Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-23/2010 - Skilyrði lánveitingar - beiðni um lán vegna röskunar á stöðu og högum

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 29. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-23/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 15. júlí 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 16. apríl 2010, þar sem hafnað var beiðni kæranda um lán vegna röskunar á stöðu og högum námsmannsins námsárið 2008-2009. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. júlí 2010 og jafnframt veittur kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 6. águst 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 10. ágúst 2010, en þar var kæranda jafnframt gefin 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi var í námi erlendis. Kærandi sendi LÍN erindi hinn 5. mars 2010 þar sem hún óskaði eftir því að vegna veikinda frá desember 2008 og út árið 2009 fengi hún aukalán vegna röskunar á stöðu og högum á grundvelli greinar 4.9 í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN synjaði erindinu með vísan til þess að kærandi hefði ekki lagt fram gögn er sýndu fram á sára neyð á skólaárinu vegna ófyrirsjáanlegrar röskunar á stöðu og högum og að útborgun lána vegna námsársins 2008-2009 hafi lokið þann 1. desember 2009, sbr. grein 5.2 í úthlutunarreglum LÍN. Í kæru sinni til málskotsnefndar kveðst kærandi hafi orðið fyrir mikilli röskun í námi vegna veikinda, sem hafi haft í för með sér að námslok, sem voru fyrirhuguð 1. desember 2009, hafi seinkað til 1. júní 2010. Á því tímabili hafi kærandi engar tekjur haft utan námsláns frá LÍN, en hún hafi vegna veikinda verið ófær að afla annarra tekna. Að sögn kæranda voru auk hennar í heimili börn hennar og annað þeirra væri í námi.

Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 16. apríl 2010 verði staðfestur. Fram kemur í rökstuðningi stjórnar LÍN að á fundi hennar 12. október 2009 hafi verið tekið tillit til veikinda kæranda við mat á námsárangri og samþykkt samkvæmt heimild í grein 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN að veita henni lán sem samsvarar 20 ECTS-einingum. Það hafi verið niðurstaða stjórnarinnar að kærandi hafi ekki sýnt fram á sára neyð á skólaárinu vegna ófyrirsjáanlegar röskunar á stöðu og högum, og erindi hennar hafi því verið synjað. Þá hafi útborgun lána vegna námsársins 2008-2009 lokið þann 1. desember 2009, sbr. grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN, en erindi kæranda hafi ekki komið fram fyrr en með bréfi hennar 5. mars 2010.

Niðurstaða

Í grein 4.9 í úthlutunarreglum LÍN 2008-2009 sem kærandi vísar í kröfu sinni til stuðnings segir:

Heimilt er að veita námsmanni aukalán sem samsvarar framfærslu allt að 7 ECTS-einingar fyrir námsmann á Íslandi og 14 ECTS- einingar fyrir námsmenn erlendis að teknu tilliti til fjölskyldustærðar verði ófyrirsjáanleg röskun á stöðu og högum námsmanns og reglur þessar ná ekki til hennar að öðru leyti. Námsmenn þurfa að sækja sérstaklega um aukalán, en þau eru ætluð þeim sem eru í sárri neyð og verður hvert tilvik metið af stjórn sjóðsins. Á þetta t.d. við þegar námsmanni verður vegna alvarlegra veikinda, örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild. Hafa skal hliðsjón af þeim bótum sem námsmaður fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf.

Framangreind heimild til að veita aukalánin var tekin upp í úthlutunarreglur Lánsjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2008-2009 til að koma til móts við námsmenn sem urðu fyrir ófyrirsjáanlegri röskun á stöðu eða högum haustið 2008 vegna bankahrunsins. Fjárhagslegir erfiðleikar kæranda eru ekki dregnir í efa, en þeir eru samkvæmt kæru hennar af annarri rót runnir en sem tengjast bankahruninu. Verður því að staðfesta þá niðurstöðu stjórnar LÍN, að kærandi hafi ekki sýnt fram á sára neyð á skólaárinu 2008 til 2009 vegna ófyrirsjáanlegrar röskunar á stöðu og högum þannig að falli undir grein 4.9 í úthlutunarreglum LÍN. Þá verður ekki framhjá því litið að beiðni kæranda um aukalán fyrir námsárið 2008 til 2009 var fyrst sett fram með bréfi hennar 5. mars 2010, en útborgun námslána framangreint námsár lauk þann 1. desember 2009. sbr. grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka