Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2010 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um undanþágu frá reglum um umsóknarfrest

Úrskurður

 

Ár 2010, miðvikudaginn 30. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2010:

 

Kæruefni

 

Með bréfi til málskotsnefndar LÍN dags. 5. maí 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. apríl 2010, þar sem stjórnin hafnaði að veita kæranda námslán vegna haustannar 2009 þar sem umsókn kæranda barst of seint. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 24. maí 2010 þar sem stjórninni var gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 28. maí 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 18. júní 2010 en þar var kæranda jafnframt veittur 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sem er í námi í Danmörku sótti um námslán vegna haustannar 2009. Umsóknin barst LÍN þann 18. mars 2010, en umsóknarfrestur rann út þann 15. janúar 2010. Stjórn LÍN hafnaði að veita kæranda lán vegna þessa. Kærandi kveður umsóknarfrestinn hafa runnið út án þess að hann hafi sótt um vegna mistaka. Hann hafi staðið í þeirri meiningu að hann hefði verið búinn að senda inn umsókn. Síðan þegar hann hafi sent inn staðfestingu á einkunnum til LÍN í byrjun mars hafi hann fengið tilkynningu frá LÍN um að umsókn vegna skólaársins 2009-2010 hefði ekki borist sjóðnum. Kærandi bendir á í kæru sinni að mismunur sé á tilhögun vegna náms annars vegar á Íslandi þar sem námsmenn geti sent staðfestingu á námsárangri um eða eftir jól og fái því tímanlega ábendingu frá sjóðnum um að umsókn hafi ekki borist. Slíku sé ekki fyrir að fara vegna náms í Danmörku þar sem prófin séu í janúar.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt grein 5.1.2. í úthlutunarreglum LÍN skal sækja um námslán vegna haustannar 2009 fyrir 15. janúar 2010. Ekki er að finna undanþágu frá þessarri reglu í úthlutunarreglunum, reglugerð nr. 602/1997 um lánasjóð íslenskra námsmanna eða lögum nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna. Af þessum sökum er hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka