Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-30/2010 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 12. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-30/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 19. ágúst 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 17. maí 2010, þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar af námsláni 2009. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 3. september 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 13. september 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 25. september 2010 en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er skuldari að námsláni hjá LÍN. Kærandi fer fram á að fá undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar af námsláni 1. mars 2009. Til stuðnings kröfu sinni kveðst kærandi hafa vegna veikinda haustið 2008 ekki náð tilskildum árangri í námi til þess að eiga lánsrétt hjá LÍN. Námsferill á vorönn 2009 hafi hins vegar staðist og kærandi fengið námslán það tímabil. Kærandi kveður áætlað sumarnám 2009 ekki hafa gengið eftir og hún hafi verið tekjulaus um sumarið. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 19. maí 2010 verði staðfestur. Vísar hún því til stuðnings til greinar 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN en samkvæmt greininni þurfi lántakandi að sýna fram á aðstæður er valdi fjárhagsörðugleikum og að þær hafi varað að jafnaði a.m.k. í 4 mánuði fyrir gjalddaga. Ítrekað hafi verið óskað eftir gögnum frá kæranda til stuðnings fjárhagsörðugleikum, en án árangurs. Þar sem kærandi hafi ekki getað sýnt fram á árangur í námi á haustönn 2008 hafi hún fengið synjun á umsókn sinni 2. júní 2009, en jafnframt vakin athygli hennar á því að hún gæti óskað eftir úrskurði stjórnar LÍN um synjunina innan þriggja mánaða. Það hafi hún ekki gert fyrr 30. mars 2010 og þá hafi kærufrestur verið löngu liðinn og erindi hennar því synjað.

Niðurstaða

Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar eða verulegar breytingar verða á högum skuldara svo sem alvarleg veikindi eða slys, sem skerða til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Þá er stjórn sjóðsins ennfremur heimilt að veita undanþágu frá árlegri greiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Í 7. mgr. fyrrgreinds lagaákvæðis segir að sá sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr. skuli leggja sjóðsstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Kærandi sótti um undanþágu frá endurgreiðslu fastrar afborgunar námsláns 1. mars 2009 vegna náms, en var synjað með bréfi LÍN 2. júní 2009. Í bréfinu var athygli kæranda vakin á því, að hún gæti óskað eftir úrskurði stjórnar LÍN um synjunina, en sú beiðni þyrfti að berast innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfsins. Kærandi óskaði ekki eftir úrskurði stjórnar LÍN fyrr en með bréfi dagsettu 30. mars 2010 og bar því þá við að vegna veikinda haustið 2008 hafi hún ekki náð tilskilum árangri í námi til þess að eiga lánsrétt hjá LÍN. Þegar erindi kæranda barst stjórn LÍN var kærufrestur hennar löngu liðinn og erindinu því réttilega synjað . Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna málskots kæranda kemur fram að hún hafi kannað sérstaklega hvort kærandi hefði átt rétt á undanþágu vegna veikinda haustið 2008 ef hún hefði skilað inn gögnum á réttum tíma. Af læknisvottorði sem kærandi framvísaði yrði ekki ráðið að hún hafi með öllu verið óvinnufær haustið 2008. Málskotsnefnd fellst á að þær upplýsingar sem kærandi hefur lagt fram í því skyni að sýna fram á fjárhagsörðugleika hennar vegna veikinda staðfesta ekki að hún uppfylli skilyrði laga og reglna LÍN til að fá undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar af námsláni 2009. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfestur.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 17. maí 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka