Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-15/2010 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð á námsláni

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 30. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 21. apríl 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 16. apríl 2010, þar sem hafnað var beiðni hans um niðurfellingu á ábyrgð á námslánum nr. R-0000 og R-0000. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 23. apríl 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 6. maí 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 12. maí s.á. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er ábyrgðarmaður á námsláni hjá LÍN sem annar aðili er greiðandi af. Kærandi fer fram á að ábyrgð hennar sem ábyrgðarmanns á fyrrgreindu láni verði felld niður og/eða að nafn hennar verði tekið útaf skrá hjá Credit Info. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til þess að málskotsnefnd geti fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar LÍN standist þær ekki lög og reglur. Kærandi vísar til bágs efnahags og erfiðrar fjárhagslegrar stöðu sinnar og að vegna aðgerða LÍN fái hún ekki notið grundvallar mannréttinda sem henni séu tryggð í stjórnarskrá Íslands. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 16. apríl 2010 verði staðfestur. Vísar hún því til stuðnings til greinar 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN en samkvæmt greininni sé ekki heimilt að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns af námsláni nema nýr ábyrgðarmaður komi í staðinn sem uppfylli skilyrði sjóðsins um ábyrgðarmenn. Í þessu máli hafi ekki verið boðinn fram nýr ábyrgðarmaður. Þá þurfi námslánið að vera í skilum til að hægt sé að skipta um ábyrgðarmann, en umrætt lán hafi verið í vanskilum síðan 1. september 2002. Búið sé að gera árangurslaust fjárnám bæði hjá greiðanda og kæranda vegna láns þessa en kærandi hafi byrjun maí sl. samið um mánaðarlegar greiðslur vegna kröfunnar og þar með hafi krafan verið tekin út af vanskilaskrá.

Niðurstaða

Við töku námsláns þess sem kærandi er ábyrgðarmaður að var í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna gerð krafa um að námsmaður, sem þiggur námslán, leggi fram yfirlýsingu að minnsta kosti eins ábyrgðarmanns sem taki að sér sjálfsskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 kemur fram að stjórn sjóðsins ákveði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja og að ábyrgð ábyrgðarmanns geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Í gr. 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN segir: "Eldri ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins". Enga heimild er að finna í lögum og reglum LÍN til þess að fella niður ábyrgð kæranda án þess að annar ábyrgðamaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur

Til baka