. þar sem nefndur frestur er gefinn. Aldrei hafi verið vísað til umrædds bréfs í samskiptum kæranda við sjóðinn.

Kærandi lauk prófum í maí 2007 og skilaði fullum námsárangri skólaárið 2006-07. Hún eignaðist barn þann 10. september 2007 og var því ekki unnt að stunda nám á haustönn 2007. Hún lauk því í raun engum ECTS einingum í desember 2007 en samkvæmt heimildarákvæði 2.4.4. í úthlutunarreglum LÍN er heimilt að bæta 15 ECTS einingum við árangur námsmanns þegar lán til námsmanns er reiknað, eignist námsmaður barn á námstíma. Námsönnina janúar - maí 2008 lauk kærandi 24 ECTS einingum. Ljóst sé að teknu tilliti til undanþágu skv. grein 2.4.4. teljist kærandi hafa lokið 39 ECTS einingum skólaárið 2007-2008. Hún hefði því átt rétt á námslánum vegna skólaársins sbr. gr. 2.2. í úthlutunarreglum sjóðsins og teljist þar með hafa uppfyllt það skilyrði að hafa lokið lánshæfum árangri næsta ár eftir að hún þáði síðast aðstoð eins og áskilið sé í gr. 2.5.2. í úthlutunarreglum LÍN.

Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs þar sem beiðni þess efnis barst sjóðnum of seint. Í gr. 2.5. í úthlutunarreglum LÍN kemur meðal annars fram að heimilt sé að fresta lokun skuldabréfs. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina. Sömu reglur gilda um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. Kafli – Námsframvinda og gr. 5.1. Í bréfi dags. 8. október hafi kæranda verið tilkynnt um að að skuldabréfi hennar yrði lokað og var henni jafnframt veittur frestur til 10. nóvember sl. til að sækja um breytingu á því. Kærandi vilji ekki kannast við að hafa fengið það bréf. Þegar kærandi hafi fengið tilkynningu um frágang skuldabréfs senda 5. febrúar sl. hafi móðir hennar haft samband við sjóðinn símleiðis. Ráðgjafinn sem ræddi við hana hafi upplýst hana um áður nefnt bréf sem sent hafi verið 8. október sl. og sagt henni jafnframt að það væri of seint að sækja um frest á lokun skuldabréfs. Móðir kæranda hafi þá orðið ósátt við þau svör og henni þá bent á að hún gæti fyllt út umsókn um frestun og sent hana ásamt heildaryfirliti yfir námsárangur með erindi til stjórnar. Umsókn kæranda um frest á lokun skuldabréfs vegna lánshæfs náms og erindi til stjórnar hafi borist sjóðnum 19. febrúar sl.
"

Kærandi fer þess á leit við úrskurðarnefnd að nefndin breyti ákvörðun stjórnar LÍN frá 10. október sl. með þeim hætti að kæranda verði veitt heimild til frestunar á lokun skuldabréfs. Til vara er þess krafist að ákvörðun stjórnar LÍN frá 10. október sl. verði felld úr gildi og ný ákvörðun tekin í hennar stað sbr. 2. gr. reglugerðar um starfsreglur málskotsnefndar, um starfsreglur málskotsnefndar LÍN.

Kærandi bendir á að úrskurður stjórnar LÍN virðist m.a. vera byggður á því að bréf það sem námsmanni sé sent þegar honum sé tilkynnt um lokun skuldabréfs sé næstum þýðingarlaust, þar sem einvörðungu sé um áminningu að ræða. Því virðist mega skilja orðalag úrskurðarins sem svo að litlu breyti því hvort námsmanni berist slík tilkynning í hendur eða ekki. Á þetta fallist kærandi ekki. Tilkynning sem send sé námsmönnum um fyrirhugaða lokun skuldabréfs þeirra þegar svo standi á, og jafnframt upplýsingar um frestun sem heimilt sé að veita að tilteknum skilyrðum uppfylltum sé afar mikilsverð, einkum þar sem tilvitnuð ákvæði reglna LÍN um lánsumsókn og námsframvindu verði að telja fremur óaðgengileg, öðrum en löglærðum. Sem kunnugt sé hafi sú tilkynning aldrei borist kæranda og því ekki orðið henni að gagni. Að mati kæranda verði því, eins og hér sé ástatt, að taka tillit til þeirra sérstöku atvika sem uppi hafa verið í þessu tilviki og fallast á beiðni hennar um frestun á lokun skuldabréfs hennar hjá sjóðnum.

Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Í úrskurði stjórnar kemur fram að kærandi hafi stundað lánshæft nám á námsárinu 2007-2008 án þess að sækja um námslán en skv. reglu 2.5.2. beri námsmanni að tilkynna það til sjóðsins innan auglýsts umsóknarfrests námsársins ef hann óskar eftir að lokunardegi skuldabréfs verði frestað. Umsóknarfrestur vegna náms á haustmisseri 2007 var 30. september 2007 og 31. janúar 2008 vegna vormisseris 2008. Með bréfi sjóðsins dags. 8. október 2008 hafi kærandi verið upplýst um að til stæði að loka skuldabréfi hennar en henni veittur lokafrestur til 10. nóvember 2008 til að sækja um breytingu á lokun skuldabréfsins að því tilskyldu að hún hefði stundað lánshæft nám án námslána eftir námsárið 2006-2007. Hér hafið því aðeins verið um áminningu að ræða. Kærandi hafi ekki haft samband við sjóðinn fyrr en í febrúar 2009 eða löngu eftir að framangreindur lokafrestur hafi runnið út.

Stjórn LÍN er ekki sammála túlkun úrskurðarnefndar frá 17. september 2009 um að ekki sé að finna ákvæði um þann tímaramma sem námsmanni er gefinn til að sækja um frestun á lokun skuldabréfs heldur sé sá frestur eingöngu tilgreindur í bréfi sem námsmaður fær þegar honum er tilkynnt um lokun skuldabréfs. Skýrt sé kveðið á um í grein 2.5.2. að ,,námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. Kafli – Námsframvinda og gr. 5.1.". Enn fremur bendir stjórn LÍN á fyrri úrskurði málskotsnefndar þar sem umrætt verklag hafi verið staðfest og nefnir í því sambandi mál 4/2009 og 19/2007.

Niðurstaða

Í tilfelli kæranda eiga úthlutunarreglur LÍN árið 2007-2008 við. Í grein 2.5.1. segir að námslok teljast við lok þess misseris þegar námsmaður hættir að fá lán. Kærandi þáði síðast lán vorönn 2007. Þá segir í gr. 2.5.2 um frestun námsloka: ,"Stundi lánþegi lánshæft nám án þess að sækja um lán frá sjóðnum er heimilt að fresta námslokum. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina. Eftir því sem við á skulu reglur um námsaðstoð gilda um þá umsókn, s.s. hvað varðar umsóknarfrest, gildistíma umsóknar, námslengd, sbr. gr. 2.2.1. og grein 2.4., upplýsingar um tekjur og námsárangur".

Óumdeilt er að kærandi stundaði lánshæft nám haustið 2008 án þess að sækja um lán frá sjóðnum og uppfyllir því þau skilyrði sem heimila frestun á lokun skuldabréfs.

Framangreint ákvæði 2.5.2. vísar til reglna um umsókn námslána. Í gr. 5.1.2. um umsóknir og gildistíma segir: ,"Sækja skal sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðaðarár. Hver umsókn gildir til loka misseris. Umsókn verður að hafa borist áður en lánshæfur námstími hefst. Sjóðnum er þó heimilt að miða við upphaf misseris hafi umsókn borist fyrir: 30. september vegna aðstoðar til áramóta; 31. janúar vegna aðstoðar eftir áramót fram að sumri; 31. maí vegna sumarlána. Framhaldsumsóknir, þ.e. umsóknir frá námsmönnum sem fengu lán á námsárinu 2006-2007, gilda frá upphafi námsársins berist þær fyrir 31. janúar".

LÍN sendi kæranda bréf dags. 8. október 2008 þar sem lokun skuldabréfs var tilkynnt. Í bréfinu er dagsetning lokunar tilgreind og fyrsti endurgreiðsludagur nefndur. Þá er greint frá því að frestur til að óska breytinga á lokun skuldabréfsins sé í síðasta lagi 10. nóvember 2008. Kærandi kveðst aldrei hafa fengið umrætt bréf.

Eins og fram kemur í fyrri úrskurði málskotsnefndar fékk kærandi tilkynningu um frágang skuldabréfs dags. 5. febrúar 2009. Skv. grein 7.1.3. í úthlutunarreglum LÍN skal lántakanda sent bréf með sundurliðuðum upplýsingum um greiðslur sem tilheyra skuldabréfinu. Honum skal jafnframt tilkynnt um dagsetningu námsloka og hvenær vextir fara að reiknast af skuldabréfinu. Hálfsmánaðar frestur skal gefinn til að gera athugasemdir. Að þeim tíma liðnum er heimilt að fylla skuldabréfið út. Móðir kæranda hafði samband við sjóðinn um leið og það bréf barst henni og var sent eyðublað um frestun á lokun skuldabréfs á tölvutæku formi þann 12. febrúar. Kærandi brást við án tafar og 13. febrúar sendi hún LÍN umsókn um frestun á lokun skuldabréfs.

Ákvæði 2.5.2. vísar til kafla í úthlutunarreglunum sem fjallar um umsókn um námslán. Framangreint ákvæði tilgreinir þrjár mismunandi dagsetningar, eftir því hvenær tíma árs námsmaður óskar láns. Verður að telja að ákvæðið sé villandi og óskýrt þegar kemur að því að átta sig á því hvaða dagsetning á við hverju sinni ætli lánþegi að óska eftir frestun á lokun skuldabréfs. Verður kærandi að njóta vafans vegna þessa.

Ekki er á það fallist að úrskurðarnefnd LÍN hafi áður samþykkt umrædda framkvæmd enda eru mál þau sem stjórn LÍN vísar til ólík tilfelli kæranda. Í þeim tilfellum var ljóst að lánþegi hafði fengið bréf frá sjóðnum þar sem frestur til að sækja um frestun á lokun skuldabréf var tilgreindur. Hafi námsmaður fengið upplýsingar um þann frest sem lánasjóðurinn veitir til að óska frestunar á lokun skuldabréfs, er ekki að finna undanþágu frá þeim fresti í reglunum. Hafi námsmaður hinsvegar ekki fengið upplýsingar um frestinn með skýrum hætti eins og í tilfelli kæranda verður að taka tillit til þess við úrlausn málsins.

Með vísan til framanritaðs og þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram máli sínu til stuðnings, þ.m.t. samskipta kæranda við LÍN, er úrskurður stjórnar LÍN frá 15. janúar sl. í máli kæranda felldur úr gildi og lánþega veitt heimild til frestunar á lokun skuldabréfs.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. janúar 2010 er felldur úr gildi og kæranda veitt heimild til frestunar á lokun skuldabréfs nr. R-xxxxxx.

Til baka