Úrskurður
Ár 2010, þriðjudaginn 23. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2010:
Kæruefni
Með kæru dags. 15. janúar 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. október sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um að tekið væri tillit til þess að hann á langveikt barn við mat á námsárangri hans á vorönn 2008. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 18. janúar sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 1. febrúar sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 5. febrúar sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Þann 10. júlí 2008 óskaði kærandi eftir því að tekið yrði
tillit til þess við mat á námsárangri hans á vorönn 2008 að hann á langveikt
barn. Kæranda var svarað með bréfi dags. 11. júlí 2008 þar sem erindi hans var
synjað þar sem hann gat ekki sýnt fram á að hann hafi skilað fullnægjandi
árangri í lánshæfu námi hausið 2007. Vísað var til gr. 2.3.2. í úthlutunarreglum
LÍN. Kæranda var aftur á móti bent á að ef hann myndi ná fullnægjandi
námsárangri á haustönn 2008 væri sjóðurinn tilbúinn til að endurskoða erindi
hans. Upplýsingar um fullnægjandi námsárangur barst frá HR þann 6. janúar 2009,
en ekkert erindi frá kæranda. Í ágúst 2009 sendi kærandi staðfestingu á
samkomulagi frá 8. desember 2005 þar sem kemur fram að hann og móðir barnsins
fari sameiginlega með forræði barnsins en barnið eigi lögheimili hjá móður. Þann
9. september 2009 barst LÍN tölvupóstur frá kæranda þar sem hann rifjar upp
eldra mál og hann óskar eftir að tekið sé tillit til veikinda barns hans. Í
tölvupóstinum gerir kærandi grein fyrir því að hann hafi áður fengið þau svör
frá LÍN að fallist yrði á beiðni hans ef hann myndi skila fullnæjandi árangri á
næstu önn (haust 2008), sem hann kveðst hafa gert. Bendir kærandi á að stjórn
LÍN eigi að hafa allar upplýsingar hjá sér um námsframvinduna á haustönn 2008.
Samkvæmt innanhúss minnisblaði LÍN dags. 16. september 2008 kveðst
starfsmaður LÍN hafa upplýst kæranda um að hann gæti sent inn nýtt erindi vegna
málsins en ólíklegt sé að erindið yrði samþykkt þar sem barnið væri ekki skráð
hjá kæranda og svipðum málum hafi verið hafnað hingað til. Þann 24. september
2009 barst LÍN erindi frá kæranda. Það erindi var afgreitt á fundi stjórnar LÍN
þann 15. október 2009 þar sem erindi kæranda var hafnað með vísan til gr. 5.2.1.
í úthlutunarreglum LÍN þar sem segir að lánveitingum vegna námsársins 2007-2008
skuli lokið fyrir 1. febrúar 2009.
Kærandi kveðst hafa sótt um undanþágu
tímanlega. Hann kveður svar LÍN hafa verið það að honum bæri að skila
fullnægjandi námsárangri haustið 2008 og þá yrði umsókn hans tekin til greina.
Hann bendir á að hann hafi fullnægt þessum skilyrðum en allt að einu hafi umsókn
hans verið hafnað.
Niðurstaða
Þann 11. júlí 2008 sendi LÍN kæranda svar við upphaflegri
beiðni hans um að tekið yrði tillit til veikinda barns hans við mat á
námsárangri hans á vorönn 2008. Í svarinu kemur m.a. fram að skv. gr. 2.3.2. í
úthlutunarreglum LÍN sé heimilt að taka tillit til alvarlegra veikinda námsmanns
og nánustu fjölskyldu hans, hafi námsmaðurinn áður skilað fullnægjandi árangri í
lánshæfu námi. Þá er bent á að hafi námsmaður ekki áður skilað fullnægjandi
árangri í lánhæfu námi eigi hann þó rétt á auknu svigrúmi vegna lánshæfs náms,
ef hann skili fullnægjandi árangri á næsta misseri eftir að hann þurfi á
svigrúminu að halda. Þá segir í svarinu: "Þar sem ekki liggja fyrir
upplýsingar um að þú hafir áður skilað fullnægjandi árangri í lánshæfu námi,
getur sjóðurinn ekki orðið við erindi þínu að þessu sinni. Ef þú hinsvegar
skilar lánshæfum námsárangri á haustmisseri 2008, er sjóðurinn reiðubúinn að
endurskoða erindi þitt".
Í framangreindu svari LÍN til kæranda kemur
ekki fram að hann hafi þurft að senda annað erindi til sjóðsins eftir að
námsárangur á haustönn 2008 lá fyrir. Hafi sú verið raunin, þ.e. að kæranda hafi
orðið að senda inn nýtt erindi vegna þessa, bar LÍN að gæta leiðbeiningarskyldu
gagnvart kæranda að þessu leyti sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þetta
var ekki gert og verður því að líta svo á að erindi kæranda hafi borist LÍN
innan tímafresta í úthlutunarreglum sjóðsins.
Í hinum kærða úrskurði er
ekkert fjallað efnislega um það hvort kærandi hafi átt rétt á undanþágunni sem
hann óskaði eftir. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að aflað hafi verið
gagna um hver áhrif veikindi barns hans hafi haft og muni hafa á námsframvindu
hans og möguleika í námi, þrátt fyrir að barnið eigi lögheimili hjá móður þess.
Þykir hinn kærði úrskurður ófullnægjandi að þessu leyti, auk þess sem
rannsóknarskyldunni í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur ekki verið gætt
við úrlausn málsins.
Með vísan til framangreinds er hinn kærði úrskurður
felldur úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 í máli kæranda er felldur úr gildi.