Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-09/2010 - Námslengd - beiðni um undanþágu frá fimm ára reglu

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 27. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-9/2010:

Kæruefni

Með kæru sem móttekin var þann 14. janúar 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 15. október 2009, þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán með vísan til greinar 2.3.2. í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. janúar 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 5. febrúar 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 12. febrúar s.á. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Þann 23. mars 2010 var kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 var staðfestur. Með úrskurði dagsettum 30. ágúst 2010 í máli nr. 18/2010 felldi málsskotnefndin úr gildi úrskurð stjórnar LÍN í sambærilegu máli á þeim grundvelli að svonefnd 5 ára reglan væri andstæð reglugerð nr. 602/1997 um lánasjóð íslenskra námsmanna. Í ljósi þeirrar niðurstöðu óskaði kærandi eftir því að nefndin tæki mál hans til meðferðar að nýju. Þann 15. mars 2010 var af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins skipaðir nýir nefndarmenn í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hinir fyrri leystir frá störfum. Af ástæðum sem núverandi málskotsnefnd er ekki kunnugt um var eldri nefndinni ekki tilkynnt um hina nýju skipan þannig að hún kvað upp úrskurð í máli þessu eftir að umboð hennar rann út. Í ljósi þessarar stöðu og til að eyða óvissu ákvað málskotsnefndin að taka málið til úrskurðar að nýju. LÍN var boðið að koma að athugasemdum í málinu og bárust athugasemdir LÍN þann 12. október 2010. Kæranda var boðið að kom með athugasemdir og bárust þær þann 20. október 2010.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði nám í hjúkrunarfræði við HÍ og fékk lán í sex misseri þar sem hann lauk námi vorið 2006. Síðan hóf kærandi meistaranám í lögfræði við HR haustið 2007 og fékk námslán í 4 misseri vegna þess náms en hann útskrifaðist úr því námi vorið 2009. Haustið 2009 hóf kærandi grunnnám í lögfræði við HR og sótti um námslán hjá LÍN fyrir skólaárið 2009-2010. Hann fékk synjun af hálfu stjórnar LÍN um frekara námslán á grundvelli greinar 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi gerir kröfu um endurskoðun á þessari niðurstöðu stjórnar LÍN. Kærandi vísar m.a. til þess að ef hann hefði fyrst tekið grunnnám í lögfræði og síðan meistaranámið hefði hann átt rétt á frekara námsláni. Vísar kærandi til aðila í hliðstæðri stöðu hvað varðar að hafa stundað nám í hjúkrunarfræði á sama tíma og kærandi og farið síðan í grunnnám í lögfræði og stundi nú meistaranám í lögfræði. Þeir muni útskrifast á svipuðum tíma með sömu gráður en njóti ekki sömu réttinda til lána hjá LÍN. Kærandi telur að hér sé um að ræða mismunun sem sé í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Kærandi bendir á að honum hafi verið synjað um námslán á grundvelli úthlutunarreglna LÍN, greina 2.3.2 og 2.3.3 en að túlka verði úthlutunarreglurnar í samræmi við skýrt orðalag reglugerðar nr. 602/1997 og á það bent að reglugerð sé rétthærri réttarheimild. Kærandi telur að stjórn LÍN sé ekki stætt að semja reglur sem standast ekki reglugerðir sem þeim ber að vinna eftir. Þá vísar kærandi til niðurstöðu málskotsnefndar í máli nr. L-18/2010 sem sé sambærilegt þessu máli. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður stjórnarinnar frá 15. október 2009 verði staðfestur. LÍN vísar til ákvæða greinar 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN sem kveði á um að námsmaður geti fengið lán að hámarki í allt að fimm ár samanlagt og að undanþáguákvæði greinar 2.3.3. í úthlutunarreglum LÍN eigi ekki við í tilviki kæranda. Stjórn LÍN vísar til þess að niðurstaðan hafi verið í samræmi við lög og reglur. Þá hafi niðurstaðan verið sú sama og í fjölda sambærilegra mála sem komið hafa til kasta stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Sé því um viðurkennda túlkun og framkvæmd af hálfu sjóðsins á umdeildum ákvæðum. Þá vísar stjórn LÍN til bréfs Umboðsmanns Alþingis, dagsettu 12. október 2002, í máli nr. 3418/2002. Í því máli taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast vegna þeirrar niðurstöðu stjórnar LÍN að kvartandi ætti ekki rétt á námslánum í grunnnámi eftir að hafa fullnýtt fimm ára svigrúm til lána frá sjóðnum. LÍN bendir á að hin lagalega staða sé í dag nákvæmlega sú sama og þegar umboðsmaður komst að niðurstöðu sinni í fyrrgreindu máli.

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skal málskotsnefnd LÍN skera úr um hvort úrskurðir stjórnar LÍN séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Við framkvæmd þessa eftirlitshlutverks lítur málskotsnefndin meðal annars til þess hvort að sjóðurinn hafi sett sér stjórnvaldsreglur sem brjóti í bága við lög og reglugerðar sem um sjóðinn gilda. Málskotsnefndin hefur nýlega fengið til meðferðar sambærilegt mál og fjallað er um hér. Í úrskurði málskotsnefndarinnar nr. 18/2010 sem kveðinn var upp þann 21. júlí 2010 segir m.a. svo: Greinar 2.3.2 og 2.3.3 í úthlutunarreglum LÍN verður að túlka í samræmi við skýrt orðalag 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 602/1997, sbr. lög nr. 21/1992, um að námsmenn í grunnháskólanámi eða sérnámi eiga rétt á almennum námslánum í samtals fimm ár að hámarki. Námsmenn eigi því sjálfstæðan rétt til námslána í fimm ár vegna náms á grunnháskóla- og sérnámsstigi að uppfylltum öðrum þeim skilyrðum sem gerðar eru til lántöku hjá LÍN. Mál það sem hér er til meðferðar fyrir málskotsnefndinni er sambærilegt fyrrgreindu máli er varðar túlkun á greinum 2.3.2 og 2.3.3 í úthlutunarreglum LÍN og verður við niðurstöðu í þessu máli tekið mið af því. Málskotsnefnd telur að sú niðurstaða sem umboðsmaður Alþingis komst að í máli nr. 5978/2002, sem stjórn LÍN vísar til, sé ekki svo skýr eða afgerandi að rétt sé að víkja frá skýru fordæmi málskotsnefndar sem sett var í máli nr. 18/2010. Málskotsnefnd bendir jafnframt á að í fyrrgreindu áliti kom fram sú skoðun umboðsmanns að orðalag 3. gr. reglugerðar nr. 602/1997 sé þannig, að í samanburði við nánari útfærslu greina 2.3.2 og 2.3.3 í úthlutunarreglunum, geti það hæglega valdið nokkrum vafa og misskilningi um þann rétt sem námsmenn eiga. Taldi umboðsmaður á þessum tíma ástæðu til að vekja athygli menntamálaráðuneytisins á þessum óskýrleika. Þrátt fyrir ábendingu umboðsmanns Alþingis hafa engar breytingar verið gerðar af hálfu yfirvalda til að skýra og taka af allan vafa um þennan rétt námsmanna sem þó er ljóst að full ástæða hafi verið til. Málskotsnefnd bendir einnig á að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 sé ráðherra heimilað að setja með reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd laganna. Jafnframt komi fram í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 að vald stjórnar sjóðsins til að setja úthlutunarreglur sé bundið við "önnur atriði er greinir í lögum þessum og reglugerð". Telur málskotsnefnd að með vísan til framanritaðs og þess að framsal slíkra almennt orðaðra valdheimilda til stjórnvalda beri að jafnaði að skýra þröngt þá verði eigi talið að stjórn sjóðsins geti sett reglur er stangist á við orðalag reglugerðar sem ráðherra hafi sett samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna. Málskotsnefndin telur með vísan til framangreinds og þess að kærandi hefur annars vegar lokið þremur árum í námi á grunnháskólastig og hins vegar tveimur árum í námi á framhaldsháskólastigi að hann eigi enn rétt til námsláns í tvö aðstoðarár vegna náms á grunnháskóla- og sérnámsstigi. Með vísan til framangreinds er úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 í máli kæranda felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. október 2009 er felldur úr gildi.

Til baka