Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-32/2009 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 16. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-32/2009.

Kæruefni

Með endurupptökubeiðni dags. 8. mars 2010 fór kærandi fram á það við málskotsnefnd LÍN að hún tæki úrskurð nefndarinnar frá 23. febrúar sl. þar sem úrskurður stjórnar LÍN frá 11. desember sl. var staðfestur, til endurskoðunar.

Málskotsnefnd ákvað á fundi sínum dags. 23. mars sl. að endurupptaka málið og óska eftir frekari gögnum. Kæranda var tilkynnt um endurupptöku þann 25. mars sl. og óskað eftir því að hann legði fram nýtt staðgreiðsluyfirlit frá Ríkisskattstjóra fyrir tekjurárið 2009. Þau gögn bárust frá kæranda þann 6. apríl sl. Stjórn LÍN var tilkynnt um endurupptökubeiðnina þann 19. maí sl. og gefinn kostur á að tjá sig um hana og fram komin gögn. Svar stjórnar LÍN barst með bréfi dags. 21. maí sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fór fram á það að málskotsnefnd tæki til endurskoðunar ákvörðun stjórnar LÍN um að hafna beiðni hans um niðurfellingu á afborgun lána frá því í haust. Rök kæranda eru þau að hann hafi haft tekjur í níu af tólf mánuðum ársins og þar af aðeins verið í launaðri vinnu í þrjá mánuði. Launatekjur ársins 2009 verði undir 2 milljónum króna og að tímabundin vinna breyti engu í grundvallaratriðum. Kærandi telur sig eiga rétt á niðurfellingu afborgunar vegna fjárhagsörðugleika, þ.e. atvinnuleysis og lágra tekna.

Stjórn LÍN kveður kæranda hafa óskað eftir undanþágu frá afborgun 1. september 2009 vegna atvinnuleysis. Skv. gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum sjóðsins sé forsenda þess að unnt sé að veita undanþágu frá greiðslu afborgunar af námslánum að möguleikar lántakanda til öflunar tekna séu skertir á einhvern hátt, t.d. vegna atvinnuleysis, veikinda, lánshæfs náms eða sambærilegra ástæðna. Skal lánþegi leggja fram viðeigandi vottorð sem staðfestir að einhverjar af áður greindum ástæðum hafi varað a.m.k. í 4 mánuði fyrir gjalddaga. Skv. grein 7.4.2. er einnig heimilt að veita undanþágu ef skyndilegar og verulegar breytingar sökum veikinda eða slyss verða á högum lánþega, þannig að tekjur fyrra árs gefa ekki rétta mynd af tekjum endurgreiðsluárs. Þar sem kærandi hafi verið í launaðri vinnu 4 mánuðum fyrir gjalddaga hafi hann ekki uppfyllt skilyrðið sem tilgreint sé hér að ofan og því hafi stjórn LÍN synjað erindi hans um undanþágu frá tekjutengdri afborgun 2009. Enn fremur vekur stjórn LÍN athygli á því að séu tekjur kæranda árin 2008 og 2009 bornar saman hafi tekjur hans aukist 62% milli ára. Miðað við þær forsendur hafi fjárhagslegar aðstæður hans ekki versnað milli ára.

Niðurstaða

Í gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Hafi lánþegi haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar, ummönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar".

Í málinu liggur fyrir staðgreiðsluyfirlit frá Ríkisskattstjóra dags. 6. apríl sl. fyrir tekjuárið 2009. Þar kemur fram að kærandi hefur fengið greiðslu frá vinnumálastofnun frá febrúar til og með júlí, kærandi var ekki með tekjur í janúar. Í júlí og ágúst fær kærandi greitt frá frjálsíþróttasambandi Íslands, 300.000 kr. fyrir hvorn mánuð. Gjalddagi afborgunar námslánsins er 1. september.

Samkvæmt framangreindu ákvæði þurfa ástæður þær sem valda fjárhagsörðugleikunum að jafnaði hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Ákvæðið gefur ákveðið viðmið sem líta ber til þegar fjárhagsaðstæður lánþega eru metnar. Orðalag greinarinnar gefur svigrúm til mats á hverju atviki fyrir sig og telur málskotsnefnd að við mat á fjárhagsstöðu kærandi í máli þessu verði að horfa á heildarmynd aðstæðna. Ljóst er af gögnum málsins að kærandi var með tekjur í tvo mánuði af fjórum á framangreindu viðmiðurnartímabili. Hina mánuði ársins fram að septembermánuði, var kærandi tekjulaus eða þáði atvinnuleysisbætur. Tekjur kæranda árið 2009 voru vel undir tveggja milljón króna viðmiði LÍN um lágar tekjur. Það er mat málskotsnefndar að kærandi í máli þessu eigi rétt á undanþágu frá afborgun námsláns vegna lágra tekna þar sem hann hefur verið án atvinnu nánast allt árið 2009 og tekjur hans á árinu undir tveimur milljónum króna. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 11. desember 2009 í máli kæranda felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í kæranda frá 11. desember 2009 er felldur úr gildi.

Til baka