Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-21/2010 - Lánshæfi - lánshæfi leiðsögunáms við Endurmenntun HÍ

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 29. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-21/2010:

Kæruefni

Með kæru sem móttekin var þann 13. júlí 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 16. apríl 2010 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að leiðsögunám hennar við Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) verði metið lánshæft hjá Lánasjóði íslenskar námsmanna. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 14. júlí 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 28. júlí 2010 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda, dagsettar 21. ágúst 2010, bárust nefndinni þann 24. ágúst sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskaði eftir því að leiðsögunám það sem hún stundar við Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) undir heitinu “Leiðsögunám á háskólastigi” yrði metið lánshæft hjá LÍN sem tveggja anna 60 ECTS eininga nám á grunnstigi háskóla. Erindinu var synjað af stjórn LÍN í úrskurði, dagsettum 16. apríl 2010, þar sem EHÍ hafi ekki tilskilin leyfi til að bjóða upp á grunnháskólanám. Kærandi gerir kröfu um að úrskurður stjórnar LÍN verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði að leiðsögunám það sem kennt er við EHÍ sé lánshæft hjá LÍN. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður stjórnarinnar frá 16. apríl 2010 verði staðfestur. Kærandi byggir kröfu sína á því að í 3. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 sé fjallað um viðurkenningu háskóla. Þar segi að menntamálaráðherra veiti háskólum viðurkenningu og að viðurkenning hvers háskóla sé bundið við ákveðin fræðasvið en háskólar megi aðeins starfa á þeim fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nái til. Kærandi bendir einnig á að í 10. gr. fyrrgreindra laga segi að viðurkenndir háskólar megi meta nám við aðra menntastofnanir ef þeir ábyrgjast námið. Kærandi telur að af þessu ákvæði leiði að ef viðurkenndur háskóli ábyrgist nám við aðrar stofnanir falli það nám undir viðurkenningu viðkomandi háskóla. Kærandi bendir einnig á að í ákvæðinu segi ekkert til um á hvaða stigi nám þurfi að vera til að vera viðurkennt af öðrum háskóla. Kærandi telur að leiðsögunámið í EHÍ sé á faglegri ábyrgð HÍ og vísar um það m.a. til verklagsreglna um greiðslur vegna aukastarfa innan HÍ. Þá sé leiðsögunám EHÍ fullt nám þar sem 60 ECTS einingar séu kenndar á heilu skólaári. Það sé því hæft til bæði skólagjaldaláns og framfærsluláns óháð því hvort það sé kennt á grunnstigi eða framhaldsstigi háskóla. Þá telur kærandi að LÍN veiti nú þegar námslán vegna grunnháskólanáms sem ekki sé kennt við þá háskóla sem nefndir séu í grein 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi byggir einnig á því að listinn yfir háskóla skv. gr. 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN sé ekki tæmandi listi yfir þær stofnanir sem bjóða upp á lánshæft nám á háskólastigi eða stigi sambærilegu við háskólastig þar sem listinn nái einungis yfir þá háskóla á Íslandi sem hlotið hafi viðurkenningu menntamálaráðherra en innihaldi ekki skóla og stofnanir sem bjóði upp á sambærilegt nám við háskólanám eða háskólanám sem njóti faglegrar ábyrgðar viðurkenns háskóla. Enn fremur segi bæði í gr. 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN og í 1. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 að nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi sé lánshæft. Inntökuskilyrði í leiðsögunám EHÍ séu sambærileg við undirbúningskröfur til náms við aðra háskóla á Íslandi og því ætti námið að vera lánshæft hjá LÍN burtséð frá faglegri ábyrgð HÍ á náminu. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um að nám hennar við EHÍ teldist lánshæft með vísan til gr. 1.2.1 í úthlutnarreglum LÍN. Þar sé talið upp í hvaða skólum nám á háskólastigi á Íslandi sé lánshæft. Að EHÍ sé ekki meðal þeirra skóla sem þar séu taldir upp enda hafi skólinn ekki tilskilin leyfi til að bjóða upp á grunnháskólanám og því hafi erindi kæranda verið hafnað. Stjórn LÍN bendir á að EHÍ hafi óskað eftir því á árinu 2009 að umrætt nám yrði samþykkt af stjórn LÍN sem lánshæft nám en í úrskurði stjórnarinnar frá 9. júlí 2009 hafi erindinu verið synjað þar sem tilskilin leyfi til að bjóða upp á grunnháskólanám voru ekki til staðar. Jafnframt hafi verið óskað eftir rökstuðningi EHÍ um hvaða lagaheimild væri til staðar sem heimilaði stofnuninni að kenna grunnnám og innheimta skólagjöld vegna leiðsögunámsins. Í framhaldi hafi EHÍ óskað eftir endurupptöku málsins og hafi LÍN þá sent formlegt erindi til lögfræðisviðs Mennta- og menningarmálaráðuneytisins dagsett 6. nóvember 2009. Ekkert formlegt svar hafi enn borist frá ráðuneytinu en LÍN hafi átt í óformlegum samskiptum við ráðuneytið og fleiri aðila vegna málsins. Ágreiningur sé um hvaða lagaheimildir séu fyrir því að grunnnám sé kennt af símenntunardeildum háskólanna og að með þeim hætti sé hægt að innheimta skólagjöld af nemum. Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu sé nú verið að vinna að lagafrumvarpi þar sem heimildir símenntunardeilda háskólanna verða væntanlega skilgreindar.

Niðurstaða

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2010-2011, sem sett er af stjórn LÍN með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er í I. kafla fjallað um hvað teljist til lánshæfs náms hjá sjóðnum hverju sinni. Eru þar ýmis skilyrði sett fram sem uppfylla þarf til þess að nám teljist lánshæft. Allir lánshæfir skólar á Íslandi eru upptaldir í úthlutunarreglunum og fylgiskjölum með þeim reglum. Er þá búið að ganga úr skugga um að hver einstakur skóli njóti viðurkenningar menntamálaráðuneytis og hafi öll tilskilin leyfi. Í grein 1.2.1 í úthlutunarreglunum er talið upp í hvaða skólum nám á háskólastigi á Íslandi er lánshæft og er EHÍ ekki í þeirri upptalningu. Er hér um tæmandi talningu að ræða á þeim skólum á háskólastigi á Íslandi sem bjóða uppá lánshæft nám hverju sinni. Að mati málskotsnefndar er umrædd regla skýr, öllum lánþegum ljós og jafnræðis er gætt. Þá hefur verið upplýst af hálfu LÍN að EHÍ hafi óskað eftir því á árinu 2009 að umrætt leiðsögunám yrði samþykkt af stjórn LÍN sem lánshæft nám en að erindinu hafi verið hafnað þar sem tilskilin leyfi skólans til að bjóða upp á grunnháskólanám voru ekki til staðar. Þá liggur fyrir að verið er að vinna að þessu máli af hálfu EHÍ innan stjórnsýslunnar en þeirri vinnu og öflun tilskilinnar leyfa er ekki lokið. Leiðsögunám kæranda við EHÍ fellur ekki undir að vera lánshæft nám þar sem EHÍ hefur ekki tilskilin leyfi frá til þess bærum stjórnvöldum til að bjóða uppá grunnháskólanám. Það er í ekki verkahring stjórnar LÍN að veita slík leyfi, heldur hefur í úthlutunarreglum verið lagt til grundvallar að veita lán eingöngu vegna náms í skólum sem hlotið hafa tilskilin leyfi. Hlutverk stjórnar LÍN felst því eingöngu að kanna hvaða skólar á háskólastigi á Íslandi bjóði uppá lánshæft nám hverju sinni og ganga úr skugga um skóli hafi til þess öll fullnægjandi leyfi. Eins og áður greinir telur málsskotsnefnd að umrædd regla sé skýr, öllum lánþegum ljós og að jafnræðis sé gætt.

Með vísan til framangreindra atriða og gagna málsins að öðru leyti er það mat málskotsnefndar að úrskurður stjórnar LÍN frá 16. apríl 2010 sé í samræmi við úthlutunarreglur LÍN og er hann því staðfestur.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka