Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-20/2010 - Skólagjöld - beiðni um skólagjaldalán umfram hámark

Úrskurður

 

Ár 2010, miðvikudaginn 30. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-20/2010:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 27. maí 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 16. apríl 2010, þar sem hafnað var beiðni kæranda um hærra lán til skólagjalda vegna náms í Frakklandi. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 3. júní 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 15. júní 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 18. júní 2010, en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi er í doktorsnámi við háskóla í Frakklandi, en undanfarin ár hefur hann stundað meistaranám við sama skóla. Upphæð skólagjalda hans 2009-2010 er 10.000 EUR en eftirstöðvar skólagjaldahámarks kæranda er aðeins 1.344 EUR miðað við hámarkslán uppá 40.000 EUR. Kærandi sendi stjórn LÍN erindi þar sem hann óskaði eftir því að hann fengi lánað fyrir umræddum skjólagjöldum. Stjórn LÍN synjaði erindinu með vísan til 2. mgr. 4.8. gr. úthlutunarreglna LÍN, sem kveði á um að skólaárið 2009-2010 skuli lán til skólagjalda í Frakklandi aldrei verða hærri en 40.000 EUR og engin heimild sé til þess að víkja frá hámarkinu. Í kæru sinni til málskotsnefndar byggir kærandi á því að tilvitnað ákvæði í úthlutunarreglum LÍN eigi ekki við þar sem hann hafi hafið doktorsnám skólaárið 2008-2009, áður en reglan um 40.000 EUR hámark var sett inn í úthlutunarreglur LÍN í júní 2009. Þá gerir kærandi athugasemdir við að LÍN rökstyðji ekki hvers vegna lánsfjárhæð miðist við gengi hinnar íslensku krónu 1. júní 2009 en ekki september 2008 er hann hóf námið. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 16. apríl 2010 verði staðfestur og vísar hún því til stuðnings til 2. mgr. 4.8. gr. úthlutunarreglna LÍN. Bendir stjórnin á að umrætt ákvæði úthlutunarreglna um skólagjaldahámark hafi verið í úthlutunarreglum LÍN allavega síðan kærandi hóf nám í Svíþjóð 2002, en þá var skólagjaldahámarkið 340.849 SEK. Þegar kærandi hóf mastersnám í Frakklandi haustið 2005 hafi hámarkslán til skólagjalda í löndum þar sem evra er notuð verið 37.369 EUR og 40.000 EUR haustið 2008 er kærandi hóf doktorsnámið. LÍN hafi enga heimild til þess að víkja frá úthlutunarreglum um hámarkslán.

 

Niðurstaða

 

Í 2. mgr. 4.8. gr. úthlutunarreglna LÍN er kveðið á um að skólaárið 2009-2010 skulu lán til skólagjalda í Frakklandi aldrei verða hærri en 40.000 EUR. Er kærandi hóf doktorsnám í Frakklandi haustið 2008 var að finna samhljóða ákvæði í úthlutunarreglum LÍN um 40.000 EUR hámarkslán til skólagjalda skólaárið 2008-2009. Í grein 4.8 í úthlutunarreglunum er afdráttarlaust tekið fram að áður fengin skólagjaldalán dragist frá hámarksláni áður en lánsréttur til skólagjalda er fundinn. Eins og fyrr greinir eru eftirstöðvar skólagjaldahámarks kæranda aðeins 1.344 EUR miðað við hámarkslán uppá 40.000 EUR. Er því ekki fyrir hendi frekari lánsréttur kæranda vegna skólaársins 2009-2010. Þar sem hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN varðar eingöngu lánsrétt kæranda vegna skólagjalda tekur málskotsnefnd ekki afstöðu til athugasemda kæranda um við hvaða gengi íslensku krónunnar skuli miða útborgun lánsfjárhæðar. Með athugasemd þessari og með vísan til þess sem að framan greinir er úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka