Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-08/2010 - Búsetuskilyrði - réttindi erlendra námsmanna

Úrskurður

Ár 2010, miðvikudaginn 22. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2010:

Kæruefni

Með kæru dagssettri 15. janúar 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskar námsmanna frá 15. október 2009 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán á grundvelli gr. 1.2.3. í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 21. janúar 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 4. febrúar sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 12. febrúar sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Þann 23. mars 2010 var af hálfu málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 var staðfestur. Þann 15. mars 2010 var af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins skipaðir nýir nefndarmenn í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hinir fyrri leystir frá störfum. Af ástæðum sem núverandi málskotsnefnd er ekki kunnugt um var eldri nefndinni ekki tilkynnt um hina nýju skipan þannig að hún kvað upp úrskurði í máli þessu eftir að umboð hennar rann út. Í ljósi þessarar stöðu og til að eyða óvissu ákvað málskotsnefndin að taka málið til úrskurðar að nýju.

Málsatvik og ágreiningsefni

Í mars 2009 hafði unnusta kæranda samband við LÍN til að kanna möguleika kæranda á að fá námslán haustið 2009. Erindinu var svarað á þann hátt að ef kærandi gæti lagt fram skattframtal eða launaseðla til þess að sýna fram á atvinnuþátttöku á Íslandi ætti hann að hafa rétt á námsláni. Tekið var fram að öll slík mál færu þó fyrir vafamálanefnd þar sem hvert og eitt mál væri metið sérstaklega. Af hálfu stjórnar LÍN er tekið fram að í framangreindu svari hafi ekki falist neitt lánsloforð. Þegar kærandi sótti um námslán í júlí 2009 höfðu nýjar úthlutunarreglur fyrir skólaárið 2009-2010 tekið gildi. Með þeim reglum var m.a. felld úr gildi krafa um ábyrgðarmann á námslánum nema í þeim tilvikum að námsmaður sé ekki metinn lánshæfur. Við þessar breytingar ákvað stjórn LÍN að setja sér ákveðnar vinnureglur varðandi afgreiðslu umsókna erlendra ríkisborgara. Lánsumsókn kæranda var tekin fyrir á fundi vafamálanefndar þann 14. september 2009. Hafnaði nefndin lánsumsókninni á þeim forsendum að kærandi fullnægði ekki skilyrðum í grein 1.2.3 í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN úrskurðaði í málinu þann 15. október 2009. Þar var lánsumsókn kæranda hafnað með vísan til ákvæða í grein 1.2.3 í úthlutunarreglum LÍN, en þar segir m.a.: "Ríkisborgarar ríkja á evrópska efnahagssvæðinu (EES) sem hafa búsetu hérlendis vegna starfs síns, fjölskyldur þeirra og aðrir sem eru eða hafa verið á þeirra framfæri, eiga rétt á námslánum eins og íslenskir námsmenn". Sérstaklega er tekið fram í hinum kærða úrskurði að ekki sé hægt að fallast á að búseta kæranda hér á landi frá 22. ágúst 2008 eigi við í þessu tilfelli þar sem ekki liggi fyrir ótvíræðar upplýsingar um að hann hafi komið hingað til lands vegna starfs hans auk þess sem hann sé ekki giftur íslenskum ríkisborgara. Af hálfu kæranda er því haldið fram að hann hafi fengið þær upplýsingar frá LÍN í upphafi árs 2009 að hann fullnægði skilyrðum til að fá námslán. Einungis þyrfti að ganga frá formsatriðum varðandi það. Hann kveðst því hafa verið afar undrandi þegar hann hafi fengið bréf dagsett 8. september 2009 þar sem lánsumsókn hans var hafnað með vísan til þess að hann uppfyllti ekki skilyrði í grein 1.2.3 í úthlutunarreglum LÍN. Telur hann að LÍN hafi á lokastigum málsins reynt að finna leið til að neita honum um lán frá sjóðnum.

Niðurstaða

Óumdeilt er að úthlutunarreglur LÍN vegna námsársins 2009-2010 eiga við í máli þessu. Í grein 1.2.3 í úthlutunarreglunum er fjallað um réttindi erlendra námsmanna. Ekki liggur fyrir að kærandi máls þessa hafi hér búsetu vegna starfs hans. Af þessum sökum uppfyllir kærandi ekki skilyrði fyrir því að fá lán skv. 3. mgr. greinar 1.2.3 í úthlutunarreglum LÍN. Með vísan til framangreinds og til forsendna hins kærða úrskurðar er hann staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka