Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-16/2010 - Útreikningur námslána - beiðni um útreikning láns skv. eldri reglum

Úrskurður

 

Ár 2010, fimmtudaginn 30. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-16/2010.

 

Kæruefni

 

Með bréfi sem barst málskotsnefnd 4. maí 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 16. apríl sl. þar sem hafnað var þeirri kröfu kæranda að útreikningur námsláns hans skuli miðast við úthlutunarreglur sem giltu fyrir námsárið 2008-2009, en kærandi sótti um námslán eftir að úthlutunarreglur fyrir námsárið 2009-2010 tóku gildi. Með bréfi málskotsnefndar dags. 4. maí sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var með bréfi dags. sama dag sent afrit af bréfinu til stjórnar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni í bréfi dags. 6. maí sl. og var kæranda sent afrit þeirra með bréfi dags. 12. maí sl. þar sem honum var gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum í málinu. Engin frekari bréf eða gögn bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um námslán hjá LÍN þann 7. október 2009 eða tæpum mánuði eftir nýjar úthlutunarreglur tóku gildi. Breytingarnar fólu í sér meiri skerðingu á láni til kæranda en eldri úthlutunarreglur hefðu gert. Kærandi óskaði eftir því við LÍN að umsókn hans yrði afgreidd skv. eldri úthlutunarreglum þar sem hann taldi að núverandi reglur gerðu það að verkum að hann ætti í erfiðleikum með framfærslu. Fyrir breytingar hefði hann verið í sambandi við sjóðinn þar sem hann átti eftir eitt próf sem ætlunin var að haldið yrði í september. Hefði ráðgjafi sagt honum að hann gæti sótt um lán alveg fram til 15. janúar 2010. Hefði hann rætt skil á einkunn sinni við ráðgjafa LÍN en jafnframt hefði hann skilið hann þannig að engu breytti hvort hann myndi sækja um námslán strax eða bíða með það. Síðan hefði hann verið í sambandi við ráðgjafa LÍN í lok september sem hefði útskýrt fyrir honum nýju reglurnar og að tekjutengingin ætti við um hann. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með úrskurði sínum 16. apríl 2010. Kærandi telur afgreiðslu stjórnar LÍN á máli hans vera mjög ósanngjarna. Hefði hann aldrei byrjað nám vorið 2009 ef hann hefði gert sér grein fyrir því að fótunum yrði kippt undan fjárhagsáætlunum hans með þessum hætti. Vísar hann til þess að samkvæmt venju sé lögum um LÍN ekki breytt eftir að skólaár sé hafið. Af hálfu stjórnar LÍN er á það bent að þar til námsmaður sækir um námslán og er kominn með lánsáætlun í hendur geti hann ekki haft réttmætar væntingar til ákveðinnar lánsfjárhæðar af hálfu sjóðsins. Vísar stjórnin til minnisblaðs sem hún hafi falið lögfræðistofu að vinna varðandi breytingarnar á reglunum. Þar kemur fram að breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins hafi verið samþykktar af stjórn LÍN þann 9. september 2009 og staðfestar af menntamálaráðherra daginn eftir, þ.e. 10. september 2009. Sama dag hafi auglýsing þess efnis verið birt í B-deild stjórnartíðinda. Öllum formreglum hafi þannig verið fullnægt og nýjar reglur hafi tekið gildi þegar umsókn kæranda barst sjóðnum. Stjórn LÍN bendir sérstaklega á að starfsemi sjóðsins sé m.a. háð fjárframlögum ríkisvaldsins hverju sinni og því geti orðið óhjákvæmilegt að breyta forsendum úthlutunar, jafnvel eftir að úthlutunarreglur fyrir viðkomandi skólaár hafi verið samþykktar.

 

Niðurstaða

 

Kæra þessi varðar beitingu á úthlutunarreglum LÍN sem var breytt eftir að námsárið 2009-2010 var hafið en námsár hefst að jafnaði 1. júní ár hvert sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Var breytingunum ætlað að hækka grunnframfærslu námslána um 20% en jafnframt að auka tekjuskerðingarhlutfall úr 10 í 35%. Hafði tekjuskerðingin áhrif til lækkunar á rétt kærandi til námsláns. Til þess ber þó að líta að kæranda eins og öðrum umsækjendum var heimilt að sækja um lán fyrir það tímamark er úthlutunarreglum var breytt. Þá vissi kærandi að til stóð að breyta reglunum. Auglýsing um nýjar úthlutunarreglur LÍN var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 10. september 2009. Samkvæmt ákvæðum 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skulu birt fyrirmæli skulu binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína. Umræddar reglur höfðu ekki að geyma nein sérstök fyrirmæli varðandi umsóknir sem lagðar voru inn eftir gildistöku þeirra. Með vísan til þessa og að kærandi sótti ekki um námslánið fyrr en eftir að hinar nýju úthlutunarreglur tóku gildi þann 11. september 2010, telur kærunefndin ekki heimilt að beita eldri úthlutunarreglum um námslán kæranda.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka