Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-18/2010 - Námslengd - beiðni um undanþágu frá fimm ára reglu

Úrskurður

Ár 2010, föstudaginn 27. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-18/2010:

Kæruefni

Með kæru sem móttekin var þann 20. maí 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 16. apríl 2010, þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá fimm ára reglu fyrir vormisseri 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 20. maí 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 28. maí 2010, móttekið þann 23. júní 2010, og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 1. júlí s.á. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda. Með bréfi dags. 14. júlí sl. óskaði málsskotsnefndin síðan eftir afstöðu stjórnar LÍN til þess hvort nám það er kærandi hafði stundað í uppeldis – og kennslufræði, kennsluréttindi teldist til framhaldsnáms í skilningi úthlutunarreglnanna, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um lánasjóð íslenskra námsmanna. Með bréfi dags. 28. júlí sl. vísaði stjórn LÍN til þess að samkvæmt grein 2.3.3. í úthlutnarreglunum teldist kennslufræði til kennsluréttinda til framhaldsnáms. Í bréfi sínu ítrekaði stjórn LÍN að framkvæmd fimm ára reglunnar hefði alltaf verið þannig að telja fyrstu fimm árin óháð því hvort um sérnám, grunnháskólanám eða framhaldssháskólanám væri að ræða. Til viðbótar væri eingöngu hægt að fá lán í önnur fimm ár ef um framhaldsháskólanám væri að ræða.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um námslán hjá LÍN fyrir skólaárið 2009-2010 en fékk synjun af hálfu stjórnar LÍN á grundvelli fimm ára reglunnar í grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi gerir kröfu um endurskoðun á þessari niðurstöðu stjórnar LÍN og að henni verði veitt námslán á vorönn 2010. Kærandi bendir á að hún hafi lokið eftirfarandi grunnnámi og fengið námslán vegna þess þ.e. 3ja ára námi í þýsku við Háskóla Íslands 1988-1991, sumarönn við Háskóla Íslands 1991 og svo haustönn 2009 í ljósmyndanámi við Tækniskóla Íslands. Þá hafi hún lokið eftirfarandi framhaldsnámi og fengið námslán vegna þess þ.e. eins árs kennsluréttindanámi 1991-1992 og eins árs meistaranámi í þýsku 1992-1993. Kærandi byggir á því að samkvæmt grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN eigi námsmaður rétt á framfærslu í fimm ár í grunnnámi. Hún hafi aðeins lokið þremur heilum árum auk sumarannar árið 1991 og haustannar 2009. Í grein 2.3.3 í úthlutunarreglunum sé svokölluð tíu ára regla og eigi hún við um framhaldsnám. Kærandi hafi lokið einu ári í meistaranámi í þýsku og einu ári kennsluréttindanámi sem teljist til framhaldsnáms. Hún hafi því ekki lokið fimm ára grunnnámi samkvæmt grein 2.3.2 eins og haldið sé fram og eigi því rétt á námsláni fyrir vorönn 2010 í ljósmyndanámi sínu við Tækniskóla Íslands. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður stjórnarinnar frá 16. apríl 2010 verði staðfestur. Vísar hún því til stuðnings að kærandi hafi sótt um undanþágu frá fimm ára reglu fyrir vormisseri 2010 en það sé lokamisseri hennar í ljósmyndanámi. Haustið 2009 hafi kærandi fengið samþykkta undanþágu frá fimm ára reglunni á haustmisseri 2009 en þar með hafi hún fengið lán í samtals sex ár. Stjórn LÍN byggir á því að í grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN geti námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm ár samanlagt. Ekki sé heimilt að veita frekari lán nema námsmaður stundi framhaldsháskólanám sbr. grein 2.3.3 í úthlutunarreglunum. Heimilt sé að veita undanþágu frá framangreindu hámarki að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sbr. grein 2.3.2. Stjórn LÍN telur að kærandi sé búin að fullnýta möguleika sína til námslána á öðrum námsstigum en framhaldsháskólastigi og því beri að staðfesta úrskurð stjórnarinnar frá 16. apríl sl.

Niðurstaða

Hlutverk LÍN er samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna skal námsmaður að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju misseri meðan hann er við nám en þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað. Í 13. gr. laganna er kveðið á um rétt námsmanna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum til námslána. Á grundvelli 1. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 hefur ráðherra sett reglugerð um LÍN nr. 602/1997 um frekari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir: "Námsmenn í grunnháskólanámi eða sérnámi eiga rétt á almennum námslánum í samtals fimm ár að hámarki, sbr. nánari ákvæði í úthlutunarreglum sjóðsins. Leggi námsmaður stund á framhaldsháskólanám að loknu grunnháskólaprófi er heimilt að veita honum lán í allt að 10 ár samtals."

Í grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN, sem sett er af stjórn LÍN, er fjallað um svokallaða fimm ára reglu þar sem fram kemur að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu geti námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm aðstoðarár samanlagt. Í grein 2.3.3 er svo fjallað um svokallaða tíu ára reglu þar sem fram kemur að leggi námsmaður stund á framhaldsháskólanám er heimilt að veita honum lán umfram það hámark sem tilgreint er í gr. 2.3.2. Greinar 2.3.2 og 2.3.3 í úthlutunarreglum LÍN verður að túlka í samræmi við skýrt orðalag 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 602/1997, sbr. lög nr. 21/1992, um að námsmenn í grunnháskólanámi eða sérnámi eiga rétt á almennum námslánum í samtals fimm ár að hámarki. Námsmenn eiga því sjálfstæðan rétt til námslána í fimm ár vegna náms á grunnháskóla- og sérnámsstigi að uppfylltum öðrum þeim skilyrðum sem gerðar eru til lántöku hjá LÍN. Kærandi hefur annars vegar lokið fjórum árum í námi á grunnháskóla- og sérnámsstigi og hins vegar hefur hann lokið tveimur árum í námi á framhaldsháskólastigi. Á hann því enn rétt til námsláns í eitt aðstoðarár vegna náms á grunnháskóla- og sérnámsstigi.

Með vísan til framangreinds er úrskurður stjórnar LÍN frá 16. apríl 2010 í máli kæranda felldur úr gildi

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. apríl 2010 er felldur úr gildi.

Til baka