Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-24/2010 - Ofgreidd lán - aukaafborgun og frágangur skuldabréfs

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 24. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-24/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 16. júlí 2010 kærði kærandi úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 11. mars 2010 og 16. apríl 2010, varðandi endurgreiðslu námsláns er hann fékk til greiðslu skólagjalda á haustönn 2007. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. júlí 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 6. ágúst 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 10. ágúst 2010, en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda. Málsskotnefnd óskaði frekari gagna frá stjórn LÍN með bréfi dags. 20. september 2010 og bárust umbeðin gögn með bréfi dags. 29. september 2010. Málsskotsnefnd óskaði síðan frekari gagna með tölvupósti dags. 21. október og bárust gögn frá LÍN þann 26. október.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði meistaranám í alþjóðlegum fjármálum og bankastarfssemi við Háskólann á Bifröst og lauk því námi í febrúar 2010. Kærandi sótti um lán vegna námsáranna 2006-2007 og 2007-2008. Kærandi sótti um lán vegna skólagjalda á haustönn 2007 en lauk ekki þeirri önn og tók sér hlé frá námi. Þar sem kærandi lauk ekki tilskildum árangri samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins var hann krafinn um endurgreiðslu ofgreidds láns samkvæmt gr. 5.7 og 5.9 í úthlutunarreglum sjóðsins. Sendi LÍN honum erindi þess efnis með bréfum dags. 16. apríl 2008, 20. júní 2008, 11. ágúst 2008, 13. nóvember 2009 og 15. desember 2009. Kærandi fór fram á leiðréttingu sinna mála við stjórn LÍN dags. 25. febrúar 2010. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með úrskurði sínum dags. 11. mars 2010 á grundvelli þess að námsmönnum bæri að endurgreiða ofgreidd námslán og að kærandi hefði ekki skilað lánshæfu námi á skólaárinu 2007-2008. Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu stjórnar LÍN með bréfi þess efnis dags. 12. mars 2010. Kærandi sendi stjórn LÍN annað erindi þar sem hann taldi að reglum sjóðsins hefði verið breytt á milli námsáranna 2006-2007 og 2007-2008 varðandi endurnýjun umsókna námsmanna sem fresta námi. Í beiðni kæranda um endurupptöku, dags. 26. mars 2010 segir eftirfarandi: "Nú hefur mér verið tjáð að í júní 2008 hafi reglum sjóðsins verið breytt á þann veg að nemendur sem fresti námi þurfi að sækja um námslán að nýju, mér var ekki kunnugt um þetta enda var þessi regla ekki til staðar þegar ég hóf nám og sótti um námslán 2006-2007. Ég fer því fram á að þessi regla hafi ekki afturvirk áhrif og setji mig þar með í þá stöðu að þurfa að greiða þennnan hluta lánsins til baka þegar ég stóð í þeirri góðu trú að ég væri að gera það sem mér bæri til að tilkynna um frestun á námi mínu þegar ég bað skólann um að senda tilkynningu þess efnis til lánasjóðsins miðað við þær reglur sem voru í gildi þegar ég hóf námið." Stjórn LÍN staðfesti fyrri úrskurð sinn þar sem hún taldi ekkert nýtt komið fram í málinu, hefðu reglur sjóðsins ekki breyst að þessu leyti. Var kæranda sent bréf þess efnis dags. 16. apríl 2010. Í kæru sinni til málskotsnefndar tekur kærandi fram að hún beinist að afgreiðslu LÍN á aukaafborgun og frágangi skuldabréfs hans og fer þess á leit að endurgreiðsla hefjist líkt og um hefðbundin námslán tveimur árum eftir námslok, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna. Tekur kærandi fram að hann hafi síðan tekið umræddar einingar á vorönn 2008 hafi hann talið sér heimilt að láta lánið frá haustönn 2007 ganga til greiðslu skólagjaldanna vegna þeirra eininga er hann lauk á vorönn 2008. Hafnar kærandi því að um ofgreitt lán hafi verið að ræða þar sem það hafi verið nýtt í upphaflegum tilgangi. Kærandi hafnar því ennfremur að ekki hafi verið skilað lánshæfu námi á skólaárinu 2007-2008 þar sem hann hafi skilað 20 ECTS einingum á vorönn. Kærandi tekur sérstaklega fram að viðkomandi lán hafi verið gjaldfellt fyrir misskilning og bendir í því efni til úthlutunarreglna LÍN vegna námsársins 2007-2008 en þar segi í lið 2.5.1 að heimilt sé að fresta námslokum ef námsmaður sýni fram á námshæft lán frá sjóðnum á næsta skólaári þar á eftir. Ekki komi skýrt fram í lið 2.5 um Námslok við hvaða frest eigi að miða þegar óskað er eftir frestun auk þess sem frestunin rúmaðist innan skólaársins 2007-2008. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurðir hennar í máli kæranda verði staðfestir og vísar hún því til stuðnings að samkvæmt grein 5.7. í úthutunarreglum sjóðsins skuli námsmaður endurgreiða ofgreidd lán frá sjóðnum. Kærandi hefði ekki skilað tilskildum námsárangri og bæri honum að endurgreiða ofgreitt lán. Hefði honum ítrekað verið sendar tilkynningar þess efnis. Reglur sjóðsins hefðu ekkert breyst á milli ára og hefðu námsmenn alltaf þurft að sækja um námslán innan tilskilins umsóknarfrests er tilgreindur væri í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum sjóðsins, enda hefði kærandi sótt sérstaklega um lán vegna áranna 2006-2007 og 2007-2008 vegna umrædds náms.

Niðurstaða

Í kæru sinni til málskotsnefndar tekur kærandi fram að hann kæri niðurstöðu LÍN vegna afgreiðslu á aukaafborgun og frágangi skuldabréfs G-067516 og fer þess á leit að endurgreiðsla hefjist líkt og hefðbundin námslán. Kærandi tekur ekki fram að hvorum úrskurði stjórnar LÍN kæra hans beinist og verður því að líta svo á að hún beinist að báðum úrskurðum enda fjalla þeir báðir um það álitamál er kæran beinist að, þ.e. kröfu lánasjóðsins um aukaafborgun og útgáfu skuldabréfs vegna umrædds haustláns 2007. Í fyrri úrskurði sínum sem sendur var kæranda með bréfi dags. 12. mars fjallaði stjórn LÍN um beiðni kæranda um að honum yrði heimilað að greiða af umræddu námsláni tveimur árum eftir námslok. Í síðari úrskurði sínum dags. 16. apríl 2010 fjallaði stjórn LÍN um erindi kæranda þar sem hann taldi að reglum sjóðsins hefði verið breytt á milli námsáranna 2007-08 og 2008-09. Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 79/1998 um starfsreglur málskotsnefndar skal að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um í reglugerðinni fara um meðferð mála hjá nefndinni samkvæmt stjórnsýslulögum. Í reglugerð nr. 79/2008 er eigi að finna ákvæði um kærufrest og fer því um slíkan frest samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir í 1. mgr. að kæru skuli bera fram innan þriggja mánaða nema lög mæli á annan veg. Í 3. mgr. stjórnsýslulaganna segir síðan að ef aðili óski eftir endurupptöku innan kærufrests rofni fresturinn. Hafni stjórnvald því að taka mál upp að nýju haldi frestur síðan áfram að líða frá þeim tíma er sú ákvörðun er kynnt aðila. Svo háttar til í máli þessu að þegar kærandi sendi inn kæru sína til málskotsnefndarinnar þann 16. júlí 2010 voru liðnir meira en 3 mánuðir frá því að stjórn LÍN úrskurðaði í fyrra skiptið í máli hans. Kærufrestur í því máli rofnaði þann 26. mars 2010 er kærandi sendi nýtt erindi til stjórnar LÍN. Kærufresturinn byrjaði aftur að líða þann 16. apríl 2010 er kæranda var tilkynnt um niðurstöðu stjórnar LÍN í síðara málinu. Er samkvæmt þessu kærufrestur liðinn vegna úrskurðar stjórnar LÍN dags. 12. mars 2010 og er kæru í því máli þar af leiðandi vísað frá málskotsnefndinni. Kemur því einungis til athugunar í máli þessu úrskurður stjórnar LÍN í síðara máli kæranda sem tilkynntur var honum með bréfi dags. 16. apríl 2010. Telja verður að kærufrestur byrji að líða þegar ákvörðun er komin til aðila, sbr. athugasemdir við 27. gr. stjórnsýslulaga í greinargerð með frumvarpi að lögunum og má því ljóst vera að kæran í síðara málinu varðandi beiðni um endurupptöku sem barst málsskotsnefnd 16. júlí 2010 er borin fram innan þriggja mánaða kærufrests samkvæmt framansögðu og ber því málskotsnefnd að taka hana til efnislegrar meðferðar. Um endurupptöku segir í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga: "Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin." Í erindi sínu dags. 26. mars 2010 fer kærandi þess á leit við stjórn LÍN að hún taki upp mál hans með vísan til þess að reglum vegna nemenda er fresti sér í námi hefði verið breytt á þann veg að þeir nemendur þyrftu að sækja um námslán að nýju. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi fékk ofgreitt námslán. Samkvæmt 5.7.1. grein úthlutunarreglnanna skal námsmaður endurgreiða lán sem hann fær ofgreitt, t.d. "vegna vanáætlaðra tekna, vanskila á námsárangri eða annarra ástæðna". Enga heimild er að finna í úthlutunarreglum sjóðsins til undaþágu frá framangreindum kröfum. Er því jafnframt ljóst að kæranda var ekki heimilt að láta hið ofgreidda lán ganga til greiðslu skólagjalda á síðari stigum námsins heldur þurfti hann að sækja um námslán að nýju. Það liggur einnig fyrir í málinu að reglum um umsóknir námslána hafði ekki verið breytt varðandi umsóknir um námslán. Verður ekki séð miðað við framangreint að úrskurður stjórnar LÍN í fyrra málinu hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá verður heldur ekki séð að ákvörðun stjórnar LÍN í fyrra málinu hafi byggst á atvikum sem breyttust verulega eftir að sú ákvörðun var tekin. Með vísan til þess sem að framan greinir er úrskurður stjórnar LÍN dags. 16. apríl 2010 í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Kæru vegna úrskurðar stjórnar LÍN frá 11. mars 2010 er vísað frá nefndinni. Hinn kærði úrskurður frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka