Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2010 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu á ábyrgðum

Úrskurður

 

Ár 2010, miðvikudaginn 22. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-12/2010:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 8. mars 2010 kærði kærandi tvo úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 11. mars 2010 þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgðum á námslánum nr. S og R. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. mars 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Umboðsmanni kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN vegna beggja málanna komu fram í bréfi dagsettu 18. mars 2010 og var afrit þess sent umboðsmanni kæranda með bréfi dagsettu 22. mars 2010. Þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. 

Þann 10. maí 2010 var af hálfu málskotsnefndar LÍN kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem úrskurðir stjórnar LÍN frá 11. mars 2010 voru staðfestir. 

Þann 15. mars 2010 skipaði mennta- og menningarmálaráðuneytið nýja nefndarmenn í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna og fyrri nefnd var leyst frá störfum. Af ástæðum sem núverandi málskotsnefnd er ekki kunnugt um var eldri nefndinni ekki tilkynnt um hina nýju skipan. Þann 10. maí 2010 kvað fráfarandi nefnd upp fyrrgreindan úrskurð í málinu eftir að umboð hennar rann út. Þar sem sá úrskurður var kveðinn upp af umboðslausum nefndarmönnum verður ekki hjá því komist að málskotsnefnd takið málið til úrskurðar að nýju.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi er ábyrgðarmaður á tveimur lánum hjá LÍN, annars vegar fyrir A (R-lán) og hins vegar fyrir B (S-lán). Kærandi óskar eftir því ábyrgðir hennar á þessum lánum verði felldar niður. Hún hafi frá árinu 2000 þjáðst af alvarlegum sjúkdómi og þegar hún hafi gengið í umræddar ábyrgðir hafi hún vegna afleiðinga heilablóðfalls verið með öllu óhæf til að taka á sig þær skuldbindingar sem í ábyrgðunum hafi falist. Kærandi hafi fengið ítrekaðar greiðsluáskoranir vegna téðra ábyrgða, sem ljóst sé að hún geti með engu móti ráðið við, auk þess sem hún sé ólæs og skilji ekki um hvað málið snúist. Kærandi tekur fram að vegna veikinda sinna og þess hugarangurs sem ágengi kröfuhafa hafi valdið henni hafi þrjár lánastofnanir fellt niður ábyrgðir sem hún var í. Til stuðnings sjónarmiðum sínum leggur kærandi fram læknisvottorð dagsett 8. desember 2000 og 26. janúar 2001. Þá er lögð fram tilkynning frá sýslumanninum í Reykjavík þess efnis að fjárnám hafi verið gert í fasteign kæranda þann 30. júlí 2009 að kröfu LÍN. 

Stjórn LÍN vísar til greinar 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN en samkvæmt henni er ekki heimilt að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns af námsláni nema nýr ábyrgðamaður komi í staðinn sem uppfyllir skilyrði sjóðsins um ábyrgðarmenn. Þá þurfi námslán að vera í skilum til að heimilt sé að skipta um ábyrgðarmenn, en lánið nr. R hafi verið í vanskilum síðan 1. september 2007 og lánið nr. S síðan 1. september 2008. Stjórn LÍN upplýsir að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá kæranda í júlí 2009 vegna fyrrgreinda lánins, en greiðsluítrekanir verið sendar vegna síðarnefnda lánins.

 

Niðurstaða

 

Upplýst er í málinu að í ágúst 2000 fékk kærandi alvarlegt heilablóðfall. Í janúar 2001 er ástandi hennar lýst þannig í læknisvottorði: "Hún kemur vel fyrir en er greinilega með skert nær og fjær minni. Er með dysphasiu. Skilur misvel einföld fyrirmæli, nominal agnosia og á erfitt með að reikna...

Ábyrgðir kæranda eru annars vegar frá árinu 1995 (nr. S) og hins vegar frá árinu 2002 (lán nr. R). Stafar því eingöngu seinni ábyrgðin frá tíma eftir að kærandi veiktist alvarlega. Í niðurlagi gr. 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN segir: "Eldri ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins". Þá segir í ákvæði 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992: "Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, getur fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi". Í lögum eða reglum LÍN er því ekki að finna heimild til að fella niður ábyrgð kæranda vegna eldri ábyrgðarinnar án þess að annar ábyrgðamaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn. Á hinn bóginn er ljóst að andlegt atgervi kæranda var veruleg skert þegar hún gekkst í ábyrgð vegna lánsins frá 2002 og leikur verulegur vafi á því að hún hafi verið hæf á þeim tíma til slíkrar skuldbindingar. Bar stjórn LÍN að kanna sérstaklega hvort mál kæranda væri nægilega upplýst hvað það varðaði, áður en hún tók ákvörðun í málinu. Ætla má að þeir andlegu annmarkar, sem um er að ræða hjá kæranda, kunni að hafa haft veruleg áhrif á hæfni hennar til að undirgangast ábyrgðina og hún verið óskuldbindandi samkvæmt almennum ógildingarsjónarmiðum samningaréttar. 

Með vísan til framanritaðs er staðfestur úrskurður stjórnar LÍN um að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgð á námsláni nr. S, en felldur er úr gildi úrskurður stjórnar LÍN um að hafna niðurfellingu á ábyrgð á námsláni nr. R.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 11. mars 2010 þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgð á námsláni nr. S er staðfestur. 

Úrskurður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 11. mars 2010 þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgð á námsláni nr. R er felldur úr gildi.

Til baka