Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-27/2010 - Ofgreidd lán - krafa um endurgreiðslu á fyrirframgreiddu skólagjaldaláni

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 24. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-27/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 4. ágúst 2010 kærði kærandi úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 15. apríl 2010 og frá 18. maí 2010, þar sem hafnað var beiðni hans vegna endurgreiðslu á fyrirframgreiddu námsláni sökum þess að hann hafi ekki lagt fram gögn um fullnægjandi námsárangur. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 11. ágúst 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 23. ágúst 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 26. ágúst 2010, en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda. Málsskotsnefnd óskaði frekari gagna varðandi námsárangur kæranda og samskipti sjóðsins við kæranda með bréfi dagsettu 20. september 2010. Umbeðin gögn bárust með bréfi dagsettu 29. september 2010. Málskotsnefnd óskaði frekari gagna með tölvupósti dagsettum 21. október 2010 og bárust gögn frá LÍN þann 26. október s.á.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði meistaranám í alþjóðlegum fjármálum og bankastarfssemi við Háskólann á Bifröst og fékk lán vegna skólagjalda fyrir sumar- og haustmisseri 2007. Lánasjóðurinn krafði hann um endurgreiðslu lánanna sökum þess að hann hafi ekki skilað fullnægjandi námsárangri. Voru honum send bréf þess efnis dagsett 16. apríl 2008, 20. júní 2008, 11. ágúst 2008, 2. nóvember 2009, 13. nóvember 2009 og 15. desember 2009. Kærandi fór fram á leiðréttingu sinna mála við lánasjóðinn með bréfi dagsettu 30. nóvember 2009. Hann vísaði til þess að þrátt fyrir að hann hefði ekki náð tilskyldum námsárangri hefði hann litið svo á að honum væri heimilt að ráðstafa láninu til að nýta það vegna vorannar 2009, en kærandi hafði tekið sér hlé frá námi. Ennfremur fór kærandi þess á leit að innheimta skólagjalda yrði sett í eðlilegan farveg þar sem fullnægjandi námsárangri hefði verið náð. Þá fór kærandi einnig fram á undanþágu á endurgreiðslu vegna slæmrar fjárhagsstöðu sinnar. Lánasjóðurinn hafnaði beiðni kæranda og bar hann mál sitt undir stjórn sjóðsins. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með úrskurði sínum dagsettum15. apríl 2010 á grundvelli þess að námsmönnum bæri að endurgreiða ofgreidd námslán skv. grein 5.7 í úthlutunarreglum. Ekki væri heimild til að verða við erindi hans. Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu stjórnar LÍN með bréfi þess efnis dagsettu 16. apríl 2010. Þann 26. apríl 2010 sendi kærandi stjórn LÍN annað erindi þar sem hann ítrekaði fyrri kröfur sínar. Kemur fram í erindi hans að hann hafi ekki ný gögn en að samkvæmt skilningi hans á 11. gr. reglugerðar nr. 602/1997 þá sé sjóðnum ekki skylt að gjaldfella ofgreidd lán þó svo að til þess sé heimild. Lúti beiðni hans að því að þessi heimild verði ekki nýtt. Stjórn LÍN staðfesti fyrri úrskurð sinn með þeim rökstuðningi að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu. Var kæranda sent bréf þess efnis dagsett 18. maí 2010. Í kæru sinni til málskotsnefndar byggir kærandi á því að hann hafi skilað fullnægjandi námsárangri á sumarönn 2007. Lokaönn hafi verið frestað og henni ekki lokið fyrr en vorið 2009 með fullnægjandi námsárangri. Láni frá 2007 vegna skólagjalda hafi verið nýtt á vorönn 2009. Þar sem umræddum lánum hafi verið ráðstafað til þess sem þeim hafi verið ætlað telji kærandi það ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að krefjast endurgreiðslu þeirra. Fer kærandi þess á leit að endurgreiðslukrafa verði afturkölluð og skólagjöld vegna sumarannar fari í eðlilegan farveg þar sem fullnægjandi námsárangri hafi verið náð. Jafnframt biður kærandi um undanþágu frá endurgreiðslu vegna ofgreidds láns á sumarönn og haustönn 2007 vegna bágrar fjárhagsstöðu. Verði ekki fallist á ofangreint fer kærandi þess á leit að láninu verði breytt í venjulegt skuldabréf til eins árs.

Niðurstaða

Í kæru sinni til málskotsnefndar tekur kærandi ekki fram að hvorum úrskurði stjórnar LÍN kæra hans beinist og verður því að líta svo á að hún beinist að báðum úrskurðum enda fjalla þeir um það álitamál er kæran beinist að, þ.e. kröfu lánasjóðsins um aukaafborgun og útgáfu skuldabréfs vegna umrædds haustláns 2007. Kemur fyrst til athugunar fyrri úrskurður stjórnar LÍN, dagsettur 16. apríl 2010. Samkvæmt grein 5.7. í úthlutunarreglum LÍN skal námsmaður endurgreiða ofgreidd námslán. Verður að telja þá reglu í samræmi við 6. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna er kveður á um að námslán skuli aðeins veita þeim er leggi fram gögn um tilskilda skólasókn og námsárangur. Fyrir liggur að kærandi fékk ofgreitt námslán þar sem hann skilaði ekki tilskyldum námsárangri á því tímabili sem um ræðir. Krafði lánasjóðurinn því kæranda um endurgreiðslu lánsins. Málskotsnefnd telur ekki skipta máli í þessu sambandi þó að kærandi hafi á síðari tímabilum skilað fullnægjandi námsárangri, enda gera reglur sjóðsins ráð fyrir því að sótt sé sérstaklega um lán vegna hverrar námsannar um sig. Þá er ekki er í úthlutunarreglunum að finna neina heimild til að taka tillit til þeirra aðstæðna er kærandi lýsir í erindi sínu til lánasjóðsins. Var því stjórn sjóðins rétt að synja erindi kæranda. Málskotsnefnd tekur einnig fram að ekki verður séð að hægt sé að byggja kröfu um undanþágu að þessu leyti á 11. gr. reglugerðar nr. 602/1997. Telur málskotsnefnd að í umræddu ákvæði sé einungis verið að mæla fyrir um að við endurkröfu sé lánasjóðnum heimilt að innheimta vexti þá sem þar eru tilgreindir. Með síðara erindi sínu til stjórnar LÍN fer kærandi fram á endurupptöku fyrra máls síns án þess að tilgreina ástæður aðrar en þær er áður höfðu komið fram af hans hálfu. Vísar hann einungis til frekari lagaraka um að í úrskurðinum hafi komið fram að stjórn LÍN hafi ranglega talið sér skylt að gjaldfella lánið en samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 602/1997 sé einungis um heimild að ræða. Um endurupptöku segir í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga: "Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin." Eins og lýst er hér að framan byggir kærandi eingöngu á frekari lagarökum fyrir beiðni sinni um endurupptöku. Leggur kærandi ekki fram neinar upplýsingar af því tagi sem lýst er í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Var niðurstaða stjórnar LÍN dagsett 17. maí 2010 því í samræmi við lög og var stjórninni rétt að synja beiðni kæranda um endurupptöku. Með vísan til þess sem að framan greinir eru úrskurðir stjórnar LÍN dagsettir 15. apríl og 17. maí 2010 í máli kæranda staðfestir.

Úrskurðarorð

Hinir kærðu úrskurðir frá 15. apríl og 17. maí 2010 í máli kæranda eru staðfestir. 

Til baka