Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2010 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um undanþágu frá reglum um umsóknarfrest

Úrskurður

 

Ár 2010, miðvikudaginn 22. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-7/2010.

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 10. janúar 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. október 2009 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá reglum um umsóknir og gildistíma námslána. Stjórn LÍN var með bréfi dagsettu 21. janúar sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dagsett 3. febrúar sl. Með bréfi dagsettu 12. febrúar sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Ekki hafa borist frekari athugasemdir frá kæranda. Þann 23. mars 2010 kvað málskotsnefnd LÍN upp úrskurð í málinu þar sem úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 var staðfestur. Þann 15. mars 2010 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nýja nefndarmenn í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hinir fyrri leystir frá störfum. Af ástæðum sem núverandi málskotsnefnd er ekki kunnugt um var eldri nefndinni ekki tilkynnt um hina nýju skipan þannig að hún kvað upp úrskurð í máli þessu daginn eftir að umboð hennar rann út. Í ljósi þessarar stöðu og til að eyða óvissu hefur málskotsnefndin ákveðið að taka málið til úrskurðar að nýju.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar doktorsnám við X og XX og kveðst hafa síðast þegið námslán frá LÍN haustönn 2008. Kveðst kærandi hafa fengið lánsloforð (í bréfi kæranda segir „námsloforð“) frá LÍN á haustdögum að fjárhæð kr. 1.523.226 en þar sem hún hafi þá þegar verið farin að þiggja doktorsnámsstyrk hafi hún haft samband við LÍN til að ganga úr skugga um hvort hún gæti nýtt sér lánsloforðið. LÍN hafi þá tjáð henni að svo væri. Í febrúar hafi hún hinsvegar áttað sig á því að námslánin hefðu ekki verið greidd niður og það þrátt fyrir að leiðbeinandi hennar við HÍ hefði sent inn viðunandi námsárangur fyrir haustönn 2008. Kveðst hún þá hafa sett sig í samband við LÍN og sent bréf þann 22. febrúar 2009 þar sem hún annarsvegar óskaði útskýringa á þessu og jafnframt hvers vegna hún væri rukkuð um árlega greiðslu á lánum þó hún væri enn skráð í námi. Kveðst hún hafa fengið svar þess efnis að umsókn um námslán fyrir námsárið 2008-2009 hefði ekki borist sjóðnum og að ef hún ætlaði að sækja um frest á afborgun gæti hún gert það rafrænt á heimasvæði sínu. Kærandi kveðst hafa sótt strax um frest á afborgun. Hún kveðst þó ekki skilja hvers vegna hún hafi fengið lánssloforð ef engin umsókn væri fyrir hendi. Eftir töluverðar bréfaskriftir hafi hún ákveðið að geyma þetta mál þar til hún kæmi heim til Íslands um sumarið. Þegar heim var komið hafi hennar beðið innheimtubréf frá bankanum. 

Kærandi telur að fulltrúi LÍN hefði átt að leiðbeina henni frekar og að hún hefði ekki átt að fá námsloforð og peninga greidda út frá bankanum ef engin umsókn væri fyrir hendi. Kveður kærandi sökina vissulega einnig vera sína þar sem hún hefði átt að kynna sér reglur sjóðsins en að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því hve strangar kröfur gildi um umsóknir lána. Stjórn LÍN kveður kæranda hafa sent LÍN tölvupóst þann 25. febrúar 2009 vegna rukkunnar á eldri námslánum og spurt jafnframt um útborgun láns vegna haustmisseris 2008. Starfsmaður LÍN hafi svarað 26. febrúar og bent kæranda á að hún hafi ekki sótt um námslán fyrir námsárið 2008-2009. Fullyrðingar kæranda um að hún hafi verið með lánsáætlun fyrir námsárið eigi ekki við rök að styðjast því hún hafi ekki haft samband við sjóðinn frá því í september 2007 þar til framangreindan dag í febrúar 2009. Kærandi hafi svarað LÍN samdægurs um að hún muni sækja um frestinn á heimasvæði og ennfremur hafi borist námsyfirlit frá HÍ fyrir hana þann dag. Það hafi svo ekki verið fyrr en 1. mars 2009 sem kærandi hafi sótt rafrænt um frest á afborgun. Í kjölfarið á þeirri umsókn eða 9. mars 2009 hafi komið nýtt yfirlit frá HÍ um hennar nám vegna frestunar á afborgun. 

Stjórn LÍN kveður kæranda ekki hafa haft samband fyrr en 7. september 2009 þegar hún hafi sent stjórn LÍN erindi vegna námslána námsársins 2008-2009. LÍN kveður starfsmann LÍN ekki hafa átt að svara kæranda öðruvísi en gert hafi verið þar sem svarið hafi verið alveg skýrt með það að engin umsókn um námslán hefði borist sjóðnum. Það sé á ábyrgð námsmanns að sækja um námslán hverju sinni og því ekki við starfsmanninn að sakast í þeim efnum. Eftir standi að umsóknarfresturinn vegna haustmisseris 2008 var útrunninn þegar kærandi hafði samband í febrúar 2009. Enn fremur hafi umsóknarfrestur vegna vormisseris verið útrunninn þegar hún hafi sent erindi til stjórnar 7. september og því hafi stjórnin ekki getað fallist á að veita henni undanþágu frá reglu 5.1.2. í úthlutunarreglum LÍN. 

 

Niðurstaða

 

Í gr. 5.1.2. í úthlutunarreglum LÍN 2008-2009 um umsóknir og gildistíma segir meðal annars: ,"Sækja skal sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár. Umsókn verður að hafa borist sjóðnum fyrir: 15. janúar 2009 vegna náms haustið 2008". Umsókn kæranda barst sjóðnum í raun ekki fyrr en 7. september 2009 þegar hún sendi stjórninni erindi vegna námslána námsársins 2008-2009. Ekki er að finna ákvæði í reglunum sem veita undanþágu frá framangreindu tímaskilyrði í úthlutunarreglum LÍN. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn til að styðja þá fullyrðingu hennar um að hún hafi fengið lánsvilyrði frá sjóðnum haustið 2008. Ekki er fallist á það með kæranda að svör lánasjóðsins hafi verið ófullnægjandi enda liggur fyrir að fulltrúi LÍN upplýsti kæranda um að umsókn hennar vantaði. Úthlutunarreglur lánasjóðsins eru aðgengilegar öllum og verður að leggja þá ábyrgð á lánþega að kynna sér reglur sjóðsins ætli þeir að nýta sér þá þjónustu sem hann veitir. 

Ekki er ágreiningur um þann þátt kærunnar er varðar frest á afborgun námsláns kæranda. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 í máli kæranda staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. október 2009 er staðfestur.

Til baka